Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 214 . mál.


789. Nefndarálit



um frv. til l. um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



     Nefndin hefur fjallað um frumvarpið frá því 9. janúar 1992 og sent það til umsagnar. Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni og á fund hennar komu oftar en einu sinni fulltrúar námsmanna: Steinunn V. Óskarsdóttir og Pétur Þ. Óskarsson frá stúdentaráði HÍ, Arnór Þ. Sigfússon og Ingibjörg Jónsdóttir frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Bjarni Ingólfsson og Almar Eiríksson frá Bandalagi íslenskra sérskólanema og Kristinn Einarsson og Ólafur Þórðarson frá Iðnnemasambandi Íslands. Enn fremur komu Guðmundur Magnússon prófessor, Gunnar I. Birgisson, formaður stjórnar LÍN, Lárus Jónsson, framkvæmdarstjóri LÍN, Guðjón Valdimarsson, fjármálastjóri LÍN, Ingólfur H. Bender frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Grétar Guðmundsson og Vigdís Hreinsdóttir frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
     Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og skilar minni hlutinn séráliti.
     Meiri hluti nefndarinnar hefur kynnt breytingartillögur sem hann hyggst flytja og ganga nokkuð til móts við sjónarmið minni hlutans en þær eru þó mjög langt frá því að vera fullnægjandi. Því flytur minni hlutinn tillögu að rökstuddri dagskrá um að vísa frumvarpinu frá og til vara breytingartillögur við frumvarpið.

Aðdragandi.
     Lögin, sem sett voru um námslán og námsstyrki árið 1982, hafa í aðalatriðum reynst vel. Þau breyttu aðstæðum námsmanna til hins betra og jöfnuðu aðstöðu til náms frá því sem áður var. Að lagagerðinni var þá unnið í samvinnu við námsmenn og að þróun og breytingum á útlánareglum lengst af síðan. Rétt hefði verið að endurskoða lögin nú með sama hætti og gera á þeim nokkrar breytingar að fenginni 10 ára reynslu, m.a. til að leita lausna á fjárhagsvanda Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
     Þess í stað lagði menntamálaráðherra fram frumvarp sem samið var í þröngum hópi og án samráðs við námsmenn. Það var fyrst á lokastigi að fulltrúum námsmanna var veitt aðild að nefnd sem ganga skyldi frá tillögum um breytingar á lögum um LÍN. Eftir 10 daga starf þessarar nefndar í nóvember 1991 kom í ljós að ekkert tillit átti að taka til tillagna námsmanna til lausnar á fjárhagsvanda sjóðsins. Fulltrúar ráðherra í nefndinni lögðu fram fullbúið frumvarp og ekki var látið á það reyna hvort unnt væri að ná málamiðlun innan nefndar ráðuneytisins.
     Stjórnarandstaðan var í engu kölluð til við undirbúning málsins þótt í menntamálanefnd kæmu fram óskir um upplýsingar um stöðu undirbúnings sumarið 1991 og óskað hafi verið eftir að haft yrði samráð við námsmannahreyfingarnar við mótun tillagna. Við þeim óskum var ekki orðið og niðurstaðan varð það frumvarp ríkisstjórnarinnar sem menntamálanefnd fékk til meðferðar að lokinni fyrstu umræðu á Alþingi.

