Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 325 . mál.


620. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Árna M. Mathiesen um auglýsinga- og kynningarkostnað sjávarútvegsráðuneytis.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver var auglýsinga- og kynningarkostnaður sjávarútvegsráðuneytis á árinu 1990 annars vegar og fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 hins vegar?
    Hvaða aðilar fengu greiðslur vegna þessa kostnaðarliðar?
    Hversu háar voru greiðslurnar og hvenær voru þær greiddar?
    Fyrir hvað var greitt?
    Voru einhverjar reglur í gildi í ráðuneytinu varðandi þessi atriði?


    Samkvæmt bókhaldsgögnum ráðuneytisins eins og sjá má á meðfylgjandi yfirliti nam auglýsingakostnaður sjávarútvegsráðuneytis á greiðslugrunni um 3.041 þús. kr. á árinu 1990 og 2.145 þús. kr. á árinu 1991. Þar af voru greiddar tæpar 815 þús. kr. á tímabilinu janúar til apríl 1991. Kostnaður af útgáfu kynningarbæklings um ný lög um stjórn fiskveiða nam um 1.642 þús. kr. og var greiddur á tímabilinu janúar til júlí 1991.
    Núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett í maí 1990 og tóku gildi 1. janúar 1991. Í þeim var kveðið á um að öll skip, einnig bátar minni en 10 brúttólestir, skyldu fá úthlutað aflamarki. Sú skylda var þar með lögð á ráðuneytið að úthluta öllum smábátum aflamarki. Því þurfti að kynna þessi nýmæli fyrir hugsanlegum rétthöfum, þ.e. smábátaeigendum, og koma skilaboðum til þeirra um fyrirkomulag umsókna og umsóknarfresti. Það var m.a. gert með auglýsingum í útvarpi og blöðum. Í því sambandi ber að geta þess að oft þótti ekki síður rétt að nota landsmálablöð en dagblöð. Þetta nýmæli í lögunum um stjórn fiskveiða skýrir af hverju auglýsingakostnaður á árinu 1990 er hærri en á árinu 1991. Að þessu atriði slepptu auglýsti ráðuneytið bann við netaveiðum, bann við veiðum á ákveðnum tímabilum, reglur um aflamark vegna línuveiða, hvatningar til útgerðarmanna um að skila kvótaskýrslum sem og aflaskýrslum og fleiri þess háttar atriði tengd fiskveiðistjórnuninni. Þá voru lausar stöður auglýstar, svo og var r/s Hafþór auglýstur til sölu. Þessu til viðbótar voru lög, reglugerðir, gjaldskrár Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Ríkismats sjávarafurða ásamt fleiri stjórnvaldsfyrirmælum birt í Stjórnartíðindum. Á árinu 1991 var til viðbótar hefðbundnum auglýsingum gefinn út bæklingur um stjórn fiskveiða.




Repró.