Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1042, 115. löggjafarþing 222. mál: málefni fatlaðra (heildarlög).
Lög nr. 59 2. júní 1992.

Lög um málefni fatlaðra.


I. KAFLI
Markmið og skilgreining.

1. gr.

     Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.
     Við framkvæmd á markmiðum laganna skal tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra.

2. gr.

     Sá á rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.

II. KAFLI
Stjórn og skipulag.

3. gr.

     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðra samkvæmt lögum þessum. Skal félagsmálaráðuneytið annast stefnumótun, gerð heildaráætlana og eftirlit með framkvæmd laganna.

4. gr.

     Sérstök nefnd skal vera félagsmálaráðuneyti til ráðgjafar um málefni fatlaðra. Nefnist hún stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og skal hún skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar, þar af annan formann.
     Stjórnarnefnd skal gera tillögur til félagsmálaráðherra um sérhæfða þjónustu við fatlaða á landsvísu sem er óháð skiptingu í starfssvæði skv. 5. gr. Þá fer stjórnarnefnd með stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra, sbr. 38. gr.

5. gr.

     Landinu skal skipt í starfssvæði málefna fatlaðra og fer svæðaskipting eftir kjördæmaskipan.
     Heimilt skal að skipta starfssvæðum í sérstök þjónustusvæði. Þjónustusvæði geta miðast við einstök sveitarfélög, héraðsnefndir eða byggðasamlög sveitarfélaga, sbr. sveitarstjórnarlög, eða heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.

6. gr.

     Á hverju starfssvæði, sbr. 5. gr., skal starfa svæðisráð í málefnum fatlaðra.
     Svæðisráð skulu hafa eftirtalin verkefni:
 1. Að gera tillögur til félagsmálaráðuneytis og svæðisskrifstofu um þjónustu og stuðla að samræmingu hennar á svæðinu.
 2. Að hafa eftirlit með að þjónusta, starfsemi og rekstur stofnana samkvæmt lögum þessum séu í samræmi við markmið laganna.
 3. Að veita félagsmálaráðuneyti umsögn um svæðisáætlanir, sbr. 4. tölul. 12. gr., um uppbyggingu þjónustu fyrir fatlaða, sbr. 41. gr., og um nýja eða breytta starfsemi, sbr. 45. gr.
 4. Að annast réttindagæslu fatlaðra skv. XV. kafla, þar á meðal að fatlaðir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.
 5. Að hafa frumkvæði að aukinni ábyrgð sveitarfélaga í málefnum fatlaðra, sbr. ákvæði 13. gr. um þjónustusamninga.

     Í svæðisráði sitja sjö fulltrúar og skulu þeir skipaðir af ráðherra til fjögurra ára í senn. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið skulu tilnefna sinn fulltrúann hvor og svæðisbundin samtök sveitarfélaga þrjá og skal einn þeirra vera félagsmálastjóri á svæðinu. Jafnframt skulu fræðslustjóri og héraðslæknir eiga sæti í svæðisráði.
     Svæðisráð kýs sér sjálft formann.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um störf svæðisráða.

III. KAFLI
Almenn þjónusta.

7. gr.

     Fatlaðir skulu eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf hins fatlaða meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hinn fatlaði fá þjónustu samkvæmt lögum þessum.

IV. KAFLI
Stoðþjónusta.

8. gr.

     Veita skal fötluðum þjónustu sem miðar að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra. Stoðþjónustu þessa skal veita á hverju svæði með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Skal hún miðast við eftirtaldar þarfir fatlaðra:
 1. Þarfir fatlaðra fyrir þjónustu á heimilum sínum sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds. Um þjónustu þessa fer m.a. samkvæmt ákvæðum X. kafla.
 2. Þarfir fatlaðra til hæfingar, endurhæfingar og atvinnu sem m.a. felast í því að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu. Um þjónustu þessa fer m.a. samkvæmt ákvæðum XI. og XII. kafla.
 3. Þarfir fatlaðra fyrir sálfræðiþjónustu, ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þar með talið að njóta tómstunda og menningarlífs. Um þjónustu þessa fer m.a. samkvæmt ákvæðum 10. tölul. 12. gr., 24. gr. og XIV. kafla.
 4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri aðstoð við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði. Þjónusta þessi er m.a. skv. VIII. og IX. kafla.


V. KAFLI
Þjónustustofnanir.

9. gr.