Almenn viðhorf.
     Minni hluti menntamálanefndar er þeirrar skoðunar að taka hefði átt á tímabundnum vanda Lánasjóðs íslenskra námsmanna með allt öðrum hætti en gert er með þessu frumvarpi. Tillögur fulltrúa námsmanna í stjórnskipuðu nefndinni í nóvember 1991 gáfu möguleika á að ná farsælli lausn í samvinnu við námsmannahreyfingarnar og varðveita um leið helstu kosti gildandi fyrirkomulags í stað þess að kollsteypa því. Minni hlutinn harmar að þessi leið var ekki valin.
     Það er skoðun minni hlutans, sem fulltrúar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista í menntamálanefnd mynda, að varðveita beri í meginatriðum núverandi fyrirkomulag námsmannaaðstoðar þótt sníða megi af því nokkra agnúa, einfalda útlánareglur og nýta fjármagn LÍN betur en gert hefur verið. Áfram verður að gera námsmönnum kleift að afla sér menntunar óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.
     Liður í lausn á fjárhagsvanda sjóðsins ætti að vera að ríkissjóður yfirtaki hluta af áhvílandi lánum eins og gert hefur verið í mörgum tilvikum vegna félagslegra jöfnunaraðgerða. Tímabundið hefði þurft að auka framlög ríkisins til sjóðsins, lengja áhvílandi lán og ná fram sparnaði með breytingu á útlánareglum hans með hliðsjón af því sem fulltrúar námsmanna hafa gert tillögur um.
     Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur aðeins starfað um 10 ára skeið á núverandi grunni og er því ung stofnun. Það tekur óhjákvæmilega alllangan tíma að byggja sjóðinn þannig upp að eigin fé að hann geti án verulegs ríkisframlags staðið undir þeim kröfum um félagslegan jöfnuð í aðstöðu til náms sem gildandi lög gera ráð fyrir. Endurgreiðslur til sjóðsins skila sér hægt til baka og fjölgun lánþega hefur verið mikil undanfarinn áratug. Ráðstafanir til að treysta fjárhag sjóðsins þurfa að taka mið af þessum aðstæðum um leið og gætt er eðlilegs aðhalds.

Tillögur meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna.
     Tillögur meiri hluta menntamálanefndar gera m.a. ráð fyrir allt að 3% vöxtum á lán sjóðsins auk verðtryggingar, lántökugjöldum samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar til að standa undir rekstri sjóðsins og eftirágreiðslum námslána. Endurgreiðslur verða stórlega hertar og eiga að hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja ára samkvæmt gildandi lögum. Þá eru þrengdar heimildir til að veita fjárhagsaðstoð öðrum en þeim sem nám stunda á háskólastigi og vald þar að lútandi lagt í hendur sjóðstjórnar. Felld eru niður öll ákvæði um námsstyrki og vísað á Vísindasjóð án þess að nokkuð liggi fyrir um breytingar á gildandi lögum um sjóðinn.
     Hér verður fjallað um helstu þætti í tillögum ríkisstjórnarflokkanna eins og þær blasa við í frumvarpinu og samkvæmt breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

Vextir á námslán.
     Meiri hluti nefndarinnar leggur til að ársvextir af lánum sjóðsins skuli vera allt að 3% af höfuðstóli skuldar, ákveðnir af ríkisstjórn að fenginni tillögu menntamálaráðherra. Hér er á ferðinni grundvallarbreyting á kjörum viðskiptavina sjóðsins. Samkvæmt gildandi lögum hafa lán úr sjóðnum verið verðtryggð en vaxtalaus. Rökin fyrir því eru augljós. Miðað er við að námsmenn greiði jafnvirði þeirrar upphæðar til baka sem þeir fengu að láni, en ekki leigugjald í formi vaxta. Með vaxtatökunni er lánveitandinn að gera kröfu um arð af því fjármagni sem hann lætur af hendi til lántaka líkt og um sé að ræða fjárfestingu í atvinnurekstri. Námslán eru hins vegar allt annars eðlis, ætluð til framfærslu námsmanna og um þau eiga að gilda aðrar forsendur en um lán til fjárfestinga.
     Arðurinn af námsaðstoð kemur fram í þeirri menntun og aukinni færni sem námsmenn afla sér og þjóðfélagið nýtur góðs af í störfum þeirra.
     Stjórnarmeirihlutinn, sem myndar meiri hluta í nefndinni, hefur þó verið hrakinn á undanhald og gerir hann þá breytingartillögu við frumvarpið að í stað þess að binda vaxtatökuna við 3% er nú gert ráð fyrir breytilegum vöxtum, „aldrei hærri en 3%“. Ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að tillögu menntamálaráðherra að miða skuli við 1% vexti á námslán fyrst um sinn.
     Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeirri grundvallarbreytingu, sem felst í tillögum ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar, að taka vexti af námslánum. Þessi tilhögun er ekki aðeins ranglát, heldur mun afrakstur hennar ekki skila sér nema að hluta í bættum hag sjóðsins því að á móti koma aukin afföll af lánum þeirra mörgu sem ná ekki að greiða lánin upp áður en þeir falla frá.

