Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 420 . mál.


678. Frumvarp til laga



um starfsréttindi norrænna ríkisborgara.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Lög þessi gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til og falla undir samninga sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna menntunar er veitir starfsréttindi.

2. gr.


    Ríkisborgarar norrænna ríkja, sem uppfylla skilyrði í samningum sem falla undir 1. gr., eiga rétt á að gegna hér á landi starfi sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara.

3. gr.


    Það ráðuneyti, sem fer með málefni er varða hlutaðeigandi starf, skal sjá um að skilyrði þau, sem greinir í 2. gr. til að gegna starfinu, hafi verið uppfyllt.

4. gr.


    Ráðherra, sem í hlut á, getur með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í samningi sem fellur undir 1. gr.
     Ráðherra, sem í hlut á, getur sett reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun eftir því sem við á. Má þar ákveða að umsækjandi skuli greiða kostnað vegna prófs eða viðbótarmenntunar. Ráðherra setur og reglur um gjöld er krefja má vegna umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi.

5. gr.


    Menntamálaráðuneytið skal sjá um samræmingu á framkvæmd þeirra samninga sem fjallað er um í 1. gr.

6. gr.


    Menntamálaráðuneytið, svo og ráðuneyti sem í hlut á, sbr. 4. gr., geta krafið umsækjanda um upplýsingar sem þörf er á til að taka megi afstöðu til umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Á undanförnum árum hefur Ísland gerst aðili að nokkrum Norðurlandasamningum um sameiginlegan norrænan vinnumarkað ýmissa starfsstétta sem fela m.a. í sér gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda. Enda þótt samningar þessir hafi verið fullgiltir af Íslands hálfu hefur löggjöf ekki verið samræmd efni þeirra.
     Nú seinast var samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun er veitir starfsréttindi undirritaður í Kaupmannahöfn 24. október 1990, sjá fskj. I.
     Markmið með frumvarpi þessu er að framfylgja ákvæðum þessa samnings og jafnframt að greiða fyrir því að öðrum samningum um norrænan vinnumarkað fyrir sérmenntaðar starfsstéttir, sem Ísland á aðild að, sjá bls. 5, eða gerist aðili að, verði framfylgt hér á landi.

Samningur um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja


ára æðri menntun er veitir starfsréttindi.



1. Almennt.
    Tilgangur samnings þessa er að auðvelda norrænum ríkisborgurum með minnst þriggja ára æðri menntun, sem kjósa að gegna starfi, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, í öðru landi en þar sem þeir hafa aflað sér starfsréttinda, að flytjast á milli landa.
     Samningurinn gildir um norræna ríkisborgara er lokið hafa a.m.k. þriggja ára æðra námi sem veitir starfsréttindi á ákveðnu starfssviði. Grundvöllur samningsins er sú staðreynd að æðri menntun á Norðurlöndum telst í meginatriðum jafngild. Því eiga norrænir ríkisborgarar, sem lokið hafa námi er samningurinn nær til, að vera hæfir til að gegna starfi eða sækja um stöðu annars staðar á Norðurlöndum er lög eða aðrar reglur kveða á um að þeir einir megi gegna sem lokið hafi ákveðnu námi þar í landi. Frumreglan skal vera sú að þótt umsækjandi sé ríkisborgari á einhverju öðru Norðurlandanna á það ekki að koma í veg fyrir að hann fái starfsréttindi viðurkennd eða verði talinn hæfur umsækjandi um stöðu í því landi sem hann býr. Þó er gerð undanþága hvað snertir viss störf í opinberri stjórnsýslu, stöður við réttarkerfið, hjá lögreglu og við landvarnir, svo og stöður er skipta máli fyrir þjóðaröryggi.