     Starfrækja skal þjónustustofnanir fyrir fatlaða í því skyni að koma til móts við sértækar þarfir þeirra svo að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi.
     Þjónustustofnanir þessar skulu starfræktar á hverju svæði eftir því sem þörf er á:
 1. Hæfingar- og endurhæfingarstöðvar.
 2. Dagvistarstofnanir fatlaðra.
 3. Verndaðir vinnustaðir.
 4. Leikfangasöfn.
 5. Skammtímavistun.

     Félagsmálaráðherra er heimilt að bæta við þjónustustofnunum eða fella niður að fenginni umsögn stjórnarnefndar.
     Félagsmálaráðherra veitir leyfi fyrir starfsemi nýrra stofnana, svo og fyrir meiri háttar breytingum á starfsemi stofnana að fengnum tillögum svæðisráða og stjórnarnefndar.

VI. KAFLI
Búseta.

10. gr.

     Fatlaðir skulu eiga kost á búsetu í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er. Búseta fatlaðra, sem lög þessi taka til, getur verið:
 1. Félagslegar íbúðir.
 2. Verndaðar íbúðir.
 3. Sambýli.
 4. Vistheimili.
 5. Heimili fyrir börn.
 6. Áfangastaðir.

     Félagsmálaráðherra veitir starfsleyfi skv. 3.–6. tölul. þessarar greinar.
     Búseta fatlaðra samkvæmt lögum þessum skal vera í íbúðabyggð, sbr. skipulagslög.

11. gr.

     Umsóknir um þjónustu á stofnunum skv. 1.–3. tölul. 9. gr., svo og um búsetu skv. 2.–6. tölul. 10. gr., skulu sendar viðkomandi svæðisskrifstofum í málefnum fatlaðra, sbr. 12. gr. Umsókn er gild þegar hinn fatlaði eða forráðamaður hans stendur að henni. Svæðisskrifstofur meta þörf hins fatlaða fyrir þjónustu og ósk hans um búsetu í samráði við viðkomandi greiningar- og ráðgjafaraðila. Svæðisskrifstofur taka ákvarðanir um þjónustu og búsetuform að höfðu samráði við umsækjanda og væntanlegt sambýlisfólk. Sé um að ræða stofnanir, sem reknar eru af öðrum en ríkinu, þarf að koma til samþykki rekstraraðila. Óheimilt er að ákveða búsetuform skv. 2.–6. tölul. 10. gr. án þess að þörf fyrir þjónustu hafi verið metin.
     Verði ágreiningur um afgreiðslu umsóknar fjallar svæðisráð um það mál.

VII. KAFLI
Framkvæmd þjónustunnar.

12. gr.

     Á hverju starfssvæði, sbr. 5. gr., skal starfrækt skrifstofa fyrir málefni fatlaðra nema sveitarfélög yfirtaki þjónustu að öllu leyti skv. 13. gr. Svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra skulu hafa með höndum eftirfarandi viðfangsefni:
 1. Að annast rekstur fyrir fatlaða á vegum ríkisins, svo og aðra þjónustu og starfsemi fyrir fatlaða á vegum ríkisins samkvæmt lögum þessum.
 2. Að bera ábyrgð á framkvæmdum í málefnum fatlaðra sem veitt er fé til úr Framkvæmdasjóði, sbr. 40. gr., og ekki eru á vegum sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnana.
 3. Að safna upplýsingum um þörf fyrir þjónustu vegna fatlaðra samkvæmt lögum þessum.
 4. Að annast gerð svæðisáætlunar til þriggja ára um uppbyggingu þjónustu við fatlaða og leggja fyrir svæðisráð til umsagnar.
 5. Að veita svæðisráðum aðstoð og þjónustu til þess að þau geti sem best sinnt hlutverki sínu.
 6. Að annast mat á þörf hins fatlaða fyrir þjónustu, sbr. 2. gr., í samráði við greiningaraðila.
 7. Að eiga samstarf og samráð við héraðslækna og fræðslustjóra vegna málefna fatlaðra.
 8. Að eiga samstarf við sveitarfélög vegna félagsþjónustu og ferlimála fatlaðra.
 9. Að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra barna samkvæmt lögum um almannatryggingar.
 10. Að sjá til þess að fatlaðir fái sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf á svæðinu.