Stytting greiðslufrests og hertar endurgreiðslureglur.
     Í gildandi lögum um LÍN er kveðið á um að endurgreiðsla lána hefjist þremur árum eftir námslok, en samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir að stytta þennan tíma í tvö ár. Með því er þrengt að lántakendum og kemur það sér ekki síst illa fyrir þá sem þurfa um svipað leyti að taka á sig fjárskuldbindingar vegna húsnæðis.
     Hliðstæð áhrif hafa stórhertar reglur um endurgreiðslu lána, ekki síst mikil hækkun fastrar ársgreiðslu sem leggst jafnt á alla óháð tekjum og bundin er lánskjaravísitölu. Fulltrúar námsmanna töldu sig samkvæmt séráliti með frumvarpinu geta fallist á 34 þús. kr. fasta ársgreiðslu, en tillögur meiri hlutans miða við 48 þús. kr. Afleiðingar af þessum auknu álögum geta orðið afdrifaríkar fyrir fjölmarga eftir námslok.
     Minni hlutinn leggur til að um endurgreiðslur verði gerð breyting á gildandi lögum með sama hætti og samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna lagði til í séráliti. Talið er að sú breyting geti bætt stöðu sjóðsins um 400–500 millj. kr. á ári og að mestu komið í veg fyrir þau 10–15% afföll sem reikna má með af lánum samkvæmt reynslu að óbreyttum reglum.

Áhrif á húsnæðismál námsmanna.
     Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins lagði mat á áhrif fyrirhugaðra breytinga samkvæmt frumvarpinu á íbúðarkaup námsmanna að námi loknu. Ályktanir, sem stjórn Húsnæðisstofnunar stóð samhljóða að um þetta efni og sendar voru menntamálanefnd, eru eftirfarandi:
„—    Möguleikar námsmanna til íbúðarkaupa á hinum almenna markaði að námi loknu minnka. Helstu áhrifin stafa af styttra afborgunarlausu tímabili eftir námslok og af hækkun á árlegu endurgreiðsluhlutfalli. Að jafnaði yrðu möguleikar námsmanna til íbúðarkaupa um 10–30% minni en þeir eru í dag.
—    Umsóknum um félagslegar íbúðir mun líklega fjölga. Tekjumörk í félagslega íbúðakerfinu eru um 160–170 þús. kr. á mánuði fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Þó nokkur hluti námsmanna verður líklega innan þeirra tekjumarka að námi loknu.
—    Ásókn í almenna kaupleigukerfið mun líklega aukast. Biðlistar hjá húsnæðissamvinnufélögum, sbr. Búseta hf., munu líklega lengjast. Þetta stafar af því að fleiri munu væntanlega lenda yfir tekjumörkum í félagslega íbúðakerfinu án þess að geta lagt nauðsynlegt eigið fé til hliðar til kaupa á íbúðum á hinum almenna markaði.“
    Eins og þessi umsögn ber með sér getur orðið um víðtækar og alvarlegar afleiðingar að ræða fyrir námsmenn vegna öflunar húsnæðis og auk þess verulega röskun í húsnæðiskerfinu.

