Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 539 . mál.


1001. Frumvarp til laga



um húsgöngusölu o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Lög þessi eiga við um samninga sem gerðir eru í húsgöngusölu milli seljanda sem lætur í té vöru eða þjónustu og neytanda í söluferð sem seljandi skipuleggur utan fastrar starfsstöðvar sinnar eða í tengslum við sölustarfsemi á heimili neytandans eða annars neytanda eða á vinnustað neytandans og neytandi hefur ekki óskað eftir.
     Lögin eiga einnig við um samninga sem gerðir eru um afhendingu vöru eða þjónustu, annarrar en þeirrar sem tengist komu seljanda að beiðni neytandans sjálfs. Það er skilyrði að þegar neytandinn hefur sjálfur óskað eftir komu seljandans hafi honum ekki verið kunnugt um eða getað verið kunnugt um að afhending þeirrar vöru eða þjónustu væri hluti af viðskipta- eða þjónustustarfsemi seljanda.
     Lögin eiga við um samninga þar sem neytandinn leggur fram tilboð við svipaðar aðstæður og lýst er í 1. mgr. eða 2. mgr. þótt neytandinn sé ekki bundinn af því tilboði fyrr en seljandi hefur gengið að því.
     Lögin eiga einnig við um tilboð sem neytandinn gerir samningsbundið við svipuð skilyrði og lýst er í 1. mgr. eða 2. mgr. þegar neytandinn er bundinn af tilboði sínu.

2. gr.


     Húsgöngusala merkir farandsölu sem venjulega fer fram með þeim hætti að seljandi kveður óbeðinn dyra hjá neytanda og býður varning eða þjónustu til sölu.
     Neytandi merkir í lögum þessum einstakling sem í viðskiptum, sem lög þessi taka til, kemur fram sem kaupandi og í tilgangi sem telja má óskyldan starfi hans.
     Seljandi merkir í lögum þessum einstakling eða lögaðila sem vegna hlutaðeigandi viðskipta kemur fram í atvinnuskyni sem verslunarmaður eða hvern þann sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði eða fyrir hönd seljanda.
     Fjarsala merkir í lögum þessum sölu sem fer fram milli kaupanda og seljanda án þess að þeir hittist augliti til auglitis. Þetta getur gerst með notkun síma, bréfsíma, sjónvarps, sölulista og heimatölvu.

3. gr.


    Lög þessi eiga ekki við um:
    Samninga um smíði, sölu og leigu fasteigna eða samninga um önnur réttindi í sambandi við fasteignir.
                  Samningar um að látnar skuli í té vörur og þær felldar að fasteignum eða samningar um viðgerðir fasteigna skulu þó falla undir gildissvið laganna.
    Samninga um reglubundna afhendingu matvöru, drykkjarvöru eða annarrar vöru sem ætluð er til heimilisnota.
    Vátryggingasamninga.
    Samninga um verðbréfakaup.
    Samninga um afhendinga vöru eða þjónustu að því tilskildu að eftirfarandi þrjú skilyrði séu uppfyllt:
         
    
    Að gengið sé frá samningnum á grundvelli sölubæklings seljanda sem neytandinn hefur fengið tækifæri til að skoða án þess að umboðsmaður seljanda sé viðstaddur.
         
    
    Að ráðgert sé framhald á sambandi neytanda og umboðsmanns seljanda með tilliti til yfirstandandi viðskipta eða annarra viðskipta síðar.
         
    
    Að í sölubæklingi og samningi komi skýrt og greinilega fram réttur neytanda til að skila vörunum aftur til þess sem lét hana í té innan tíu daga hið minnsta frá móttöku vörunnar eða að öðrum kosti falla frá samningnum án annarrar skuldbindingar en þeirrar að veita vörunni eðlilega umsjá.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 1. gr. er heimilt að undanskilja samninga um afhendingu vöru eða þjónustu sem er í beinum tengslum við þá vöru og þjónustu sem orðið hafa tilefni til þess að neytandi óskaði sjálfur eftir heimsókn seljanda.