2. Menntun.
    
Í 1. gr. segir að samningurinn gildi um einstaklinga er lokið hafi þriggja ára æðri menntun í fullu námi eða jafnlöngu námi í hlutanámi sem veiti starfsréttindi á ákveðnu starfssviði. Þar er og að finna skilgreiningu á hugtakinu æðri menntun því skipulag menntamála á Norðurlöndum er ekki alveg eins í löndunum. Einnig kemur fram í greininni að samningurinn nær ekki til þeirra starfsgreina sem fyrri samningar um samnorrænan vinnumarkað gilda um.
     Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. á einstaklingur með menntun, sem samningurinn nær til og hlotið hefur löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu að lögum til að starfa í ákveðinni grein á einu Norðurlandanna, rétt á því að fá starfsréttindin viðurkennd annars staðar á Norðurlöndum samkvæmt þeim skilyrðum sem tilgreind eru í samningnum. Þetta gildir þó svo að umsækjandinn hafi verið löggiltur á grundvelli menntunar sem ekki var sótt til Norðurlanda.
     Hvað snertir málflutningsmenn og endurskoðendur (í Danmörku einnig landskiptamenn) geta samningsríkin þó ætíð krafist þess að umsækjandi hafi fengist við starfið í þrjú ár hjá viðurkenndum málflutningsmanni eða endurskoðanda í því landi sem umsækjandi býr. Í stað þessarar starfsreynslu getur viðkomandi land krafist þess að umsækjandi gangi undir hæfnispróf. Landið, sem umsækjandi býr í, ákveður hvorri aðferðinni skuli beitt, starfsreynslu eða hæfnisprófi. Í 6. gr. segir að geri landið, sem umsækjandi býr í, kröfu um starfsreynslu eigi aðrar starfsstéttir en málflutningsmenn og endurskoðendur rétt á því að telja með þá starfsreynslu sem fengin er á einhverju Norðurlandanna.
     Fyrstu fjórar málsgreinar 2. gr. eru samdar með sjálfstæðan rekstur í huga. Í 5. mgr. er fjallað um stöður sem lög eða aðrar reglur gilda um. Þar segir að sé ráðning í vissar stöður á einhverju Norðurlandanna samkvæmt lögum eða reglugerð bundin því skilyrði að lokið sé ákveðnu innlendu námi er samningurinn nær til geti einnig þeir sótt um stöðurnar er hafa samsvarandi menntun sem að stærstum hluta er sótt til einhvers hinna Norðurlandanna.
    Í vissum greinum getur námstími í löndunum verið mismunandi. Sé munurinn meiri en eitt ár getur skv. 7. gr. sá samningsaðili með lengri námstímann krafist þess að umsækjandi hafi annaðhvort unnið við greinina í tvöfalt lengri tíma en sem nemur mismuninum á námstíma eða hann fari í viðbótarnám sem eftir atvikum má ljúka með þekkingarprófi.
     Í 3. gr. segir að hvert landanna geti krafist þess að umsækjendur hafi næga þekkingu á þeirri löggjöf og þeim stjórnsýslureglum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir viðkomandi grein. Verið getur um að ræða öryggisfyrirmæli, byggingarstaðla eða annað sem skiptir miklu máli fyrir starfið.

3. Tungumálakunnátta.
    
Í 4. gr. er fjallað um þær kröfur sem gera má til umsækjenda um starfsviðurkenningu og kunnáttu í öðrum norrænum málum. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð má krefjast þess að umsækjandi hafi nægilega kunnáttu í einu málanna, dönsku, norsku eða sænsku, en hvað þetta snertir geta viðkomandi ríki ekki gert ákveðnar kröfur. Í Noregi má þannig ekki krefjast nægilegrar kunnáttu í norsku. Þar ber að viðurkenna umsækjanda sem ekki kann norsku en talar næga dönsku eða sænsku. Finnland og Ísland geta krafist þess að umsækjandi hafi eftir því sem við á nægilega kunnáttu í finnsku eða íslensku. Einstök lönd ákveða sjálf hvað telst nægileg kunnátta á einstökum sviðum og þau geta einnig sjálf ákveðið hvernig sanna á tungumálakunnáttu.

4. Ríkisfang.
    
Í 10. gr. er fjallað um ákveðin atriði ef ríkisfang er gert að skilyrði fyrir sjálfstæðum rekstri. Þar kemur fram að ekki má gera viðurkenningu á starfsréttindum háða því að umsækjandi hljóti ríkisfang í því landi sem hann hyggst starfa í. Ráðning í stöðu, þar sem gerð er krafa um menntun er samningurinn nær til, má allajafna ekki vera háð því að umsækjandi hljóti ríkisfang í því landi þar sem sótt er um stöðuna. Ákveðnar stöður eru undanþegnar þessari reglu. Æðri stöður í opinberri stjórnsýslu eru undanþegnar reglunni, enn fremur stöður við réttarkerfið, ákæruvald og fullnustuvald, hjá lögreglu og við landvarnir, svo og aðrar stöður sem skipta máli fyrir þjóðaröryggi. Stöður þessar má einskorða við eigin ríkisborgara.