Endurgreiðslur og afföll.
     Það er að sjálfsögðu mjög háð tekjum manna að námi loknu og fjölskylduaðstæðum, hvernig endurgreiðslu lána miðar til sjóðsins. Í útreikningum, sem gerðir voru á vegum menntamálanefndar og miða við meðaltekjur samkvæmt könnun sem gerð var á árinu 1989, kemur í ljós afar ójöfn staða þeirra sem skipta við sjóðinn eftir tekjustigi, sbr. fylgiskjöl. Fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framfæri, sem tekið hefur lán upp á 2,2 millj. kr. á 3% vöxtum, lítur dæmið þannig út að viðskiptafræðingur með meðaltekjur greiðir lánið upp við 42 ára aldur, hjúkrunarfræðingur á hins vegar ógreidda um 1,9 millj. kr. við starfslok, 67 ára, og framhaldsskólakennari skuldar enn um 450 þús. kr. við sömu aldursmörk. Langtum verr stendur dæmið fyrir einstætt foreldri með tvö börn á framfæri.
     Sé hins vegar gengið út frá taxtalaunum lítur dæmið mun verr út, sbr. fylgiskjöl. Ef tekið er dæmi af sömu fjölskylduaðstæðum, þ.e. einstæðu foreldri með eitt barn og lán sem ber 3% vexti kemur í ljós að viðskiptafræðingur skuldar um 4 millj. kr. við 67 ára aldur og framhaldsskólakennari 4,3 millj. kr.
     Sé um að ræða einstætt foreldri með tvö börn skuldar viðskiptafræðingur á taxtalaunum 7 millj. kr. við starfslok og framhaldsskólakennari 7,3 millj. kr. og hefur höfuðstóllinn á lánum þessara aðila þá meira en tvöfaldast, þ.e. hækkað úr um 3,5 millj. kr.!
     Samkvæmt frumvarpinu er lánstími námsláns ótilgreindur og engin ákvæði um að létta skuli greiðslur við starfslok eða fella þær niður fyrr en lánþegi andast. Þeim lántakendum, sem deyja frá ógreiddum skuldum við sjóðinn, mun fyrirsjáanlega fjölga frá því sem nú er og afföll þar með aukast, en þau eru nú talin nema 10–15%. Það er því engan veginn víst að háir vextir og hertar endurgreiðslureglur skili því sem ætlað er til hagsbóta fyrir sjóðinn.

Eftirágreiðslur og krafan um námsárangur.
     Ein lúalegasta breytingin, sem innleiða á með frumvarpinu, er ákvæði sem þannig er orðað: „Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur“ (6. gr.). Í gildandi lögum á þetta aðeins við um fyrstu námsaðstoð. Afleiðing þessarar breytingar getur leitt af sér allt að 10% flata skerðingu á námslánum þar eð námsmenn þyrftu að brúa bilið allt námstímabilið með fyrirgreiðslum frá almennum lánastofnunum. Fyrir fyrsta árs nema hefur kostnaður við slíka fjármögnun numið um 10% af lánsupphæð þegar allt er talið. Þetta samsvarar því að námsmenn séu að greiða bankavexti af lánum allan námstímann. Með þessu er að engu gerð sú fullyrðing aðstandenda frumvarpsins að námslán séu vaxtalaus á námstímanum.
     Þessi breyting samsvarar því að allt fjármagn til námsaðstoðar fari fyrst í gegnum bankakerfið og síðan í gegnum Lánasjóðinn. Fyrir hag sjóðsins hefur þetta litla þýðingu, en þeim mun alvarlegri afleiðingar fyrir námsmenn. Því er með öllu óskiljanlegt að meiri hlutinn skuli ætla að knýja hana fram þrátt fyrir eindregnar aðvaranir og mótmæli.

Lántökugjald.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir að lagt verði á lántökugjald sem meiri hlutinn reiknar með að geti numið 1,2%. Er því ætlað að standa undir rekstrarkostnaði við sjóðinn. Gjald þetta jafngildir í raun vaxtatöku og verður að teljast afar óeðlilegt til viðbótar við aðrar skerðingar á námslánum.

