Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 456 . mál.


714. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, sbr. lög nr. 59/1988.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)


1. gr.


    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Samgönguráðherra skipar menn í Ferðamálaráð til tveggja ára í senn. Skipunartími fulltrúa ráðherra skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá sitji hann skemur. Skulu fimm skipaðir án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður ráðsins og annar varaformaður.

2. gr.


    22. gr. laganna orðast svo:
     Samgönguráðherra skipar þrjá menn í stjórn Ferðamálasjóðs til tveggja ára í senn. Þar af er einn skipaður án tilnefningar og er hann jafnframt skipaður formaður sjóðstjórnar, en tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Ferðamálaráði. Skipunartími formanns skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem hann skipaði sitji hann skemur.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. laganna skal skipunartími núverandi Ferðamálaráðs og stjórnar Ferðamálasjóðs haldast þar til skipað hefur verið í ráðið að nýju.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta miðar að breytingu á skipunartíma Ferðamálaráðs og stjórnar Ferðamálasjóðs. Hvort tveggja er skipað til fjögurra ára samkvæmt gildandi lögum, en lagt er til að skipunartíminn verði til tveggja ára nema þegar ráðherraskipti verða á skipunartímanum.
     Ráðherra skipar fimm menn í Ferðamálaráð og einn í stjórn Ferðamálasjóðs án tilnefningar og er lagt til að umboð þeirra sem fulltrúa ráðherra falli niður ef sá ráðherra, er skipaði þá, lætur af embætti. Hefur þá nýr ráðherra frjálsar hendur ef hann kýs að skipta um fulltrúa.

     Ferðamálaráð fer með verkefni sem miklu skipta fyrir mótun og framkvæmd stefnu í ferðamálum. Er því nauðsynlegt að fullur trúnaður sé milli ráðherra og fulltrúa hans í ráðinu. Sama gildir um stjórn Ferðamálasjóðs. Lagabreytingu þeirri, sem hér er gerð tillaga um, er ætlað að tryggja að svo sé.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–2. gr.


    Í greinunum er kveðið á um þær efnisbreytingar sem skýrðar eru í almennum athugasemdum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.