5. Annað.
     Í 8. gr. er að finna ákvæði um hvernig sótt er um viðurkenningu og ákvarðanaferlið. Viðurkenna skal starfsréttindi umsækjanda er uppfyllir gerðar kröfur samkvæmt samningnum eða dæma hann hæfan umsækjanda um stöðu svo fremi ekki séu fyrir hendi ástæður sem leitt geti til afturköllunar viðurkenningarinnar. Nánari ákvæði um afturköllun viðurkenningar eru í 9. gr. Í 8. gr. segir og að viðurkenningarvald skal taka rökstudda ákvörðun innan fjögurra mánaða frá því að lögð voru fram nauðsynleg gögn með umsókninni. Ákvörðun, sem er umsækjanda í óhag, má skjóta til æðra stjórnvalds samkvæmt þeim reglum er gilda um málskot í viðkomandi landi.
     Í 11. gr. er að finna ákvæði um að við ráðningu eigi að telja umsækjanda til tekna fyrra starf á einhverju öðru Norðurlanda. Samkvæmt 12. gr. á starfsmaður með menntun frá einhverju öðru Norðurlandanna að vera jafnt settur eigin þegnum hvað varðar rétt til launa, eftirlauna og annarra réttinda sem tengjast stöðunni. Í 13. gr. er aðildarríkjunum álagt að breyta eins og kostur er eigin löggjöf í samræmi við það sem segir í 5. mgr. 2. gr. og 10.–12. gr. hvað störf hjá ríkinu áhrærir. Þau eiga auk þess að vinna að því að þessar reglur gildi einnig um störf hjá öðrum en ríkinu. Aðildarríkin geta þó sett eða haldið við ákvæðum um að skilyrði fyrir stöðu við réttarkerfið að fullnustuvaldinu meðtöldu sé nægileg starfsreynsla í þrjú ár eða umsækjandi hafi staðist hæfnispróf.
     Í 14. gr. er loks vísað til samnings og bókunar frá 6. mars 1982 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Í þeirri bókun er m.a. ákvæði um að íslensk stjórnvöld geti gripið til ráðstafana „í því skyni til að koma í veg fyrir röskun jafnvægis vegna hópflutninga starfsfólks eða meiri háttar flutninga einstaklinga sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum“.

Gildissvið frumvarpsins.


    Ákveðið hefur verið að samningurinn um norrænan vinnumarkað fólks með minnst
þriggja ára æðri menntun, er veitir starfsréttindi, skuli vistaður í menntamálaráðuneytinu. Í bókun, sem fylgir samningnum, er því lýst yfir að samningsaðilar muni vinna að breytingum á landslögum í samræmi við það sem samningurinn gerir ráð fyrir.
     Fyrir hendi eru tveir kostir um hvernig standa megi að breytingum á íslenskum lögum þannig að tryggja megi að þau verði í samræmi við ákvæði samningsins. Annars vegar að setja rammalöggjöf sem kvæði á um starfsréttindi norrænna ríkisborgara hérlendis í samræmi við samninginn og gilti hún einnig um aðra hliðstæða norræna samninga. Hins vegar að gera breytingar á öllum lögum um starfsréttindi til samræmis við samninginn. Ljóst er að seinni leiðin er nokkru tímafrekari og flóknari. Með þessu frumvarpi er lagt til að fyrri leiðin um setningu rammalöggjafar verði valin. Hins vegar má telja eðlilegt að í framhaldi af setningu slíkrar löggjafar verði einstök ákvæði eldri laga um starfsréttindi endurskoðuð og aðlöguð samningsskuldbindingum.
     Frumvarp þetta er undirbúið í menntamálaráðuneytinu í samráði við þau ráðuneyti sem efni þeirra samninga, sem lögin mundu einkum ná til, heyra undir. Við samningu frumvarpsins hefur m.a. verið stuðst við dönsk lög sem sett voru til þess að auðvelda fullgildingu danskra stjórnvalda á ákvæðum samningsins frá 24. október 1990 og löggjöf Evrópubandalagsins um gagnkvæm starfsréttindi.
     Eins og áður segir kveður samningurinn á um að norrænn ríkisborgari, sem hlotið hefur í einhverju aðildarlandanna löggildingu eða önnur sambærileg atvinnuréttindi á grundvelli náms á háskólastigi sem eigi sé skemmra en þriggja ára, skuli, með þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, eiga rétt á viðurkenningu til starfa í sérhverju öðru aðildarlandi þar sem slíkrar löggildingar er krafist. Skilyrði, sem setja má fyrir viðurkenningu, eru einkum málakunnátta og þekking á innlendri löggjöf og stjórnarfarsreglum er sérstaka þýðingu hafa fyrir starfið.


     Samningurinn gildir um eftirfarandi störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til að gegna hér á landi en þau falla undir ráðuneyti, svo sem hér segir:

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti:
    
Dómarar, sýslumenn (lögreglustjórar), saksóknarar, lögmenn, niðurjöfnunarmenn sjótjóns og sóknarprestar.

Fjármálaráðuneyti:
    
Endurskoðendur og ríkisstarfsmenn almennt.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti:
    
Félagsráðgjafar, hnykkar (kiropraktor), matvælafræðingar, meinatæknar, náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu, næringarfræðingar, næringarráðgjafar, talmeinafræðingar, þroskaþjálfar og tryggingastærðfræðingar.

Menntamálaráðuneyti:
    
Bókasafnsfræðingar.

Umhverfisráðuneyti:
    
Arkitektar, búfræðingar á tæknisviði, tæknifræðingar, verkfræðingar.