Afnám námsstyrkja — ávísun á Vísindasjóð.
     Í gildandi lögum um LÍN er heimild til að veita aðstöðujöfnunarstyrki til námsmanna sem þurfa að kosta sig fjarri eigin heimili. Styrkir þessir hafa aðallega verið greiddir út í formi ferðastyrkja sem verulega hefur munað um, ekki síst fyrir Íslendinga við nám erlendis.
     Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að ráðgert sé að Vísindasjóður verði efldur til þess að veita styrki til námsmanna í langskólanámi og til greiðslu skólagjalda. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir fengust hvorki upplýsingar frá menntamálaráðherra við 1. umr. um frumvarpið né frá meirihlutafulltrúum í menntamálanefnd um það hvernig fyrirhugað sé að breyta lögum um Vísindasjóð til að standa við þessi fyrirheit.
     Í umsögn frá Vísindasjóði segir m.a.: „Vísindaráð úthlutar styrkjum úr Vísindasjóði að undangengnu faglegu mati á vísindalegu gildi verkefna og hæfni umsækjenda til að stunda rannsóknir. Eðli starfsemi vísindaráðs og LÍN er því ólíkt. Starfsmenn vísindaráðs eru aðeins tveir. Við núverandi aðstæður er ráðið því engan veginn í stakk búið til að taka að sér þá vinnu sem felst í veitingu styrkja til stúdenta og eftirliti með framvindu námsárangurs.“

Stjórn sjóðsins, samsetning og völd.
     Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans er fært aukið vald til stjórnar LÍN til að setja reglur um málefni sjóðsins og úthlutun námslána, sbr. 2., 3., 6., 13. og 16. gr. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að fara beri gætilega í þessu efni og nauðsynlegt sé að kveða í lögum á um skyldur sjóðsins um grundvallaratriði er lúta að jöfnun og námsaðstoð með tilliti til félagslegra aðstæðna. Breytingartillögur, sem fluttar eru af minni hlutanum við frumvarpið, taka mið af þessu, m.a. varðandi 1., 3. og 6. gr.
     Þá telur minni hlutinn ekki rétt að veita stjórn LÍN heimild til að ákvarða lántökugjöld eins og kveðið er á um í frumvarpinu.
     Að mati minni hlutans fer það að öðru leyti eftir skipan stjórnarinnar hvað skynsamlegt sé að fela henni mikið svigrúm til ákvarðana um málefni sjóðsins og fjárhagsaðstoð við námsmenn. Ef í stjórninni eiga sæti fulltrúar helstu hagsmunasamtaka námsmanna er unnt að ætla stjórn LÍN meira sjálfræði til að setja reglur um málefni sjóðsins. Með þetta í huga telur minni hlutinn rétt að Iðnnemasamband Íslands tilnefni einn stjórnarmann LÍN til viðbótar þeim sem fyrir eru, en á móti komi fulltrúi til viðbótar, tilnefndur af menntamálaráðherra, sem velji hann úr hópi þeirra sem sæti eiga í samstarfsnefnd háskólastigsins. Með því fást um leið betri tengsl en ella við háskóla hérlendis.

Önnur atriði.
     Frumvarpið felur í sér mörg önnur atriði sem ekki varða þó jafnmiklu um námsaðstoð og fjárhag sjóðsins en geta skipt verulegu máli. Um sumt hefur meiri hlutinn komið til móts við gagnrýni minni hlutans með breytingartillögum, m.a. að því er varðar ábyrgðarmenn.
    Með frumvarpinu eru felld niður ákvæði (3. gr.) þess efnis að námsmenn skuli eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og að LÍN skuli standa sjóðnum skil á iðgjaldshluta lánþega ásamt mótframlagi sínu.
    Þetta telur minni hlutinn óskynsamlega breytingu og að halda beri núverandi fyrirkomulagi. Vísast m.a. til umsagnar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands til nefndarinnar um það efni þar sem m.a. er bent á það öryggi sem aðild að lífeyrissjóðunum veitir umfram það sem tryggt er í gildandi tryggingalöggjöf. Aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda snertir einnig almenn lífeyrisréttindi námsmanna.
     Með frumvarpinu (12. gr.) er stjórn sjóðsins veitt heimild til að veita venjuleg skuldabréfalán með markaðsvöxtum. Ekki hafa komið fram neinar viðhlítandi skýringar á því hvers vegna gera eigi ráð fyrir slíkum viðskiptum á vegum sjóðsins eða hvernig ráðgert er að nota þessa heimild.
     Þá er fjárhagsgrundvöllur hagsmunasamtaka námsmanna veiktur með breytingu samkvæmt frumvarpinu (16. gr.) þar sem félagsgjöld til þeirra eru ekki dregin frá námsláni nema um það komi fram sérstök ósk í lánsumsókn.

