Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 229 . mál.


391. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd.

Flm.: Gunnlaugur Stefánsson, Össur Skarphéðinsson, Sigbjörn Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 62 21. apríl 1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, og miði sú endurskoðun m.a. að því að gefa fleiri aðilum kost á því að vinna að markaðsöflun og útflutningi á saltsíld.

Greinargerð.


    Í lögum um síldarútvegsnefnd segir að hún skuli hafa eftirlit með verkun saltaðrar síldar, svo og með útflutningi hennar. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að enginn megi „bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld sem íslensk skip veiða eða verkuð er hér á landi eða lögð á land verkuð, nema löggilding síldarútvegsnefndar komi til“. Enn fremur segir í 8. gr.: „Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum síldarútvegsnefndar, að veita heildarsamtökum síldarsaltenda eða síldarútvegsnefnd einkarétt til útflutnings á saltaðri síld eða einkarétt til útflutnings á saltaðri síld sem verkuð er með tilteknum verkunaraðferðum eða seld til ákveðinna landa.“
    Ljóst má vera að heimild er í lögum um að aðrir flytji út saltaða síld en síldarútvegsnefnd. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin heldur hefur síldarútvegsnefnd alfarið séð um útflutning saltaðrar síldar í krafti einkaréttar er lögin kveða á um.
    Enginn efast um að síldarútvegsnefnd hefur unnið gott starf bæði við stjórnun síldarsöltunar og við útflutning á síldarafurðum. Þótt einkaréttur á útflutningi saltsíldar verði afnuminn mun síldarútvegsnefnd hafa mikilvægu hlutverki að gegna, en með því að gefa fleiri útflytjendum kost á að flytja út saltaða síld hlýtur það að efla markaðsleit, tryggja betur sölu og verð og nýtingu markaða. Lagaákvæðin eru hins vegar úrelt orðin og tímabært að endurskoða þau.
    Vaxandi erfiðleikar við útflutning og sölu saltsíldar á erlendum mörkuðum hljóta að kalla á endurskoðun laga er kveða á um þessi mál. Miklir hagsmunir eru í húfi. Síldarsöltun er stór þáttur í atvinnulífi landsbyggðarinnar og í þjóðartekjum. Brýnt er að leitað verði allra leiða til þess að tryggja hámarksafrakstur atvinnugreinarinnar. Efling útflutningsstarfseminnar er löngu tímabær sem gæfi fleiri útflytjendum kost á að spreyta sig. Að veita fullt frelsi í útflutningi saltsíldar er tímabær aðgerð sem nú verður að framkvæma eins fljótt og auðið er.