     Samningurinn um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun, er veitir starfsréttindi, nær ekki til fólks sem þegar fellur undir samninga sem áður hafa verið gerðir um norrænan vinnumarkað. Slíkir samningar, sem falla mundu undir ákvæði frumvarpsins, eru:
    Samningur frá 25. ágúst 1981 um viðurkenningu á starfsréttindum ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1982, 11/1983, 13/1989, 4/1990, 31/1990. Samningurinn tekur til eftirtalinna starfsstétta: lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, ljósmæður, heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, gleraugna- og sjónfræðinga, sálfræðinga, aðstoðarlyfjafræðinga, röntgentækna, gæslumanna, aðstoðarmanna tannlækna, tannsmiða, sjúkraliða og dýralækna. Ísland hefur gerst aðili að samningnum að því er varðar aðra en tannlækna, heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, gæslumenn, aðstoðarmenn tannlækna og tannsmiði.
    Samningur frá 3. mars 1982 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara (bekkjarkennara) í grunnskólum, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 11/1982.
    Samningur frá 29. september 1986 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara og sérkennara í grunnskólum, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 13/1988.
    Samningur frá 29. september 1986 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara í framhaldsskólum, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 14/1988.
     Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hefur einnig verið unnið að gerð samnings um norrænan vinnumarkað fyrir fólk sem lokið hefur starfsmenntun í framhaldsskóla eða allt að þriggja ára starfsmenntun eftir framhaldsskóla. Ef slíkur samningur verður að veruleika mundi hann falla undir ákvæði þessa frumvarps. Óljóst er hins vegar um framhald þess starfs vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði.

Áhrif á aðra löggjöf.


    Ákvæði í lögum eða reglugerðum, sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda, eru í andstöðu við efni samningsins frá 24. október 1990 og hliðstæða norræna samninga (að því er gildissvið þeirra varðar). Með 4. gr. frumvarpsins er því lagt til að ráðherra, sem í hlut á, geti með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í samningi sem fellur undir 1. gr. Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er enn fremur lagt til að ráðherra, sem í hlut á, geti, þar sem það á við, sett reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun. Að því er varðar störf hjá ríkinu er þó vakin athygli á 3. mgr. 10. gr. samningsins þar sem segir: „Æðri stöður í opinberri stjórnsýslu, stöður við réttarkerfið, ákæruvald og fullnustuvald, hjá lögreglu og við landvarnir, svo og aðrar stöður sem hafa þýðingu fyrir þjóðaröryggi, má þó ætla eigin ríkisborgurum einum.“
     Eins og bent er á að framan er rétt að í framhaldi af setningu þessarar löggjafar, ef til kæmi, verði eldri löggjöf um störf, sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til, endurskoðuð og aðlöguð samningsskuldbindingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um gildissvið laganna. Athygli er vakin á því að greinin gildir jafnt um samninga á þessu sviði á milli ríkisstjórna Norðurlanda sem búið er að staðfesta og samninga er kunna að verða gerðir síðar meir. Slíkir samningar öðlast þó ekki gildi fyrr en þeir hafa verið fullgiltir að undangenginni heimild Alþingis.
     Með störfum, sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til, er átt við það þegar lög, reglugerðir eða aðrar stjórnvaldsreglur beint eða óbeint áskilja tiltekið próf sem skilyrði fyrir leyfi til að gegna starfi. Störf, þar sem löggildingar, leyfis eða annarrar jafnsettrar viðurkenningar er ekki krafist, falla undir almenna samninginn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað frá 6. mars 1982 en þar er kveðið á um gagnkvæman aðgang norrænna ríkisborgara að vinnumarkaði einstakra aðildarríkja.

Um 2. gr.


    Kveðið er á um skilyrði þess að heimild sé veitt til að gegna starfi hérlendis. Ákvæðið tekur einungis til norrænna ríkisborgara. Þess er krafist að viðkomandi uppfylli ákvæði norrænna samninga sem vísað er til í 1. gr. Enn fremur er ákveðið að sömu skilmálar eigi við um heimild til að gegna fyrrgreindum störfum og gilda um íslenska ríkisborgara. Í samningum þeim, sem gerðir hafa verið, er sérstaklega vikið að því að áskilja megi að umsækjandi kunni nægileg skil á íslenskri tungu.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að þau ráðuneyti, sem nú fjalla um umsóknir til að gegna starfi hérlendis þar sem löggildingar, leyfis eða annarar jafnsettrar viðurkenningar er krafist, sjái um að skilyrði 2. gr. hafi verið uppfyllt. Þegar lög eða reglugerðir kveða á um veitingu leyfisbréfa til starfsréttinda annast viðkomandi stjórnvald útgáfu þeirra.

Um 4. gr.


