Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 116 . mál.


417. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á þinglýsingalögum, nr. 39 10. maí 1978, sbr. lög nr. 85 1. júní 1989.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Þorgeir Örlygsson prófessor.
    Frumvarpið felur í sér að málskot úrlausna í þinglýsingarmálum verður borið undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Úrskurði héraðsdómara verður skotið til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um kæru úrlausna í einkamálum. Verður þinglýsing því dómsathöfn líkt og í núgildandi þinglýsingalögum, nr. 39/1978.
    Frumvarpið mælir fyrir um breytingu á lögum nr. 85/1989 sem breyttu þinglýsingalögum, nr. 39/1978. Lög nr. 85/1989 taka gildi 1. júlí nk. og eru sett í tengslum við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sbr. lög nr. 92/1989, og breyta reglum um málskot í úrlausnum þinglýsingarmála verulega þannig að þinglýsing verði stjórnvaldsathöfn í stað dómsathafnar áður. Með lögum nr. 85/1989 var gerð grundvallarbreyting á eðli þinglýsingar með því að gera hana að stjórnvaldsathöfn en þegar málið var skoðað betur kom í ljós að það fyrirkomulag, sem þetta frumvarp mælir fyrir um, mun þykja hentugra.
    Samkvæmt lögum nr. 85/1989 á þinglýsingarbeiðandi, sem sættir sig ekki við úrlausn þinglýsingarstjóra, tvo kosti. Annars vegar getur hann kært úrlausnina til dómsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru en ekki verður séð af nefndum lögum að dómsmálaráðuneytið geti almennt verið vettvangur þess mats sem þarf að fara fram ef leysa á úr efnisatvikum að baki skjali. Hins vegar getur þinglýsingarbeiðandi höfðað mál til ógildingar úrlausninni. Dómur héraðsdóms í máli til ógildingar verður borinn undir Hæstarétt með áfrýjun.
    Það getur tekið mjög langan tíma að fá úrlausn um þinglýsingarágreining ef allra leiða er leitað sem lög nr. 85/1989 koma til með að heimila, allt að þremur til fjórum árum. Málskotsleiðin, sem frumvarpið mælir fyrir um, styttir þann tíma verulega. Gæti málsmeðferðin samkvæmt því tekið átta til tíu vikur. Málsmeðferðin mun verða einfaldari og horfir til aukins réttaröryggis.
    Mælir meiri hluti nefndarinnar með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 11. febr. 1992.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.



Ólafur Þ. Þórðarson.

Össur Skarphéðinsson.