4. gr.


    Þegar um er að ræða samninga er falla undir 1. gr. skal seljandi upplýsa neytanda skriflega um rétt hans til þess að segja samningnum upp innan þess frests sem um getur í 5. gr. Jafnframt skal í hinum skriflegu upplýsingum tilkynna nafn og heimilisfang aðila sem unnt er snúa sér til með uppsögn samnings.
     Hinar skriflegu upplýsingar seljanda skulu vera dagsettar og hafa að geyma einkenni þess samnings sem gerður er milli seljanda og neytanda. Þær skulu látnar neytanda í té við gerð samningsins þegar um er að ræða tilfelli eins og greinir í 1. og 2. mgr. 1. gr. eða þegar neytandi leggur fram tilboð sitt í tilvikum er greinir í 3. og 4. mgr. 1. gr.

5. gr.


    Neytandi skal hafa rétt til að falla frá samningi við seljanda, er fellur undir lög þessi, með því að tilkynna um það með ábyrgðarbréfi sem sent er innan tíu daga frá því að neytanda berast í hendur upplýsingar um söluskilmála sem um getur í 4. gr.
     Með tilkynningunni er neytandi leystur undan öllum skilmálum samningsins sem sagt er upp.

6. gr.


    Neytandi getur ekki afsalað sér þeim réttindum sem honum eru veitt samkvæmt lögum þessum.

7. gr.


    Nýti neytandi sér rétt til að falla frá samningi samkvæmt lögum þessum skal um réttaráhrif þess fara eftir lögum um lausafjárkaup, einkum með tilliti til endurgreiðslu vöru eða þjónustu sem látin var í té og skila á móttekinni vöru.

8. gr.


    Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála og varða brot sektum.

9. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð. Í slíkri reglugerð getur ráðherra ákveðið að lögin nái einnig til fjarsölu og getur hann sett nánari reglur um neytendavernd í því sambandi.

10. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið, en í 72. gr. EES-samningsins, sem vísar til XIX. viðauka hans, samþykkja stjórnvöld EFTA-ríkja að laga löggjöf sína að tilteknum gerðum Evrópubandalagsins. Tilskipun EB-ráðsins frá 22. desember 1985 (85/577/EBE) fjallar um þetta efni og er frumvarpið sniðið eftir efni hennar.
     Viðskiptahættir, þar sem seljendur og kaupendur gera með sér samninga eða takast á hendur einhliða skuldbindingar utan starfsstöðva seljanda verða æ algengari í samfélagi nútímans. Þeir eru í frumvarpi þessu nefndir „húsgöngusala“ sem er nýyrði er svarar til orðanna „door-to-door“ sales á enskri tungu og „dörsalg“ á skandinavískum málum. Frumvarpið nær einnig til fjarsölu, en markmið þess er að sett verði lög sem verndi neytendur gegn óréttmætum viðskiptaháttum er tengjast sölumennsku utan fastra starfsstöðva verslunarmanna eða verslunarfyrirtækja.
     Það einkennir þá samninga sem gerðir eru utan starfsstöðvar seljanda að það er nær undantekningarlaust seljandinn sem á frumkvæði að viðskiptunum. Neytandinn er því oft óviðbúinn viðskiptunum og tilboð seljanda koma honum í opna skjöldu. Neytendum gefst sjaldnast kostur á því að bera gæði og verð tilboðsins saman við önnur tilboð á markaðnum. Viðskipti, sem koma neytendum í opna skjöldu, eiga ekki aðeins við um sölumennsku við húsdyr eða í heimahúsum, heldur einnig í mörgum öðrum tilvikum þegar seljandi býður vörur eða þjónustu til neytenda sem staddir eru utan fastrar starfsstöðvar seljanda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í grein þessari er skilgreint til hvers konar samninga frumvarpi þessu er ætlað að taka. Er hér um að ræða samninga milli seljenda og neytenda sem gerðir eru utan fastrar starfsstöðvar seljanda, t.d. á heimili neytanda eða vinnustað hans og neytandinn hefur ekki óskað eftir komu seljanda.

