Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 384 . mál.


769. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Bjarnasonar um virðisaukaskatt á innfluttar einstakar bækur einstaklinga.

    Hverjar voru tekjur ríkissjóðs á árinu 1991 af virðisaukaskatti á einstökum bókum sem einstaklingar pöntuðu erlendis og fóru í gegnum tollpóststofu?
    Hvenær hófst innheimta á söluskatti/virðisaukaskatti á innfluttum einstökum bókum einstaklinga í tollpóststofu hér á landi?
    Hvaða reglur gilda um undanþágur frá virðisaukaskatti vegna innflutnings einstaklinga á einstökum bókum?
    Hvað teljast bækur í skilningi skattalaga þegar lagður er virðisaukaskattur á innfluttar einstakar bækur einstaklinga?
    Er innheimtur virðisaukaskattur af einstökum erlendum bókum til einstaklinga þótt þær séu sendar þeim endurgjaldslaust, t.d. til umsagnar eða til að ritdæma?
    Eru íslenskar reglur um þetta efni sambærilegar við það sem tíðkast annars staðar, t.d. á Norðurlöndum eða í aðildarríkjum EFTA?

    1.     Þessari spurningu er ekki hægt að svara af nákvæmni, en miðað við tiltækar upplýsingar frá Pósti og síma má ganga út frá því að árið 1991 hafi tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af einstökum erlendum bókum, sem einstaklingar fluttu inn, verið u.þ.b. 10–15 m.kr.
    2.     Innheimta á söluskatti af innfluttum einstökum bókum einstaklinga hófst þegar með gildistöku laga nr. 10/1960, um söluskatt. Fljótlega var þó tekin upp regla um verðmæti bókasendingar, t.d. árið 1984 var innflutt bók undanþegin söluskatti ef verðmæti hennar var undir 500 íslenskum krónum. Sú verðmætisregla féll síðan úr gildi með upptöku virðisaukaskatts 1. janúar 1990.
    3.     Engar undanþágur eru á virðisaukaskatti hvað varðar innflutning einstaklinga á erlendum bókum.
    4.     Þar sem mismunandi virðisaukaskattsreglur gilda um prentvarning eftir því hvort um er að ræða bækur, tímarit, dagblöð og landsmála- og héraðsfréttablöð eða annan prentvarning er augljóst að ýmis vandamál geta komið upp þegar flokka á prentvöru. Embætti ríkisskattstjóra hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi þar sem tekið er á þessum flokkunarvandamálum. Í fylgiskjali er útdráttur úr þessum leiðbeiningum.
    5.     Hvað varðar bækur sem sendar eru til einstaklinga endurgjaldslaust, t.d. til umsagnar eða til að ritdæma, gilda sömu reglur í slíkum tilfellum og um aðra aðila, þ.e. greiða verður virðisaukaskatt. Hér er rétt að hafa í huga að grundvallarregla virðisaukaskattsins er að þó að aðilar í atvinnurekstri þurfi að greiða virðisaukaskatt af öllum aðföngum til starfseminnar eru það ekki þeir sem bera skattinn endanlega heldur neytandinn þar sem atvinnufyrirtæki geta dregið frá sem innskatt þann virðisaukaskatt sem þau greiða af aðföngum til rekstursins. Því verður að telja eðlilegt að sá sem að einhverju leyti hefur það sem atvinnu að ritdæma eða skrifa umsagnir um erlendar bækur greiði af bókinni virðisaukaskatt.
    6.     Athugað var hvaða reglur giltu um innfluttar bækur annars staðar á Norðurlöndum. Í Noregi eru bækur undanþegnar virðisaukaskatti og þær upplýsingar fengust frá Danmörku að þarlendis er notast við svipaða verðmætisreglu og áður var við lýði hérlendis. Samkvæmt henni eru bækur, sem berast erlendis frá að verðmæti undir 80 dönskum krónum, undanþegnar virðisaukaskatti. Þær almennu reglur eru einnig í gildi innan Evrópubandalagsins að heimilt er að undanþiggja smásendingar milli landa innflutningsgjöldum að hámarki að upphæð 22 ECU sem eru u.þ.b. 1.620 kr. í dag. Upplýsingar fengust ekki frá öðrum Norðurlöndum.