     Félagsmálaráðherra skipar framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa að fenginni umsögn svæðisráða. Framkvæmdastjórum skal sett erindisbréf.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um starfsemi svæðisskrifstofa.

13. gr.

     Svæðisráð skal eiga frumkvæði að því að unnið sé að samningum milli ríkis og sveitarfélaga um það að sveitarfélögin annist þjónustu við fatlaða að hluta til eða að öllu leyti, ýmist á vettvangi sveitarfélaga, byggðasamlaga eða héraðsnefnda. Skal ráðuneytið leita álits og umsagnar stjórnarnefndar um slíka samninga. Í þeim samningum skal kveðið á um þá þjónustu sem sveitarfélögunum er ætlað að inna af hendi, greiðslu kostnaðar úr ríkissjóði og framlög til stofnana úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, enda sé ráð fyrir slíku gert í heildaráætlun, sbr. 41. gr.
     Þegar sveitarfélögin annast þjónustu við fatlaða að öllu leyti á sérstökum þjónustusvæðum, sbr. 5. gr., skulu greiðslur miðast við fjölda fatlaðra á svæðinu og þörf þeirra fyrir þjónustu annars vegar, svo og sannanlegan rekstrarkostnað einstakra stofnana hins vegar.
     Þegar sveitarfélög annast einstaka þjónustuþætti skal miða greiðslur við sannanlegan rekstrarkostnað. Félagsmálaráðherra setur reglugerð um samninga við sveitarfélögin samkvæmt grein þessari.

14. gr.

     Leyfi til handa sveitarfélögum, félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum til að setja á fót og reka stofnanir skv. 9. gr. eða heimili fyrir fatlaða skv. 3.–6. tölul. 10. gr. veitir félagsmálaráðherra að fenginni umsögn viðkomandi svæðisráðs. Heimilt er félagsmálaráðherra að gera sérstaka þjónustusamninga við félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, sbr. 3. mgr. 13. gr.

15. gr.

     Svæðisráð annast eftirlit með stofnunum fyrir fatlaða. Skylt er að veita fulltrúum svæðisráða aðgang að stofnunum og heimilum fatlaðra, sem leyfi hafa verið veitt til skv. 14. gr., til eftirlits og upplýsinga um allt er varðar starfsemi þeirra og rekstur. Svæðisráðum ber að leiðbeina um það sem betur má fara. Félagsmálaráðherra getur svipt rekstraraðila starfsleyfi að tillögu svæðisráðs og stjórnarnefndar hafi hann ekki uppfyllt kröfur þeirra eða ráðuneytis um það sem talið er ábótavant í rekstri innan ákveðinna tímamarka.

VIII. KAFLI
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

16. gr.

     Á vegum ríkisins skal vera starfrækt ein greiningar- og ráðgjafarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Verkefni hennar eru:
 1. Athugun, rannsókn og greining á fötluðum sem vísað er þangað eða leita þangað að eigin frumkvæði.
 2. Gerð, prófun og mat viðeigandi meðferðar- og þjálfunaráætlana. Ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir foreldra/forráðamenn eða aðra meðferðaraðila.
 3. Langtímameðferð fyrir þá einstaklinga sem þarfnast hennar, enda sé hún ekki fáanleg á öðrum stofnunum eða annars staðar.
 4. Tilvísanir til annarra meðferðaraðila og stofnana í því skyni að hlutaðeigandi skjólstæðingur njóti þar þeirrar þjónustu og þjálfunar sem þörf er hverju sinni. Greiningar- og ráðgjafarstöðinni ber skylda til að láta meðferðaraðilum í té leiðbeiningar og ráðgjöf þegar þess er óskað.
 5. Starfræksla leikfangasafns. Útlán leikfanga til foreldra og forráðamanna ásamt ráðgjöf og leiðbeiningum. Enn fremur fagleg aðstoð og ráðgjöf við uppbyggingu og starfsemi annarra leikfangasafna á landinu.
 6. Fagleg aðstoð til svæðisskrifstofa og að veita umsögn um þjónustu og vistun á stofnunum þegar þess er óskað.
 7. Skráning og varðveisla upplýsinga um fötlun einstaklinga í samvinnu við félags-, fræðslu- og heilbrigðisyfirvöld.
 8. Fræðilegar rannsóknir á sviði fötlunar og fagleg ráðgjöf varðandi kannanir á högum fatlaðra í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og svæðisskrifstofur.

     Félagsmálaráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um hlutverk og verkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
     Forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar skal hafa sérþekkingu á málefnum fatlaðra og skal hann bera ábyrgð á faglegri starfsemi og samskiptum við aðrar stofnanir. Framkvæmdastjóri skal bera ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar og hafa umsjón með daglegum rekstri. Félagsmálaráðherra skipar forstöðumann og framkvæmdastjóra að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar.
     Stjórn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins skipa fimm menn. Skulu Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp tilnefna sinn aðilann hvor, stjórnarnefnd einn en ráðherra skipar tvo án tilnefningar, þar af annan formann.

IX. KAFLI
Málefni barna og fjölskyldna fatlaðra.

17. gr.

     Komi í ljós einkenni eftir fæðingu er benda til þess að barn geti verið fatlað ber að hlutast til um að fram fari frumgreining. Leiði frumgreining í ljós að þörf sé frekari greiningar eða meðferðarúrræða skal tilkynna það Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins eða öðrum viðeigandi aðilum sem leita heppilegra úrræða í samráði við foreldra.

18. gr.

     Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, skólakerfi og félagsþjónustu skulu sérstaklega gefa gaum andlegu og líkamlegu atgervi barna. Verði þeir þess áskynja að barn hafi einkenni um fötlun skal upplýsa forráðamenn um það. Fer um slíkt skv. 17. gr.

19. gr.

     Fötluð börn skulu eiga rétt til leikskóladvalar á vegum sveitarfélaga og skal veita hana á almennum leikskólum með nauðsynlegri stuðningsþjónustu eða á sérhæfðum deildum, sbr. lög um leikskóla, nr. 48/1991.

20. gr.

     Fötluð börn skulu eiga kost á þjónustu leikfangasafna. Auk útlána úr leikfangasafni fer þar fram þroska- og leikþjálfun barna. Á leikfangasöfnum skal veitt uppeldisleg ráðgjöf og leiðbeiningar við notkun leikfanga í þjálfunarskyni.

21. gr.

     Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Dvöl fatlaðs einstaklings hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil. Um þjónustu þessa fer samkvæmt reglugerð.

22. gr.

     Foreldrar skulu eiga kost á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín þegar þörf krefur. Skammtímavistun er ætlað að veita fötluðum tímabundna dvöl til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem vegna veikinda eða annars álags.

23. gr.

     Stuðla skal að því að fötluð börn eigi kost á sumardvöl þegar þörf er á. Sumardvöl er ætlað að gefa fötluðum kost á að skipta um umhverfi og dveljast utan heimilis síns sér til ánægju og tilbreytingar.

X. KAFLI
Liðveisla.

24. gr.

     Sveitarfélög skulu eftir föngum gefa fötluðum kost á liðveislu. Með liðveislu er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs.

25. gr.

     Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum einstaklingum frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun. Svæðisskrifstofur taka ákvörðun um frekari liðveislu samkvæmt heimildum fjárlaga hverju sinni að fenginni umsögn svæðisráða.

XI. KAFLI
Félagsleg hæfing og endurhæfing.

26. gr.

     Fatlaðir skulu njóta félagslegrar hæfingar og endurhæfingar í þeim tilgangi að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni fatlaðra til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Starfrækja skal sérstakar hæfingar- og endurhæfingarstöðvar, svo og dagvistarstofnanir fyrir fatlaða sem geta veitt þroskaþjálfun, iðjuþjálfun og/eða starfsþjálfun. Iðju- og starfsþjálfun skal jafnframt veita á vernduðum vinnustöðum, sbr. 30. gr.
     Um læknisfræðilega endurhæfingu fer samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

27. gr.

     Heimilt er að veita fötluðum aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:
 1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
 2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

     Svæðisskrifstofur eða sveitarfélög, sbr. 13. gr., annast mat á þörf á aðstoð skv. 1.–2. tölul.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessara ákvæða, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja.

XII. KAFLI
Atvinnumál.

28. gr.

     Á hverju starfssvæði skal starfrækt atvinnuleit sem hefur það markmið að afla fötluðum atvinnu við sitt hæfi. Í tengslum við atvinnuleit skal veita starfsráðgjöf. Þar sem sveitarfélög starfrækja sérstaka vinnumiðlun skal fela þeirri vinnumiðlun að annast atvinnuleit fatlaðra samkvæmt sérstökum samningi.

29. gr.