Um 2. gr.


    Greinin hefur að geyma skilgreiningar á nokkrum hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu.

Um 3. gr.


    Hér eru taldar upp þær tegundir samninga sem frumvarpið nær ekki til. Er þar um að ræða samninga er tengjast fasteignum, samninga um vörur til heimilisnota sem afhentar eru neytandanum reglulega, samning varðandi afhendingu vöru eða þjónustu þegar hann er gerður á grundvelli sölubæklings seljanda og réttur neytanda til að skila vörunni innan tíu daga frá móttöku hennar kemur skýrt fram í sölubæklingnum, vátryggingasamninga og samninga um verðbréfakaup.

Um 4. gr.


    Gera þarf viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að neytandi fái skriflegar upplýsingar um rétt sinn til að rifta samningnum. Jafnframt er lögð sú skylda á seljanda að hann tilgreini skriflega nafn og heimilisfang aðila sem hægt er að snúa sér til í framhaldi af samningsgerð. Ákvæði þetta er sett í þeim tilgangi að veita neytendum aukna vernd er þeir kaupa vörur eða þjónustu af húsgöngusölum, t.d. er gallar koma upp og koma þarf kvörtunum á framfæri við seljandann.

Um 5. gr.


    Með þessu ákvæði er neytanda veittur tíu daga frestur til að rifta kaupsamningi sem lög þessi ná til. Er fresturinn talinn hæfilegur tími til þess að neytanda gefist færi á því að meta þær skuldbindingar sem í kaupsamningnum felast.

Um 6. gr.


    Grein þessari er ætlað að koma í veg fyrir að seljandi í húsgöngusölu geti komið sér undan þeim skyldum sem á honum hvíla, t.d. með því að bjóða neytanda sérstakan afslátt af kaupverði gegn réttindaafsali.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er vísað til laga um lausafjárkaup, um endurgreiðslu vöru eða þjónustu sem látin er í té og skil á móttekinni vöru. Í núgildandi lögum um lausafjárkaup, nr. 39/1922, segir í 57. gr. að sé kaupum rift eigi seljandi ekki rétt á að fá hlutinn aftur nema hann skili aftur því er hann hefur fengið af andvirði hans og kaupandi á ekki rétt á að fá andvirði endurgreitt nema hann skili aftur því er hann hafði við tekið í sama ástandi og mergð eða stærð að öllu verulegu sem það var í er hann tók við því.

Um 8. gr.


    Um brot gegn lögunum skal fara að hætti opinberra mál og varða brot sektum. Þetta merkir að neytendur skulu beina kærum vegna brota á lögunum til sýslumanns eða lögreglustjóra.

Um 9. gr.


    Unnið er nú að gerð samræmdra reglna um fjarsölu á vegum Evrópubandalagsins og munu EFTA-ríkin koma að því verki við gildistöku EES-samnings. Með fjarsölu er átt við viðskipti þar sem kaupandi og seljandi hittast ekki, en sölustarfsemi seljanda fer fram með aðstoð síma, bréfsíma, sjónvarpi, útsendum sölulistum, tölvusamskiptum o.fl. Þessi tegund markaðsstarfsemi er í örri þróun og þykir því nauðsynlegt að veita ráðherra heimild til þess að láta ákvæði laga þessara einnig ná til hennar eftir því sem nauðsyn krefur. Er lagt til að ráðherra geti með reglugerð fellt slíka sölustarfsemi undir lögin og um leið gefst honum ráðrúm til þess að skilgreina nánar þær tegundir markaðsstarfsemi sem um er að ræða í samræmi við sameiginlegar reglur EES-svæðisins.

Um 10. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið að því er Ísland varðar. Áformað er að samningurinn taki gildi 1. janúar 1993, en ef það dregst eitthvað þá dragist gildistaka laganna um sama tíma.