    Að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í samningi sem fellur undir 1. gr. er lagt til í 1. mgr. 4. gr. að ráðherra, sem í hlut á, geti með reglugerð veitt undanþágu frá lögum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda. Með 3. mgr. 10. gr. samningsins frá 1990 er ákveðið að tilteknar æðri stöður og stöður er varða þjóðaröryggi megi ætla ríkisborgurunum einum. Ganga verður út frá því að ákvæði þessu verði m. a. beitt um stöður dómara, sýslumanna (lögreglustjóra) og saksóknara, sbr. og ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að engan megi skipa embættismann nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.
     2. mgr. heimilar hlutaðeigandi stjórnvaldi, eftir því sem við á, að innheimta gjald fyrir að efna til viðbótarmenntunar eða hæfnisprófa. Forsenda slíkrar gjaldtöku er þó að erlendir ríkisborgarar sitji við sama borð og Íslendingar varðandi greiðslu fyrir þátttöku í prófum eða námskeiðum.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið gegni hlutverki samræmingaraðila. Hins vegar mun hlutaðeigandi stjórnvald fara með sín málefni, sbr. ákvæði 3. gr. Vegna samræmingar getur orðið nauðsynlegt að viðkomandi stjórnvöld sendi menntamálaráðuneytinu upplýsingar um afgreiðslu á umsóknum um starfsréttindi.

Um 6. gr.


    Nauðsynlegt kann að vera að krefja umsækjanda um upplýsingar er varða menntun hans eða starfsreynslu.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.

Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar


um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára


æðri menntun sem veitir starfsréttindi.



Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,

     sem 6. mars 1982 gerðu með sér samning um sameiginlegan norrænan vinnumarkað;

     sem samkvæmt 14. gr. samstarfssamningsins milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 23. mars 1962 skulu leitast við að varðveita og þróa enn betur hinn sameiginlega norræna vinnumarkað;

     sem telja að það verði til heilla fyrir þróun efnahags- og þjóðfélagsmála á Norðurlöndum að fólk, sem hlotið hefur með fullu námi í minnst þrjú ár æðri menntun sem veitir starfsréttindi, njóti fulls frelsis til að flytjast milli landa þessara;

     sem telja að sú menntun þessa fólks, sem opinberar reglur gilda um af hálfu aðilanna, sé í meginatriðum jafngild;

     sem vilja vinna að því að koma á fullnægjandi skilyrðum til menntunar þessa fólks hjá sérhverjum aðilanna, svo og að menntun og löggjöf, er varðar þetta fólk, verði sem líkust;

     sem telja að til þess að fólk njóti fulls frelsis til að flytjast milli Norðurlanda verði viðurkenning á hvers konar menntun sem veitir starfsréttindi að vera gagnkvæm;

     hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Gildissvið.


1. gr.


    Samningur þessi gildir um fólk sem er ríkisborgarar eins aðilanna og hlotið hefur með fullu námi í minnst þrjú ár æðri menntun sem veitir því réttindi til starfa eða hæfi til ráðningar. Samningurinn nær einnig til þeirra sem hafa hlotið menntun sem samningurinn nær til með jafnlöngu námi í hlutanámi.
     Með æðri menntun er í samningi þessum átt við menntun þar sem venjuleg inngönguskilyrði eru að áður hafi verið lokið í framhaldsskóla annaðhvort almennu námi eða starfsréttindanámi.
     Með námstíma er í samningi þessum átt við þá lengd sem ákveðin er í reglum fyrir viðkomandi nám.
     Samningurinn nær ekki til fólks sem þegar fellur undir
     — samning frá 25. ágúst 1981 um norrænan vinnumarkað starfsfólks við heilbrigðisþjónustu og dýralækningar
     — samning frá 3. mars 1982 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara (bekkjarkennara) í grunnskólum
     — samning frá 29. september 1986 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara og sérkennara í grunnskólum eða
     — samning frá 29. september 1986 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara í framhaldsskólum.

2. gr.


    Sá sem hjá einum aðilanna hefur fengið löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu að lögum til starfa vegna einhverrar þeirrar menntunar sem samningurinn nær til skal eiga rétt á að fá, með þeim skilyrðum sem sett eru í samningi þessum, viðurkenningu hjá sérhverjum hinna aðilanna þar sem eru ákvæði um slíka viðurkenningu.
     Viðurkenningunni fylgir réttur til að bera viðkomandi starfsheiti.
     Í samningi þessum teljast einnig viðurkenningarvald starfsgreinasamtök sem samkvæmt landslögum hafa rétt til að taka inn félagsmenn með þeim afleiðingum að félagsmaðurinn fær rétt til að stunda þá starfsemi og bera það starfsheiti sem ætlað er félagsmönnum samtakanna einum og verður háður agavaldi samtakanna.



     Starfsmenn, sem hafa hlotið menntun sína hjá aðila þar sem ekki eru ákvæði um viðurkenningu starfsmanna í viðkomandi starfsgrein, skulu eiga rétt á að fá viðurkenningu hjá þeim aðilum þar sem slíkrar viðurkenningar er krafist, með þeim skilyrðum sem tekin eru fram í 5. gr.
     Hafi aðili ákveðið með lögum eða öðrum reglum að ráðning í ákveðnar stöður sé háð því að viðkomandi hafi lokið þar í landi námi sem samningur þessi nær til eru einnig gildar um þær stöður umsóknir frá þeim sem hafa hlotið menntun sem er í meginatriðum sambærileg þeirri menntun sem krafist er og hefur að mestu verið aflað hjá öðrum aðila. Slíkir umsækjendur eiga kröfu til að verða metnir til jafns við umsækjendur sem hafa hlotið þá menntun sem viðkomandi aðili hefur staðið fyrir, að því tilskildu að þeir fullnægi tungumálakröfum 4. gr.

