Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 460 . mál.


718. Frumvarp til

laga

um brottfall laga nr. 2/1917.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)


1. gr.


    Lög um bann við sölu og leigu skipa úr landi, nr. 2/1917, eru felld úr gildi.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Þegar lög um bann við sölu og leigu skipa úr landi voru sett í janúar 1917 geisaði fyrri heimsstyrjöldin, mikill skortur var á skipum og boðið var geysihátt verð fyrir skip. Eðlilegt var við þessar aðstæður að setja lög til að koma í veg fyrir óeðlilegan útflutning skipa á meðan þetta ástand héldist.
     Í Alþingistíðindum frá aukaþinginu 1916–1917 segir að ástæður fyrir frumvarpinu hafi verið þessar:
     „Með því að nú er hvarvetna mikil eftirspurn eftir skipum, bæði vöruflutningaskipum og öðrum, en landið má alls eigi við því, að skipastóll þess sje skertur, eins og nú stendur á, þykir full nauðsyn vera á að reisa sem allra fyrst skorður við sölu skipa út úr landinu.“
    Í umræðum á þinginu kom fram hjá flutningsmönnum að heyrst hefði að til stæði að selja eitt til tvö af botnvörpuskipunum íslensku til útlanda. Annar flutningsmanna taldi sig hafa heimildir fyrir því að ekki bara einn eða tveir af botnvörpuskipaeigendunum heldur þeir allir hefðu fengið tilboð um kaup á skipum þeirra og væri þeim boðið afar hátt verð í skipin, en hagur af útgerð væri hins vegar tvísýnn.
     Í umræðum á þingi sagði Sigurður Eggerz m.a.: „Það getur rekið að því, að skip hækki svo í verði, að geypifé verði boðið í íslensk skip. Og er því eðlilegt, að freisting skipaeiganda yrði mikil til þess að selja skipin fyrir of fjár. Þetta gæti vel komið fyrir. En hvílík hætta er landinu ekki búin, ef svona færi? Svo lengi sem við höfum nóg kol og salt, getum við lifað, en ef við missum skipin, erum við dauðir. Hér er um nauðsynlega tryggingu að ræða í þarfir lands og þjóðar.“
     Einn flutningsmanna, Einar Arnórsson, hafði m.a. þetta um málið að segja: „Tel ég það mjög líklegt, ef engar skorður verða settar, að þá rýrni skipastóll okkar, þar sem nú er geypiverð boðið fyrir skip, og er það freisting fyrir menn að selja skip sín til þess að græða fé á þeim. Ef ég til dæmis ætti skip nú og vildi hætta kaupsýslu, þá mundi mér innan handar að selja það með 100 þúsunda til 200 þúsunda króna ábata og setjast síðan í helgan stein og eiga náðuga daga.“ Og síðar í sömu ræðu: „Það er satt að enginn ákveðinn tími er til tekinn í frumvarpinu, en full ástæða finnst mér til, að bann þetta standi meðan sömu ástæður haldast og nú eru.“
     Frá því að lög nr. 2/1917 voru sett hafa aðstæður breyst verulega og hættan á því að íslenski skipastóllinn gjaldi afhroð er liðin hjá. Lög þessi hafa því lítið raunhæft gildi í dag. Hefur raunar lengi verið um það rætt að fella þau úr gildi. Í ljósi þessa og þar sem nú er fremur unnið að því að efla og greiða fyrir milliríkjaviðskiptum en hefta þau er eðlilegt að afnema lögin.