     Veita skal fötluðum aðstoð til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði þegar þess gerist þörf. Skal það gert með sérstakri liðveislu á vinnustað, svo og fræðslu og leiðbeiningum til annars starfsfólks.
     Veita skal fötluðum starfsþjálfun í almennum fyrirtækjum eða stofnunum þar sem því verður við komið. Í þeim tilvikum skal gera sérstakan samning þar sem m.a. er kveðið á um þjálfunartímabil og greiðslu kostnaðar.

30. gr.

     Á hverju starfssvæði skal fötluðum standa til boða vernduð vinna á almennum vinnumarkaði. Vernduð vinna getur falist í störfum sem skipulögð eru með tilliti til fötlunar. Heimilt skal jafnframt að starfrækja verndaða vinnustaði fyrir fatlaða. Verndaðir vinnustaðir skulu annars vegar veita fötluðum launaða starfsþjálfun svo að þeir geti starfað á frjálsum vinnumarkaði. Hins vegar skulu þeir veita fötluðum launuð föst störf.

31. gr.

     Félagsmálaráðuneytið beitir sér fyrir, í samráði við samtök fatlaðra og aðila vinnumarkaðarins, að reglulega sé gerð könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum og í framhaldi af því verði gerðar tillögur um úrbætur.

32. gr.

     Fatlaðir skulu eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sé að mati svæðisráðs gengið á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs getur það krafið veitingarvaldhafa um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitinguna.

XIII. KAFLI
Húsnæðismál.

33. gr.

     Stuðla skal að því að fötluðum standi til boða félagslegar íbúðir, þ.e. félagslegar leiguíbúðir, kaupleiguíbúðir og félagslegar eignaríbúðir samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Heimilt er að ráðstafa fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra í því skyni að standa undir framlagi framkvæmdaraðila við byggingu eða kaup á félagslegum íbúðum fyrir fatlaða sem ætlaðar eru til leigu, sbr. 4. tölul. 40. gr.

XIV. KAFLI
Ferlimál og ferðaþjónusta.

34. gr.

     Sveitarstjórnir skulu sinna ferlimálum fatlaðra með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði byggingarlaga og byggingarreglugerðar, sbr. og skipulagslög og skipulagsreglugerð. Svæðisskrifstofur skulu koma á framfæri ábendingum til byggingarnefnda um úrbætur á sviði ferlimála.
     Heimilt er sveitarstjórn að skipa samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra, með þátttöku samtaka fatlaðra, sem m.a. geri tillögur um forgangsröðun verkefna á sviði ferlimála.

35. gr.

     Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
     Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega.

XV. KAFLI
Réttindagæsla fatlaðra.

36. gr.

     Svæðisráð í málefnum fatlaðra skulu standa vörð um rétt fatlaðra til þjónustu samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum eftir því sem við á. Starfsmenn, sem sinna þjónustu við fatlaða og starfa á stofnunum fatlaðra, skulu standa vörð um hagsmuni þeirra og gæta þess að réttindi þeirra séu virt.

37. gr.

     Í því skyni að treysta réttindi fatlaðra einstaklinga á heimilum fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. á sviði einkalífs og meðferðar fjármuna þeirra skulu svæðisráð skipa sérstakan trúnaðarmann fatlaðra á hverju svæði.
     Trúnaðarmaður fylgist með högum hinna fötluðu og skulu forstöðumenn viðkomandi heimila veita honum nauðsynlegar upplýsingar þar að lútandi. Sé um að ræða skráðar upplýsingar um persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða skal leitað eftir samþykki hans.
     Telji hinn fatlaði að réttur hans sé fyrir borð borinn getur hann tilkynnt það trúnaðarmanni sem veitir honum nauðsynlegan stuðning og kannar málið tafarlaust. Að lokinni könnun metur trúnaðarmaður hvort málið skuli lagt fyrir svæðisráð. Sama gildir telji trúnaðarmaður að réttur hins fatlaða sé ekki virtur.
     Telji aðstandendur fatlaðra, hagsmunasamtök fatlaðra eða aðrir sem láta sig hag fatlaðra varða að réttur fatlaðra á heimili fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. sé ekki virtur skal tilkynna það trúnaðarmanni sem kannar málið tafarlaust. Að lokinni könnun metur trúnaðarmaður hvort málið skuli lagt fyrir svæðisráð.
     Svæðisráð sér um að mál samkvæmt þessari grein fái þá meðferð sem við á hverju sinni, lögum samkvæmt. Trúnaðarmaður veitir hinum fatlaða stuðning við meðferð málsins sé þess óskað.

