Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 285 . mál.


477. Tillaga til þingsályktunar



um veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Gunnlaugur Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika Íslendinga á veiðiheimildum í fiskveiðilögsögu annarra ríkja, einkum þeirra sem eiga lögsögu í Barentshafi, auk annarra þjóða í Rússneska sambandslýðveldinu, Suður-Ameríku, Asíu og Afríku.

Greinargerð.


    Mælingar vísindamanna á ástandi fiskstofna í Barentshafi benda til að þorskstofnar í hafinu séu á örri uppleið og gert er ráð fyrir að veiðiheimildir margfaldist á þessum áratug.
    Nú þegar hafa bæði Færeyingar og Grænlendingar náð samningum um heimildir til þorskveiða í Barentshafi. Ljóst er af mælingum á ástandi stofna við Ísland að illa horfir um viðgang þorsks í íslenskri fiskveiðilögsögu á allra næstu árum. Með hliðsjón af því er rökrétt að Íslendingar leiti hófanna um heimildir til veiða á þorski í Barentshafi og feti þannig í fótspor granna okkar.
    Jafnframt er ljóst að miklir vannýttir fiskstofnar eru fyrir ströndum margra ríkja í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu, auk ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. Til skamms tíma hefur erlendum þjóðum að langmestu leyti verið meinað að veiða í landhelgi þessara ríkja. Á síðustu árum hafa hins vegar viðhorf til veiða erlendra aðila breyst þar verulega. Ráðamenn þeirra gera sér í vaxandi mæli grein fyrir að með því að heimila erlendum þjóðum veiðar, annaðhvort gegn gjaldi eða gegn því að aflinn verði lagður upp í viðkomandi landi, er verið að flytja inn atvinnu, fjármagn og dýrmæta tækniþekkingu. Til dæmis um þetta má nefna lönd á borð við Kólumbíu í Suður-Ameríku, Angóla og Namibíu í Afríku, Burma og Óman í Asíu og Kamtsjatka í Rússneska sambandslýðveldinu. Í flestum þessum löndum eru nú útgerðarfyrirtæki frá Norður-Evrópu að leita hófanna með veiðiheimildir.
    Hér á landi er þróun í útgerð með þeim hætti að veiðiheimildir safnast á færri skip en áður. Sífellt fleiri skip, sem ekki hafa neinar heimildir til veiða, falla til af þeim sökum. Markaður fyrir þau er nær enginn. Það þjónar því augljóslega hagsmunum íslensku þjóðarinnar ef í öðrum heimsálfum er hægt að finna þeim hlutverk sem skila tekjum heim.
    Enn fremur er líklegt að í kjölfar sigldi sala á alhliða tækniþekkingu úr íslenskum sjávarútvegi. Þannig væri enn frekar stuðlað að því að nýta innlend tæki og þekkingu til að afla okkur gjaldeyris.
    Rétt er að minna á að með þjóðum þriðja heimsins njóta Íslendingar víða mikillar vildar og sjávarútvegur okkar er þar talinn eftirbreytni verður. Að líkindum mundi okkur því ekki ganga verr en öðrum þjóðum að afla þar veiðiheimilda. Jafnframt mundi sala til þjóða þriðja heimsins á þekkingu okkar á veiðum og vinnslu ekki aðeins skapa Íslendingum tekjur heldur líka efla atvinnu með viðkomandi þjóðum, stuðla þar að uppbyggingu innlends sjávarútvegs og þar með efla sjálfshjálp og verðmætasköpun.