Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 340 . mál.


762. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um málefni leikskólans.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig verður því fylgt eftir að framkvæmt verði ákvæði 3. gr. laga um leikskóla um að sveitarfélög geri könnun á óskum foreldra um leikskólavistun og setji fram áætlanir til a.m.k. tveggja ára í senn? Hvaða sveitarfélög hafa gert slíka könnun síðan lögin voru samþykkt?
    Hvert er mat ráðherra á þeirri niðurstöðu úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans frá því í desember 1991 að þjóðhagslegur ábati eflingar leikskólans geti verið á bilinu 1–1,5 milljarðar kr. árlega?
    Er ætlun ríkisstjórnarinnar að stuðla að eflingu leikskólans á kjörtímabilinu í ljósi ofannefndrar niðurstöðu?
    Að hverju er stefnt með þeirri endurskoðun á lögum um leikskóla sem boðuð er í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar og hvað líður framkvæmdum?


    1.     Í lögum um leikskóla nr. 48/1991, ákvæði til bráðabirgða II, segir: „Stefnt skal að því að sveitarfélög nái markmiðum 3. gr. innan 10 ára.“ Með hliðsjón af þessu ákvæði hefur námsstjóri leikskóladeildar á fundum sínum með leikskólafulltrúum, sem eru starfsmenn sveitarfélaga og yfirmenn leikskólamála í stærstu sveitarfélögum, rætt áætlun sveitarfélaga og stöðu leikskólamála. Kópavogsbær gerði könnun á þörf fyrir leikskólarými árið 1990 og Vík í Mýrdal árið 1991. Könnun stendur yfir í Mosfellsbæ.
    Þar sem biðlisti er opinn öllum börnum er hægt að áliti viðkomandi sveitarfélags að meta þörfina á leikskólarými út frá honum. Í ársskýrslu, sem allir leikskólar á landinu skila til menntamálaráðuneytisins, kemur fram að leikskólaþörf hefur nánast verið fullnægt í mörgum smærri sveitarfélögum en í þeim stærri, svo sem Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Akureyri, eru enn biðlistar og langt í land að eftirspurn sé fullnægt.
    2.–3. Þjóðhagslegur ábati af rekstri leikskóla er ljós en erfitt er að meta hann í krónum.
    Samkvæmt lögum um leikskóla er bygging og rekstur alfarið í höndum sveitarfélaga og með lögum um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var leitast við að gera verkaskiptinguna skýrari. Það er ljóst að uppbygging leikskóla er mjög kostnaðarsöm fyrir mörg sveitarfélög eigi þau að fullnægja þörf samkvæmt lögum og matsatriði hvenær fjárhagslegur ábati fer að skila sér enda gert ráð fyrir 10 ára aðlögunartíma eins og áður er fram komið.
    4.     Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að lög um leikskóla verði endurskoðuð í samráði við Samtök sveitarfélaga með það fyrir augum að saman fari skuldbindingar, ábyrgð og völd, bæði í fjárhagslegu og faglegu tilliti. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær þessi vinna fer fram en væntanlega verður það á þessu ári.