Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 370 . mál.


600. Tillaga til þingsályktunar



um velferð barna og unglinga.

Flm.: Jón Helgason, Björn Bjarnason, Gunnlaugur Stefánsson,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jóhann Ársælsson, Ingibjörg Pálmadóttir,


Hjálmar Jónsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


Margrét Frímannsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt og semja skýrslu um orsakir vaxandi erfiðleika og hættur fyrir börn og unglinga sem koma m.a. fram í aukinni neyslu vímuefna, sjálfsvígum, ofbeldi og öðrum afbrotum.
     Til að vinna að þessu verkefni skipi ríkisstjórnin nefnd með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Í starfi sínu leiti nefndin upplýsinga hjá þeim stofnunum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem um þetta málefni hafa fjallað.
     Nefndin skili skýrslu sinni og ábendingum um úrbætur svo fljótt að taka megi málið til meðferðar á næsta Alþingi í samræmi við þá niðurstöðu sem nefndin kemst að í starfi sínu.

Greinargerð.


     Flestum mun ljóst að sívaxandi fjöldi barna og unglinga lendir í miklum erfiðleikum áður en þau hafa náð fullorðinsaldri. Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma þeim sem þannig hefur farið fyrir til hjálpar og beina þeim aftur á rétta braut. Hins vegar virðist minni áhersla hafa verið lögð á að gera sér grein fyrir hvaða ytri aðstæður í þjóðfélaginu eiga þátt í þessari uggvænlegu þróun, enda þótt allir eigi að vita að það eru ekki börnin og unglingarnir sem skapa það umhverfi sem þau alast upp í. Þvert á móti er það auk heimilanna þjóðfélagið í heild og þá ekki síst ríkisvaldið. Það er því algjörlega óverjandi að Alþingi horfi aðgerðalaust á þegar segja má að nær daglega berist fréttir sem staðfesti í hvert óefni er komið í þjóðfélaginu.
     Bent hefur verið á ýmsar ástæður fyrir þessari óheillaþróun, svo sem aukið lífsgæðakapphlaup með skemmri tíma foreldra með börnum sínum. Oft má líka rekja aðdragandann til neyslu áfengis og annarra vímuefna þó að stundum virðist tilhneiging til að draga fjöður yfir þá staðreynd. Til þess að geta komið í veg fyrir að áfram sígi á ógæfuhliðina og snúa málum til betri vegar er hins vegar nauðsynlegt að gera sér undanbragðalaust grein fyrir því hverjar orsakirnar eru. Margvíslegar staðreyndir liggja fyrir hjá þeim aðilum sem fást við afleiðingarnar, svo sem lögreglu, læknum, félagsmálastofnunum, prestum og mörgum fleiri.
     Með þessari tillögu er því ekki ætlast til að farið verði út í tímafrekar vísindalegar rannsóknir heldur að safnað verði saman fyrirliggjandi upplýsingum og mat lagt á þær. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir hlýtur Alþingi að grípa til áhrifaríkra aðgerða. Það getur enginn og allra síst alþingismenn vikist undan þeirri ábyrgð sem þeir bera á velferð barna og unglinga í þjóðfélaginu. Þótt oft sé bent á að aukið fjármagn geti komið að gagni við að reyna að bjarga einhverju þegar slysin hafa gerst er það áreiðanlega fyrst og fremst hugarfarsbreyting og vilji til að sýna hana í verki, sérstaklega hjá þeim sem forræði hafa í þjóðfélaginu, sem vega þyngst í baráttunni við að koma í veg fyrir hin margvíslegu andlegu og líkamlegu slys.