Breytingartillögur minni hlutans.
     Minni hluti nefndarinnar flytur allmargar breytingartillögur við frumvarpið á sérstöku þingskjali og hefur þegar verið vikið að nokkrum þeirra. Þær eru fluttar til vara fari svo að dagskrártillaga um að vísa málinu frá hljóti ekki tilskilinn stuðning.
     Meginatriðin í breytingartillögum minni hlutans fela í sér eftirfarandi:
—    að ekki verði lagðir vextir á námslán,
—    að árlegar endurgreiðslur af skuldabréfum verði hertar til að bæta greiðslustöðu LÍN,
—    að lögboðin greiðsla námsaðstoðar verði með sama hætti og verið hefur,
—    að endurgreiðslur hefjist þremur árum eftir námslok,
—    að heimild til að innheimta lántökugjöld verði ekki lögfest,
—    að fjölgað verði í stjórn LÍN, þannig að Iðnnemasamband Íslands eigi þar fulltrúa og menntamálaráðherra skipi til viðbótar fulltrúa án tilnefningar úr samstarfsnefnd háskólastigsins.
    Þá gera breytingartillögur minni hlutans einnig ráð fyrir:
—    að tekin verði af tvímæli um að veita skuli fjárhagsaðstoð til sérnáms í framhaldsskólum með svipuðum hætti og verið hefur samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð,
—    að tillit verði áfram tekið til framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða sem áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns,
—    að námsmenn eigi áfram kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda,
—    að ekki verði breyting á innheimtu félagsgjalda til hagsmunasamtaka námsmanna.
    Með þessum lagabreytingum og samhliða ráðstöfunum af hálfu hins opinbera og stjórnar LÍN til að leysa fjárhagsvanda sjóðsins telur minni hluti menntamálanefndar að koma megi málefnum sjóðsins í viðunandi horf án þess að horfið sé frá meginmarkmiðum um námsaðstoð og jafnrétti til náms.

Alþingi, 13. apríl 1992.



Hjörleifur Guttormsson,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.


frsm.



Pétur Bjarnason.





Fylgiskjal I.



ÚR GREINARGERÐ RÍKISENDURSKOÐUNAR


UM FJÁRHAGSSTÖÐU LÁNASJÓÐS ÍSLENSKRA NÁMSMANNA


(Apríl 1991.)


Helstu niðurstöður.


    Lánþegar Lánasjóðsins eru tæplega 24 þúsund. Útistandandi námslán nema um 25 milljörðum króna, en sú fjárhæð hefur verið færð niður um 3,9 milljarða kr. í ársreikningi vegna lána sem ekki munu innheimtast að fullu vegna þeirra takmarkana sem eru á endurgreiðslum námslána.
    Útlán sjóðsins dreifast þannig að um 60% lántakenda skulda innan við 1 millj. kr. Aðeins um 1% lántakenda skuldar 5 millj. kr. eða meira.
    Ríkisframlög til sjóðsins hafa verið nokkuð sveiflukennd á undanförnum árum. Á sl. áratug hefur hlutfall ríkisframlaga í fjármögnun sjóðsins sveiflast frá 50–90%. Sveiflur þýða í raun að á sumum árum hefur verið greitt meira en sem svarar kostnaði við námslánakerfið og önnur ár hefur verið greitt minna.
    Helstu niðurstöður um fjárhagsstöðu Lánasjóðsins og kostnað við námsaðstoð eru eftirfarandi:

    Lánasjóðurinn getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu.
    Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu verður útkoman 3 milljarðar kr.

