Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 332 . mál.


837. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um niðurskurð á þjónustu í grunnskólum og framhaldsskólum skólaárið 1992–1993 og um áætlanir um að koma á einsetnum skóla.

    Hvernig verður niðurskurði hagað í grunnskólum og framhaldsskólum skólaárið 1992–1993 í öllum fræðsluumdæmum?
    Menntamálaráðuneytinu er gert að ná fram 180 millj. kr. sparnaði í grunnskólum á árinu 1992. Til þess að ná sparnaðinum fram hefur verið rætt um tvær leiðir og er fengin heimild fyrir því að fara þær í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 3. gr. Annars vegar að fækka bekkjardeildum/námshópum, sbr. 3. gr., með fjölgun nemenda um allt að tveimur í bekk. Heimild þessi er veitt fræðslustjórum. Hins vegar að fækka kennslustundum.
    Eftir að fræðslustjórar höfðu kannað hvernig hægt væri að koma við hagræðingu í hverju fræðsluumdæmi og hversu margar bekkjardeildir yrðu væntanlega í grunnskólum næsta haust var ljóst að ná þyrfti fram meiri sparnaði með fækkun vikustunda. Ákveðið hefur verið að fækkað verði um eina vikustund í 4. og 5. bekk og tvær vikustundir í 6.–10. bekk eða alls um tólf vikustundir. Ný viðmiðunarstundaskrá hefur verið gefin út samkvæmt þessu.
    Varðandi framhaldsskólann þá skipaði menntamálaráðherra nefnd í byrjun janúar til þess að gera tillögur um hagræðingu í framhaldsskólum. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðherra í byrjun mars. Meðal þeirra ábendinga, sem nefndin setur fram um hagræðingu, má nefna:
—    Aukin verkaskipting á milli skóla. Fámennar námsbrautir verði ekki í boði á fleiri stöðum en svo að hægt sé að ná fram heppilegri stærð námshópa. Komið verði upp „móðurskólum“ fyrir einstakar námsgreinar og námsgreinaflokka.
—    Sameining og samstarf skóla. Tekið verði upp náið samstarf skóla þar sem því verður við komið, einkum hvað varðar innritun og námsframboð.
—    Fækkun kennslustunda í námsáföngum og greinum. Leitast verði við að fækka kennslustundum í þeim námsáföngum þar sem því verður við komið. Innihald áfanga verði óbreytt en gerðar meiri kröfur um heimavinnu nemenda.
—    Fækkun kennslustunda á námsbrautum. Kannað verði hvort ekki megi fækka kennslustundum á brautum, t.d. með því að samræma inntak skyldra áfanga og fækka þannig kenndum áföngum.
—    Fækkun námsbrauta. Athugandi er hvort ekki sé hægt að fella niður starfsemi fámennra brauta tímabundið vegna minnkandi fjárframlaga.
    Lögð er áhersla á að það verði stjórnendur hvers skóla sem sjálfir velji þær sparnaðarleiðir sem þeir telja að komi best að notum í sínum skóla og raski skólastarfinu sem minnst.


    Hvenær má ætla að ákvæði núgildandi grunnskólalaga um einsetinn grunnskóla komi til framkvæmda?

    Menntamálaráðherra hefur nýlega skipað nefnd sem ætlað er að skila drögum að frumvörpum um grunnskóla og framhaldsskóla fyrir 1. sept. nk. Meðal þess sem nefndinni er sérstaklega ætlað að fjalla um er samfelldur skóladagur og einsetinn grunnskóli. Nefndin er m.a. beðin að meta hvort hægt er að nálgast markmið um einsetinn grunnskóla og samfelldan skóladag með því að lengja árlegan skólatíma en fækka kennsluárum.