XVI. KAFLI
Framkvæmdasjóður fatlaðra.

38. gr.

     Framkvæmdasjóður fatlaðra, sem stofnaður var með lögum nr. 41/1983, skal vera í vörslu félagsmálaráðuneytis og skal stjórnarnefnd annast stjórn sjóðsins, sbr. 4. gr. Þegar stjórnarnefnd fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í nefndinni.
     Sjóðstjórn gerir tillögur til ráðherra um úthlutun.

39. gr.

     Tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra eru:
 1. Óskertar tekjur Erfðafjársjóðs.
 2. Framlag ríkissjóðs samkvæmt ákvörðun Alþingis í fjárlögum hvers árs.
 3. Sérstakt framlag ríkissjóðs samkvæmt ákvörðun Alþingis til uppbyggingar þjónustu í þágu geðfatlaðra næstu fimm ár frá gildistöku laga þessara.
 4. Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.
 5. Vaxtatekjur.


40. gr.

     Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur eftirfarandi hlutverk:
 1. Sjóðurinn skal fjármagna stofnkostnað þjónustustofnana fatlaðra, sbr. 9. gr., og heimila fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. sem eru á vegum ríkisins.
 2. Sjóðurinn fjármagnar þjónustustofnanir og heimili fatlaðra á vegum sveitarfélaga, sbr. 1. tölul., eftir því sem nánar er kveðið á um í samningum skv. 13. gr.
 3. Heimilt er sjóðnum að veita félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum styrk til að koma á fót þjónustustofnunum og heimilum fatlaðra, sbr. 1. tölul.
 4. Sjóðnum er heimilt að veita framkvæmdaraðilum félagslegra leiguíbúða og kaupleiguíbúða í leigu, sbr. lög um Húsnæðisstofnun ríkisins og 1. og 2. tölul. 10. gr. laga þessara, styrk til greiðslu framlags sem framkvæmdaraðilum ber að leggja fram samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Styrkur þessi má nema helmingi af framlagi framkvæmdaraðila þegar sveitarfélög eiga í hlut, en má ná til alls framlagsins þegar um aðra framkvæmdaraðila er að ræða. Framlag Framkvæmdasjóðs samkvæmt þessu ákvæði er endurkræft sé íbúð tekin til annarra nota en í þágu fatlaðra.
 5. Heimilt er að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga með það að markmiði að hreyfihamlaðir og blindir geti athafnað sig með eðlilegum hætti. Framlag úr sjóðnum skal aldrei vera meira en sem nemur helmingi af kostnaði vegna hverrar einstakrar framkvæmdar.
 6. Heimilt er að verja allt að 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhaldsframkvæmda, sem ekki falla undir rekstrarviðhald í skilningi fjárlaga, á þeim heimilum fatlaðra og þjónustustofnunum fatlaðra, sbr. 1.–3. tölul., sem byggðar/keyptar hafa verið og falla innan gildissviðs þessara laga. Úthlutun þess fjár sem varið er til viðhaldsframkvæmda skal vera í höndum félagsmálaráðuneytis.
 7. Auk verkefna skv. 1.–6. tölul. er Framkvæmdasjóði fatlaðra heimilt að veita fé til annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru taldar í þágu fatlaðra, svo sem breytinga á almennum vinnustöðum þar sem fatlaðir starfa. Enn fremur er sjóðnum heimilt að veita fé til kannana og áætlana í málefnum fatlaðra.


XVII. KAFLI
Fjármögnun og rekstur.
Stofnkostnaður.

41. gr.

     Svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra annast gerð svæðisáætlana um þjónustu við fatlaða og skulu svæðisráð veita umsögn um þær. Félagsmálaráðuneytið annast gerð heildaráætlunar á grundvelli svæðisáætlana ásamt tillögum stjórnarnefndar um framkvæmdir vegna sérhæfðrar þjónustu á landsvísu.

42. gr.

     Stjórnarnefnd gerir árlega tillögur um framlög úr Framkvæmdasjóði í samræmi við heildaráætlun skv. 41. gr.

43. gr.