Almenn skilyrði.


3. gr.


    Aðili getur sett það skilyrði fyrir viðurkenningu að umsækjandi þekki nægilega vel löggjöf og stjórnarfarsreglur sem hafa sérstaka þýðingu fyrir starf viðkomandi hjá aðilanum. Þessi skilyrði skulu vera að því marki sem nauðsynlegt er og nægilegt til að sinna því tiltekna starfi á viðhlítandi hátt.

4. gr.


    Danmörk, Noregur og Svíþjóð geta sett það skilyrði fyrir viðurkenningu að umsækjandi kunni nægilega skil á danskri, norskri eða sænskri tungu.
     Finnland og Ísland geta sett það skilyrði fyrir viðurkenningu að umsækjandi kunni, eftir því sem við á, nægileg skil á finnskri eða íslenskri tungu.
     Finnland getur í stað kunnáttu í finnskri tungu krafist þess að umsækjandi kunni nægileg skil á sænskri tungu þar sem slíks er krafist í finnskum lögum. Við sömu kringumstæður getur Finnland krafist þess að umsækjandi kunni nægileg skil á bæði finnskri og sænskri tungu.

Sérstök skilyrði.


5. gr.


    Aðili getur, þegar ekki er krafist sérstakrar viðurkenningar til starfa af þeim aðila þar sem umsækjandi hefur hlotið menntun sína, sett það skilyrði fyrir viðurkenningu að umsækjandi hafi stundað starfið í allt að þrjú ár á síðastliðnum tíu árum hjá síðarnefnda aðilanum.
     Ef starfsreynslu, sem greinir í 1. mgr., er ekki til að dreifa má krefjast þess að umsækjandi hafi stundað starfið í allt að þrjú ár á ábyrgð starfsmanns sem viðurkenndur er af viðkomandi aðila áður en viðurkenning verður veitt.
     Ef umsækjandi hefur fengið viðurkenningu hjá þriðja aðila skal fara með umsóknina eins og umsækjandinn hefði fengið viðurkenningu hjá þeim aðila þar sem hann hlaut menntun sína.

6. gr.


    Aðili getur krafist þess þegar viðurkenning til starfa er háð því að við menntun sem veitir starfsréttindi sé bætt starfsreynslu í tiltekinn tíma á ábyrgð viðurkennds starfsmanns að umsækjandi hafi hlotið jafnlanga starfsreynslu hjá hinum aðilanum.
     Ef umsækjandi hefur ekki hlotið starfsreynslu sem greinir í 1. mgr. eða sú starfsreynsla, sem umsækjandi hefur hlotið, er styttri en krafist er af þeim aðila þar sem sótt er um viðurkenningu getur sá aðili krafist þess að úr því verði bætt með starfstíma á ábyrgð starfsmanns sem viðurkenndur er af viðkomandi aðila.
     Aðili getur þó, hvað sem öðru líður þegar sótt er um viðurkenningu til málflutnings- eða endurskoðunarstarfa, krafist þess að umsækjandi hafi áður stundað starfið í allt að þrjú ár á ábyrgð lögmanns eða endurskoðanda sem viðurkenndur er af viðkomandi aðila eða hefur staðist hæfnispróf sem aðilinn stendur fyrir. Danmörk getur enn fremur gert samsvarandi kröfu til þess sem sækir um skipun sem landskiptamaður. Aðilinn velur á milli reynslutíma og hæfnisprófs.

7. gr.


    Aðili getur, þegar starfsréttindamenntun umsækjanda er meira en ári skemmri en sú sem krafist er af aðilanum, gert viðurkenninguna háða því
að    umsækjandi hafi umfram hugsanlegan starfsreynslutíma, sbr. 6. gr., annaðhvort stundað starfið hjá öðrum aðila um tíma sem má í mesta lagi vera helmingi lengri en munurinn á námstímanum hjá þeim aðila þar sem sótt er um viðurkenningu og námstíma þeim sem umsækjandi á að baki, ellegar hann starfi á ábyrgð starfsmanns sem viðurkenndur er af viðkomandi aðila í jafnlangan tíma
eða
að    umsækjandi ljúki viðbótarnámi sem aðilinn stendur fyrir og sem eftir atvikum má ljúka með þekkingarprófi.

Umsókn um viðurkenningu og


aðferðir við ákvörðun.


8. gr.