    Miðað við áframhaldandi starfsemi þarf sjóðurinn fyrirsjáanlega á miklum ríkisframlögum að halda á næstu árum vegna vaxtamunar inn- og útlána.
    Ríkissjóður hefur lagt mikla fjármuni í Lánasjóðinn á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er að framlög til sjóðsins þurfa að hækka á komandi árum vegna aukinnar fjárbindingar í sjóðnum og aukinnar ásóknar í námslán. Mikill vaxtamunur er á námslánum sem ekki bera vexti og þeim lánum sem sjóðurinn þarf að taka til þess að fjármagna útlán. Vaxtamunur þessi er í dag rúmlega sex af hundraði. Fjárbinding í námslánakerfinu er í dag rúmir 20 milljarðar í vaxtalausum námslánum að teknu tilliti til affalla vegna takmarkana á endurgreiðslum. Miðað við óbreytt útlán mun fjármagn, sem bundið er í þessu kerfi, verða um 40 milljarðar innan 10 ára og 60 milljarðar innan 20 ára.
    Það er þó e.t.v. líklegra að útlán aukist nokkuð á komandi árum. Ef reiknað er með að útlán aukist um 2,5% á ári til ársins 2010 munu útistandandi námslán verða um 80 milljarðar kr. eftir 20 ár sem er fjórföldun á því fjármagni sem er bundið í kerfinu í dag. Þar sem námslánin eru vaxtalaus fellur allur fjármagnskostnaður af þessari fjárhæð fyrr eða síðar á ríkissjóð.

    Kostnaður ríkissjóðs við námslánakerfið er um 66% af veittum lánum miðað við að eigið fé sjóðsins á hverjum tíma nægi til að standa við skuldbindingar vegna lána. Er þá gert ráð fyrir að vextir af lánum, sem sjóðurinn taki, séu 6%.
    Sem nálgun mætti segja að ríkisframlag verði að samsvara um 66% af lánveitingum Lánasjóðsins miðað við að eigið fé sjóðsins standi undir skuldbindingum en þær falli ekki síðar á ríkissjóð. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að vextir af lánum, sem sjóðurinn taki, séu 6%. Ef ríkisframlagið er lægra er gengið á eigið fé sjóðsins og ef það er hærra er verið að auka við eigið fé sjóðsins. Ef veitt námslán yrðu árlega 3,8 milljarðar þyrfti ríkisframlag samkvæmt framansögðu að vera 2,5 milljarðar á ári og lántaka um 1,7 milljarðar miðað við óbreytt útlán.
    Miðað við árlegt framlag úr ríkissjóði 1,75 milljarða kr. sem er það sama og fjárlög gera ráð fyrir á árinu 1991 og að þeirri fjárþörf sem á vantar verði mætt með lántökum (reiknað er með að slík lán séu til 10 ára og beri 6% vexti) fæst sú niðurstaða að Lánasjóðurinn mun stöðugt þurfa að taka hærri lán og verður svo komið árið 2014 að vaxtagjöld verða orðin 3,9 milljarðar sem er hærri fjárhæð en útlán. Þannig skapast í raun vítahringur stigaukinna lántaka og vaxtagjalda.
    Kostnaður lækkar hins vegar ef gert er ráð fyrir að fjármagna útlán sjóðsins alfarið með ríkisframlögum án þess að tekin séu lán. Hér fæst sú niðurstaða að ríkissjóður þarf að leggja sjóðnum til 4,8 milljarða kr. á árinu 1991. Stærsti hluti þessa fjár fer til fjármögnunar kerfisins og kemur þannig í stað lánsfjár. Framlög fara síðan smám saman lækkandi niður í um 800 millj. kr. Þessi fjárhæð samsvarar árlegum kostnaði sjóðsins vegna rekstrar og affalla veittra námslána vegna takmarkana á endurgreiðslum.