Fylgiskjal.


Útdráttur úr leiðbeiningum ríkisskattstjóra


um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi.



4.0  Til hvaða rita taka undanþáguákvæðin?
    Greina verður á milli þrenns konar flokka rita, enda gilda mismunandi reglur um hvern flokk fyrir sig:
—    Tímarit, dagblöð og landsmála- og héraðsfréttablöð.
—    Bækur.
—    Annar prentvarningur.

4.1  Tímarit, dagblöð og landsmála- og héraðsfréttablöð.
    Sala tímarita er undanþegin skattskyldri veltu skráðs aðila. Engu breytir hvort tímarit er á íslensku eða erlendu máli.

Skilgreiningar.
    „Tímarit“ í skilningi ákvæðisins er hvers konar útgáfa rita, að jafnaði með efni eftir fleiri en einn höfund, önnur en útgáfa dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
 (a)    Kemur út reglulega og a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Ríkisskattstjóri getur þó í einstökum tilvikum samþykkt frávik frá þessu skilyrði.
(b)    Útgáfan er liður í ótímabundinni röð, þ.e. gert er ráð fyrir útgáfu um ófyrirsjáanlega framtíð.
 (c)    Einstök hefti bera sama heiti og eru númeruð.
 (d)    Útgáfan er seld á fyrir fram ákveðnu verði eða dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds.

    Með dagblöðum er átt við blöð sem koma út með reglubundnum hætti flesta daga vikunnar og hafa að geyma almennar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi. Með landsmála- og héraðsfréttablöðum er átt við blöð sem að formi til eru svipuð dagblöðum og koma út a.m.k. einu sinni í mánuði.

Samstæður tímarita o.fl. — Ritraðir.
    Fréttablöð, dagblöð og tímarit eru talin vera í bókarformi ef:
 (a)    Þau eru heft eða límd í annað en pappír.
 (b)    Um er að ræða samstæður tveggja eða fleiri eintaka tímarits, fréttablaðs eða dagblaðs sem bundin eru saman í eitt hefti.
    Greint er á milli tímarita og ritraða. Ritröð er safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum með sameiginlegum heildartitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild. Dæmi um íslenskar ritraðir eru Safn til sögu Íslands, Safn Fræðafélagsins og Rit Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.
    Erlend tímarit o.fl. í bókarformi og erlendar ritraðir bera virðisaukaskatt. Séu rit þessi á íslensku máli að öllu leyti eða að hluta fer um virðisaukaskatt eftir því sem segir í 4.2.

4.2 Bækur á íslenskri tungu.
    Sérstaða bóka gagnvart tímaritum og blöðum er sú að sala bókar er aðeins undanþegin skattskyldri veltu sé hún á íslenskri tungu. Af lögskýringargögnum má ráða að ástæða þess að löggjafinn takmarkar undanþáguna við bækur á íslensku sé viðleitni til þess að styrkja sérstaklega íslenska tungu og þann menningararf Íslendinga sem birtist á bók. Verður að hafa þann tilgang undanþáguákvæðisins í huga við skýringu þess.