    Sá sem sækir um viðurkenningu samkvæmt samningi þessum skal sanna fyrir stjórnvaldi því sem veitir viðurkenningu að hann fullnægi skilyrðum samningsins.
     Veita skal umsækjendum sem fullnægja framangreindum skilyrðum viðurkenningu, nema fyrir hendi séu aðstæður sem leitt geti til afturköllunar á viðurkenningunni, sbr. 9. gr.
     Viðurkenningarvaldið skal taka rökstudda afstöðu til umsóknar eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að nauðsynleg skjöl og upplýsingar til meðferðar á henni hafa borist. Synjun getur umsækjandi skotið til æðra stjórnvalds samkvæmt almennum reglum aðilans um málskot.
     Viðurkenningarvöld aðilanna skulu miðla sín á milli þeim upplýsingum sem þörf er á til að viðurkenna umsóknir. Þau skulu enn fremur skýra hvert öðru frá ákvörðunum sem teknar eru samkvæmt samningi þessum.

Afturköllun viðurkenningar o.fl.


9. gr.


    Afturkalli sá aðili viðurkenningu sem upphaflega veitti hana má einnig afturkalla viðurkenningu sem annar aðili veitti síðar. Annars má einungis afturkalla síðari viðurkenninguna samkvæmt gildandi reglum hjá þeim aðila sem hefur veitt hana. Þó skal taka tillit til þess hvort hjá öðrum samningsaðila hafi verið brotin lög eða stórkostleg vanræksla viðhöfð eða bersýnilegur hæfnisskortur við framkvæmd starfsins.
     Nú hafa starfsmenn, sem fengið hafa viðurkenningu hjá fleiri en einum aðilanna, sætt ráðstöfunum af hálfu einhvers þeirra samkvæmt lögum eða reglum um agavald vegna starfsins þar, eða viðurkenning veitt starfsmanni er afturkölluð, og skal þá viðurkenningarvaldi hjá hinum aðilanum eða aðilunum tilkynnt um ráðstöfunina eða afturköllunina, svo og um ástæðuna. Á sama hátt skal og tilkynna ef réttur starfsmanns í greininni hefur verið takmarkaður.

Ríkisfang og ráðning í vinnu o.fl.


10. gr.


    Það má ekki gera að skilyrði fyrir viðurkenningu sem sjálfstæður starfsmaður samkvæmt samningi þessum að umsækjandi hafi eða hljóti ríkisfang í því landi þar sem sótt er um viðurkenninguna.
     Ráðning í stöðu, sem er háð því að lokið hafi verið einhverju því námi sem samningurinn nær til, verður yfirleitt ekki gerð háð því að umsækjandi hafi eða hljóti ríkisfang í því landi þar sem sótt er um stöðuna.
     Æðri stöður í opinberri stjórnsýslu, stöður við réttarkerfið, ákæruvald og fullnustuvald, hjá lögreglu og við landvarnir, svo og aðrar stöður sem skipta máli fyrir þjóðaröryggi, má þó ætla eigin ríkisborgurum einum.

11. gr.


    Fyrri ráðningu í starf á sviði, sem fellur undir samning þennan, skal, þegar gegnt er stöðu hjá öðrum aðila, setja að jöfnu samsvarandi starfi sem innt var af hendi hjá þeim aðila.

12. gr.


    Sá sem ráðinn hefur verið í starf hjá öðrum aðila en þeim sem hann hlaut menntun sína hjá skal vera jafnt settur eigin þegnum aðilans að því er varðar rétt til launa og eftirlauna og annarra réttinda sem tengjast stöðunni.

13. gr.


    Sérhver aðilanna skal, eftir því sem frekast er unnt, koma á breytingum á löggjöf sinni í samræmi við meginreglurnar í 5. mgr. 2. gr. og 10.–12. gr. að því er varðar stöður hjá ríkinu og stuðla að því að meginreglum þessum verði einnig beitt á samsvarandi hátt um stöður sem ekki eru hjá ríkinu.
     Aðili má þó setja eða halda við lagaákvæðum og öðrum réttarreglum þar sem ráðning sem dómari og ákærandi, svo og ráðning í viðlíka stöður við réttarkerfið, ákæruvald og fullnustuvald, er gerð háð nægilegum reynslutíma, þó ekki lengri en þriggja ára, eða því að staðist sé hæfnispróf. Finnland getur gert samsvarandi kröfu við ráðningu sem „allmänt rättsbiträde“. Aðilinn velur á milli reynslutíma og hæfnisprófs.

Önnur ákvæði.


14. gr.


    Við ráðningu fólks, sem samningur þessi nær til, skal fara eftir ákvæðunum í samningi og bókun frá 6. mars 1982 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað og þeirri stefnumörkun fyrir norræna vinnumiðlun sem ákveðin var í sambandi við framkvæmdina.
     Viðurkenningarvöldin skulu að staðaldri senda hvert öðru og norrænu vinnumarkaðsnefndinni tilkynningar og upplýsingar sem þýðingu hafa við mat á þróun vinnumarkaðar aðilanna.