     Framkvæmdasjóður fatlaðra greiðir að fullu stofnkostnað þjónustustofnana skv. 9. gr. og heimila fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. á vegum ríkisins og samkvæmt samningi við sveitarfélög skv. 13. gr.

44. gr.

     Framlög úr Framkvæmdasjóði til sveitarfélaga, félaga fatlaðra og sjálfseignarstofnana skulu innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi við félagsmálaráðuneytið. Í slíkum samningi skal kveðið á um að óheimilt sé að ráðstafa húsnæðinu eða selja það nema með samþykki félagsmálaráðuneytis og skal kvöð um það þinglýst. Framlagið er afturkræft sé húsnæðinu ráðstafað til annarra en fatlaðra, sbr. 3. tölul. 40. gr.

Rekstur.

45. gr.

     Svæðisskrifstofur skulu árlega gera fjárlagatillögur og senda þær til félagsmálaráðuneytis. Sé um rekstur á vegum sveitarfélaga að ræða, sbr. 13. gr., skulu þau senda fjárlagatillögur sínar til viðkomandi svæðisskrifstofu til umsagnar. Sama gildir um félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem hafa á hendi rekstur í þágu fatlaðra. Tillögur um nýja eða breytta starfsemi skal senda svæðisráðum til umsagnar.

46. gr.

     Gera skal fjárlagatillögur um stoðþjónustu byggða á grundvelli 8. gr.

47. gr.

     Fjárlagatillögur vegna þjónustustofnana skv. 9. gr. og heimila fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. skulu miðast við mat á þjónustuþörf. Skal slíkt mat fara fram þegar starfsemi hefst og síðan árlega.

48. gr.

     Þjónusta og annar rekstrarkostnaður samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði. Þó skulu sveitarfélög greiða kostnað vegna liðveislu, sbr. 24. gr., ferlimála, sbr. 34. gr., og ferðaþjónustu, sbr. 35. gr. Um kostnað vegna leikskóladvalar fatlaðra barna, sbr. 19. gr., fer samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 48/1991. Þó skal ríkissjóður greiða þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur vegna fatlaðra barna í leikskólum.

49. gr.

     Tekjur, sem falla til vegna þeirrar atvinnustarfsemi stofnana sem nýtur framlaga á fjárlögum, skulu koma til frádráttar rekstrarkostnaði þeirra.

50. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða gjaldtöku vegna þjónustu skv. 21. og 22. gr. enda njóti viðkomandi umönnunarbóta eða örorkulífeyris og tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar.

51. gr.

     Ferðir fatlaðra til og frá þjónustustofnunum skv. 1.–4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar nauðsynlegrar þjónustu, sem veitt er fötluðum sérstaklega, greiðist á vegum sveitarfélaga. Ákvæði þetta á þó ekki við um akstur til og frá sumardvalarheimili og skammtímavistun.
     Félagsmálaráðherra skal setja reglur um greiðslu kostnaðar við ferðir fatlaðra utan af landsbyggðinni til og frá Greiningarstöð ríkisins sem greiðist úr ríkissjóði. Skal þar höfð hliðsjón af reglum um ferðakostnað sjúklinga innan lands samkvæmt lögum um almannatryggingar, eftir því sem við á.

52. gr.

     Kostnaður vegna starfsemi svæðisskrifstofa, svæðisráða og stjórnarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

53. gr.

     Sjálfseignarstofnanir og stofnanir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka, sem reknar eru samkvæmt lögum þessum og njóta framlaga úr ríkissjóði, skulu skila félagsmálaráðuneyti, viðkomandi svæðisráði, Ríkisbókhaldi og Ríkisendurskoðun ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs.

XVIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

54. gr.

     Sérhverjum, er starfar samkvæmt lögum þessum, ber að gæta fyllstu þagmælsku um það sem hann kemst að í starfi sínu.

55. gr.

     Félagsmálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

XIX. KAFLI
Gildistaka.

56. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 1992. Frá sama tíma falla úr gildi lög um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 87/1989. Þó skal síðari málsgrein 35. gr. og fyrri málsgrein 51. gr. öðlast gildi 1. janúar 1993.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 56. gr. skal ráðstöfun fjár úr Framkvæmdasjóði fatlaðra vera samkvæmt núgildandi lögum fram til ársloka 1992.

II.
     Lög þessi skal endurskoða innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra. Endurskoðun laganna skal m.a. miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaga í málefnum fatlaðra.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.