Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 314 . mál.


598. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Stefánssonar um fríverslunarsamning við Færeyjar.

    Hvenær er gert ráð fyrir að gerð fríverslunarsamnings við Færeyjar ljúki?
    Gert er ráð fyrir að undirskrift fríverslunarsamnings Íslendinga og Færeyinga verði í apríl nk. Samningsaðilar hafa náð samkomulagi um gildistöku samningsins 1. júlí 1992.

    Hverjar voru helstu útflutningsvörur Íslendinga til Færeyja eftir vöruflokkum árin 1989, 1990 og 1991?
    Hjálagt fylgir tafla yfir vöruviðskipti Íslendinga og Færeyinga árin 1989, 1990 og 1991. Til glöggvunar má benda á að fiskfóður hefur verið um 50% af vöruútflutningi Íslendinga til Færeyja og fryst kindakjöt um 10%. Árið 1989 var fersk loðna til bræðslu um 14% af vöruútflutningnum til Færeyja en hefur ekki verið nein síðan, það orsakast m.a. af minni loðnuafla. Árið 1990 var útflutningurinn til Færeyja meiri en venjulega sem skýrist af sölu á gömlum skipum fyrir 367,4 millj. kr. og miklum útflutningi á fiskfóðri.

    Hvert var verðmæti þessa útflutnings (fob)?
    Sjá meðfylgjandi töflu.

    Er gert ráð fyrir að allir þessir vöruflokkar rúmist innan væntanlegs fríverslunarsamnings?
    Meginmál samningsdraganna gerir ráð fyrir fríverslun með afurðir sem falla undir kafla 25 til 97 í sameiginlegu tollskránni, þ.e. iðnaðarvörur. Að auki eru samningsaðilar sammála um algera fríverslun með sjávarafurði. Færeyingar bjóða einnig einhliða fríverslun með flestar landbúnaðarafurðir (með heimild til verðjöfnunargjalda), að undanskildu kinda- og geitakjöti, mjólk og jógúrt. Íslendingar munu áfram hafa möguleika á því að selja kindakjöt til Færeyja þar sem Færeyingar bjóða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir íslenskt lambakjöt en enn hefur ekki náðst samkomulag um magn. Á móti gera Færeyingar kröfu um að Íslendingar opni markað sinn fyrir vatni og bjór frá Færeyjum.
    Allar þær afurðir, sem Íslendingar hafa flutt út til Færeyja undanfarin ár, rúmast því innan væntanlegs fríverslunarsamnings.


Repró.