     Styrkir vegna takmarkana á endurgreiðslum.
    Vegna endurgreiðslureglna eru námslán að hluta til styrkir. Endurgreiðsla er nú takmörkuð við 40 ár og 3,75% af tekjum. Þetta þýðir að um 19% af veittum námslánum eru í raun styrkir eða um 4,9 milljarðar kr. af útistandandi lánum í árslok 1990.

     Styrkir vegna vaxtaniðurgreiðslna.
    Námslán eru verðtryggð en bera hins vegar enga vexti. Ef námslán eru borin saman við skuldabréf á almennum markaði kemur í ljós að vaxtaniðurgreiðsla ríkissjóðs á námslánum er veruleg. Ef gerð er 6% ávöxtunarkrafa til fjármagns verða afföll af útistandandi námslánum í árslok 1990 rúmir 9,8 milljarðar kr.

     Mat á afskriftahlutföllum vegna takmarkana á endurgreiðslum.
    Þau afskriftahlutföll, sem notuð hafa verið á undanförnum árum í reikningsskilum Lánasjóðsins, eru í nokkuð góðu samræmi við niðurstöður þess útreiknings sem gerður var á eldri lánum sjóðsins. Hins vegar virðast þessi hlutföll vera að breytast þar sem afskriftarhlutfall T-lána, þ.e. lán þeirra sem nú stunda nám, virðist vera hærra en S-lána. Afföll af T-lánum virðast verða rúm 16% en í reikningsskilum eru notuð 10%. Skýringu á þessari breytingu er líklega að leita í lengingu þess tíma sem námsmenn eru á námslánum. Ástæður þessa voru hins vegar ekki kannaðar sérstaklega og er látið nægja að benda á þetta hér.

     Vaxtaniðurgreiðslur eru ekki sýndar í ársreikningi.
    Vaxtaniðurgreiðslur hafa ekki verið dregnar fram í ársreikningum sjóðsins. Þetta er í samræmi við þá reikningsskilavenju sem viðhöfð hefur verið hjá stofnunum og sjóðum sem fjármagna svipaðar niðurgreiðslur með ríkisframlögum. Ríkisendurskoðun telur að samræmis verði að gæta í framsetningu á ársreikningum sjóða sem fá veruleg ríkisframlög. Ekki er talið rétt að breyta framsetningu þessa atriðis eingöngu fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna heldur þarf að skoða þessa framsetningu fyrir alla sjóði sem eru í svipaðri stöðu.

     Fjárvöntun á árinu 1991 virðist stefna í að verða 300–400 millj. kr.
    Misræmi er á ráðgerðum útlánum samkvæmt fjárlögum og útlánareglum sjóðsins. Ekki hafa verið gerðar breytingar á útlánareglum sjóðsins þannig að öll skerðing námslána mun koma á síðari hluta ársins. Ákvörðun þarf að taka sem fyrst um það hvernig breyta eigi lánareglum sjóðsins þannig að ná megi fram þeim niðurskurði sem fjárlög gera ráð fyrir. Ef þetta er ekki gert verður að hækka fjárheimild sjóðsins í fjáraukalögum.

Fylgiskjal II.

Úr athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands


á þróun ríkisframlags til LÍN og endurgreiðslu


einstakra tekjuhópa.


(16. mars 1992.)



Repró í Gutenberg.




Fylgiskjal III.

Úr athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands


á afborgunum mismunandi tekjuhópa.


(9. apríl 1992.)



Repró í Gutenberg.




Fylgiskjal IV.

Úr athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands


á vöxtum og þróun eigin fjár.


(6. apríl 1992.)



Repró í Gutenberg.