Bækur með erlendum texta.
    Samkvæmt framansögðu tekur undanþágan ekki til bóka á öðrum tungumálum en íslensku, hvort sem höfundur og/eða útgefandi er íslenskur eða erlendur. Bækur, sem eingöngu eru með erlendum texta, bera 24,5% virðisaukaskatt við sölu í atvinnuskyni; það gildir einnig um erlendar bækur þar sem texti er minni hluti efnis (listaverkabækur, ljósmyndabækur o.fl.).
    Ríkisskattstjóri lítur svo á að bók, sem bæði hefur að geyma erlendan og íslenskan texta (tví- eða fleirtyngd bók), falli ekki undir undanþáguna nema a.m.k. helmingur heildartexta hennar sé á íslensku. Þessi regla á þó ekki við ef íslenskur og erlendur texti er jafngildur í bók, þ.e. ef sami texti er á tveimur eða fleiri tungumálum, þar með talinni íslensku. Þetta á t.d. við um ýmsar landkynningarbækur með sama texta á mörgum tungumálum. Hins vegar er ekki nægilegt að t.d. aðeins formáli slíkrar bókar sé á íslensku ef hún er að öðru leyti á erlendu máli.
    Sérstaklega skal tekið fram að undanþáguákvæðið nær til kennslubóka í erlendum tungumálum, enda séu útskýringar og leiðbeiningar á íslensku. Einnig tekur ákvæðið til orðabóka, bæði íslensk-íslenskra og tvítyngdra orðabóka, þar sem íslenska er annað tungumálið.

Textalausar og textalitlar bækur.
    Skilyrðið um íslenskan texta leiðir til þess að undanþáguákvæðið tekur almennt ekki til bóka án texta í meginmáli þótt þær séu gefnar út af íslenskum útgefendum. Þó nær undanþágan til myndabóka með íslenskum texta, t.d. barnabóka eða listaverkabóka, þótt texti sé ekki stórvægilegur, og til nótnabóka, enda sé íslenskur texti með nótunum.

4.3 Prentvarningur sem hvorki er tímarit né bók.
    Eftirtalinn prentvarningur er hvorki talinn vera tímarit né bók í skilningi undanþáguákvæða laganna og skulu þeir sem í atvinnuskyni selja eða afhenda slíka vöru innheimta og skila 24,5% virðisaukaskatti af andvirði hennar:
 (a)    Rit til útfyllingar, innsetningar, límingar, heftunar eða til að rífa af eða úr. Má nefna sem dæmi eyðublöð, litabækur, stílabækur og reikningshefti.
 (b)    Smáprent, svo sem auglýsinga- og kynningarbæklingar, fréttabréf, dreifibréf og aðrir slíkir bæklingar.
 (c)    Leikskrár og sýningarskrár.
 (d)    Almanök, dagbækur og önnur regluleg útgáfa rita sem hafa að geyma dagatöl, nema þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar.
 (e)    Uppdrættir og kort, einnig í bókarformi. Þó tekur undanþágan til landakortabóka sem hafa að geyma „tematískar“ upplýsingar auk korta.
 (f)    Rit sem að meginefni eru skrár eða listar en ekki samfelldur texti, svo sem símaskrár, heimilisfangaskrár, fyrirtækjaskrár, vinningaskrár, verðskrár, leiðabækur um áætlunarferðir, skrár yfir sýningarhluti, fasteignir, rekstrarfjármuni, vörubirgðir og annað lausafé.
 (g)    Námsvísar og kennsluáætlanir skóla.
 (h)    Sérútgáfur laga og reglna, svo og staðlar, leiðbeiningar og tilkynningar frá opinberum aðilum. Undanþágan tekur þó til samstæðna tveggja eða fleiri slíkra rita sem bundin eru saman í eitt hefti.

4.4 Undanþegin bók eða tímarit sem selt er ásamt annarri vöru.
    Sé bók á íslensku eða tímarit selt með annarri vöru sem ein vöruheild ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluverði eða heildarandvirði hins selda, einnig þótt undanþáguákvæðið gæti tekið til sölu prentgripsins ef hann væri seldur sérstaklega.
    Það er vöruheild ef kaupandi hefur ekki frjálst val um að kaupa einingarnar hvora í sínu lagi eða ef hann hefur ekki full not af einni einingu án annarrar. Sem dæmi má nefna:
—    Leiðbeiningarrit með tæki.
—    Blað, tímarit eða bók á íslensku selt með hljómplötu, myndbandssnældu eða leikfangi.