15. gr.


    Aðilarnir skulu sameiginlega fylgjast með framkvæmd samningsins og breyta honum og bæta við hann eftir því sem þróun mála gefur tilefni til. Með tilliti til þess skipar norræna ráðherranefndin ráðgjafarnefnd sem getur lagt til breytingar á og viðbætur við samninginn. Viðurkenningarvöld aðilanna geta enn fremur leitað ráða hennar um túlkun samningsins.
     Samninginn skal taka til endurskoðunar eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku hans.

Gildistaka.


    Samningurinn gengur í gildi 30 dögum eftir þann dag þegar allir aðilar hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu að þeir hafi staðfest hann.
     Hvað varðar Álandseyjar, Færeyjar og Grænland gengur samningurinn þó fyrst í gildi 30 dögum eftir að ríkisstjórn Danmerkur eða eftir atvikum Finnlands hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu að, allt eftir því sem við á, landstjórn Álandseyja, landstjórn Færeyja eða heimastjórn Grænlands hefur tilkynnt að samningurinn skuli gilda á Álandseyjum, í Færeyjum eða á Grænlandi.
     Færeyjar og Grænland geta sett það skilyrði fyrir viðurkenningu að umsækjandi kunni, eftir því sem við á, nægileg skil á færeyskri eða grænlenskri tungu.
     Danska utanríkisráðuneytið skýrir hinum aðilunum frá móttöku þessara tilkynninga og því hvenær samningurinn gengur í gildi.

17. gr.


    Aðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu um það til danska utanríkisráðuneytisins sem skýrir hinum aðilunum frá móttöku tilkynningarinnar og efni hennar.
     Uppsögn tekur aðeins til þess aðila sem að henni stendur. Hún tekur gildi sex mánuðum eftir þann dag þegar danska utanríkisráðuneytinu berst tilkynning um uppsögnina.

18. gr.


    Frumrit þessa samnings skal varðveita í danska utanríkisráðuneytinu sem lætur hinum aðilunum í té staðfest afrit þess.

     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

     Gjört í Kaupmannahöfn 24. október 1990 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.

BÓKUN


    Samtímis undirritun samnings um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun sem veitir starfsréttindi höfum við undirritaðir fulltrúar, sem til þess höfum fullt umboð, orðið sammála um eftirfarandi bókun og skal telja hana hluta samningsins:
    Aðilarnir leggja áherslu á að halda áfram að styrkja hinn sameiginlega norræna vinnumarkað svo að þeir tímar komi að enginn norrænn ríkisborgari verði útilokaður frá starfstækifæri í öðru norrænu landi á sviði sem hann hefur menntun til.
        Aðilarnir vilja því vinna að því að samningurinn verði staðfestur og að þeim breytingum á landslögum þeirra, sem samningurinn gerir ráð fyrir, verði komið á eigi síðar en 1. júlí 1991.
    Með samningnum er ekki tekin afstaða til gagnkvæmrar viðurkenningar háskóla á æðri menntun, en þá er átt við rétt norrænna ríkisborgara til að fá fyrri æðri menntun þeirra viðurkennda sem hluta af grunnmenntun eða sem grundvöll menntunar eftir háskólapróf við æðri menntastofnun eða rannsóknastofnun í öðru norrænu landi.
    Aðilarnir gera sér grein fyrir því að Danmörk túlkar skilgreininguna á æðri menntun í 2. mgr. 1. gr. samningsins með tilliti til reglna Evrópubandalagsins á samsvarandi sviði.
    Aðilarnir eru sammála um að ákvæðið í 1. mgr. 2. gr. gildir einnig um þann sem hjá einum aðilanna hefur fengið löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu til starfa vegna menntunar utan Norðurlanda.
    Danmörk ætlar að fara með ákvæðið í 3. gr. af sanngirni svo að ekki verði hallað á hina aðilana.
    Samningurinn frá 28. desember 1973 með viðbótarbókun frá 28. júní 1990 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum hjá ríkinu gildir við ákvörðun lífeyrisréttinda samkvæmt 12. gr. um ríkisborgara einhvers þessara fjögurra landa sem ráðinn er í stöðu hjá ríkinu í einu hinna landanna.
    Aðilarnir eru sammála um að leggja fyrir ráðgjafarnefndina sem getið er í 15. gr. að fylgjast með því hvernig samningurinn er hagnýttur og túlkaður í ríkjunum og gæta þess þá jafnframt hvort hver aðili ætti að ætla sérstöku miðstjórnarvaldi að fylgjast með þessari þróun.


     Frumrit bókunarinnar skal varðveita í danska utanríkisráðuneytinu sem lætur hinum aðilunum í té staðfest afrit þess.

     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa.

     Gjört í Kaupmannahöfn 24. október 1990 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um starfsréttindi norrænna ríkisborgara.



     Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.