Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 119 . mál.


457. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Árna R. Árnasonar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

    Hefur ráðherra sett stjórn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vinnureglur eða viðmiðunarreglur umfram fyrirmæli laga nr. 91/1989 og reglugerðar nr. 542/1989 um úthlutanir? Ef svo er, hverjar? Hefur stjórn sjóðsins sjálf sett sér slíkar reglur?
    Rétt er að vekja athygli á að lögin um tekjustofna sveitarfélaga eru nú nr. 90/1990 og reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 390/1991.
    Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar hefur félagsmálaráðherra á hendi yfirstjórn Jöfnunarsjóðs og tekur ákvarðanir um úthlutun framlaga úr sjóðnum, annarra en bundinna framlaga skv. 8. gr. að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar skv. 4. gr.
    Það er einkum við úthlutun stofnframlaga skv. 10. gr. reglugerðarinnar sem nauðsynlegt hefur verið að setja nokkuð ítarlegri vinnureglur eða viðmiðunarreglur en fram koma í reglugerðinni en að sjálfsögðu eru þær grundvallaðar á henni. Ráðgjafarnefndin hefur gert tillögur um slíkar reglur og ráðherra staðfest þær við viðkomandi úthlutun.
    Helstu vinnureglur við úthlutun stofnframlaga hafa verið eftirfarandi:
—    Sveitarfélög með innan við 500 íbúa fá úthlutað allt að því hlutfalli sem tilgreint er í reglugerðinni.
—    Sveitarfélög með 500–800 íbúa fá allt að 40% vegna stofnkostnaðar skv. a- og b-lið 10. gr. reglugerðarinnar og allt að 20% af stofnkostnaði skv. c-lið.
—    Sveitarfélög með 800–2.000 íbúa fá allt að 20% af framkvæmdum skv. a-lið og til skólamannvirkja skv. b-lið.
    Framlög til vatnsveitna miðast við þátttöku í meiri háttar vatnsveituframkvæmdum, þ.e. vatnstökuvirkjum, aðveituæðum og miðlunargeymum. Framlag er því aðeins veitt að fyrirsjáanlegt sé að sveitarfélag geti ekki með hæfilegum vatnsskatti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði veitunnar.
    Við mat á umsóknum er tekið tillit til eftirfarandi atriða:
    1.     Álagðs vatnsskatts. Miðað er við að almennur vatnsskattur ætti að geta verið allt að 0,17% af álagningarstofni og lagður væri á eðlilegur aukavatnsskattur.
    2.     Fjárhags sveitarfélagsins.
    3.     Umfangs framkvæmdar í hlutfalli við stærð sveitarfélags.
    4.     Skuldastöðu vatnsveitu.
    5.     Tekjuafgangs vatnsveitu sem hlutfalls af framkvæmdakostnaði og þá miðað við eðlilegan vatnsskatt, sbr. l. lið.
    Framlög til vatnsveituframkvæmda greiðast eftir á þannig að framlög vegna framkvæmda á árinu 1990 komi til greiðslu 1991.

    Er við úthlutun stjórnar sjóðsins tekið tillit til skuldsetningar sveitarsjóðs? Ef svo er, vegur það þyngra en þörf fyrir verkefni í sveitarfélaginu eða íbúafjöldi þess?
    Framlög til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga, sbr. sveitarstjórnarlög, eru að sjálfsögðu háð skuldsetningu sveitarfélaga. Sama getur einnig átt við um framlög vegna sameiningar sveitarfélaga. Þetta getur líka átt við um stofnframlög skv. 10. gr. reglugerðarinnar en í þeirri grein stendur:
    „Skilyrði þess að sveitarfélag fái framlag skv. 1. mgr. er að það hafi sótt um framlag til félagsmálaráðuneytisins til framkvæmdarinnar og ráðgjafarnefnd hafi samþykkt kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina og styrkhæfni hennar. Nauðsynlegar upplýsingar og gögn skulu fylgja umsókn. Umsóknir þurfa að berast ráðuneytinu fyrir 1. nóvember ár hvert vegna framkvæmda á næsta ári.
    Við úthlutun framlaga samkvæmt þessari grein skal hafa hliðsjón af þörf sveitarfélags fyrir framkvæmdina, tekjumöguleikum, stærð þess og fjárhag og að framlag nýtist til að stytta framkvæmdatíma.“
    Varðandi svar við þessari spurningu vísast einnig til svars við spurningu nr. 1.

    Hvernig flokkast úthlutanir stjórnar sjóðsins á sl. ári eftir sveitarfélögum og verkefnum?
    Sjá meðfylgjandi yfirlit yfir úthlutanir úr sjóðnum á árinu 1990 eftir sveitarfélögum og tegundum framlaga.

    Hvernig skiptast, á sama hátt og í 3. tölul., fyrirliggjandi óafgreidd erindi og erindi sem synjað hefur verið?
    Sjá meðfylgjandi yfirlit yfir umsóknir sem ekki hlutu afgreiðslu eða var synjað við úthlutun stofnframlaga 1990 eftir sveitarfélögum og tegundum framkvæmda.

    Hverjar eru helstu ástæður fyrir synjum erinda og fyrir því að erindi hafi ekki hlotið afgreiðslu?
    Ástæður fyrir synjun umsókna eru fyrst og fremst að úthlutanir hefðu þá ekki samrýmst úthlutunarreglum sjóðsins en sjóðurinn hefur yfir takmörkuðu fjármagni að ráða. Synjanir varðandi úthlutanir stofnframlaga eru algengastar, sjá svar við 1. spurningu.
    Ástæður fyrir frestun á afgreiðslu eru einkum að nauðsynleg gögn og upplýsingar liggja ekki fyrir á réttum tíma og undirbúningur því ófullnægjandi. Einnig hefur verið lögð á það áhersla að sveitarfélag fengi ekki framlög til margra framkvæmda samtímis. Frestun á afgreiðslu umsókna á því nær eingöngu við um stofnframlög.





REPRÓ