Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:17:18 (4259)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Umræða er hafin að nýju að loknum áramótum um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina að staðfesta samning um Evrópskt efnahagssvæði. Við áramótin hafa margir reynt að meta stöðuna í þjóðfélagi okkar og tjáð sig um það í fjölmiðlum eins og oft áður. Hjá flestum kemur fram að horfur séu því miður lakari en verið hefur um langt skeið og æskilegt væri. Nokkuð eru skiptar skoðanir um hverjar eru orsakir þess enda eru þær að sjálfsögðu fleiri en ein. Öllum er þó ljóst að við myndun núv. ríkisstjórnar fyrir 20 mánuðum var tekin upp ný stjórnarstefna og mörgum finnst augljóst að sú stefna eigi drjúgan þátt í því hvernig nú er komið í þjóðarbúskap okkar. Meginatriðið í boðskap ríkisstjórnarinnar var að hún ætti ekki að skipta sér af atvinnulífinu, þar ættu svokölluð lögmál fjármagnsins og markaðarins að stjórna.
    Í uppbyggingar- og framfarasókn þjóðarinnar á þessari öld hefur fjármagnið vissulega verið afl þeirra hluta sem gjörðir hafa verið, en nýtingu þess hefur verið stjórnað til að byggja upp atvinnuvegi og velferðarkerfi. En nú er það krafa stjórnarstefnunnar að fjármagnið eigi að stjórna og fólkið að verða þjónar þess eða þrælar.
    Í meginatriðum stangast slík kenning um drottinvald fjármagnsins á við þær menningar- og siðgæðishugsjónir sem þjóðin hefur alist upp við. En við það má svo bæta að á síðasta ári, að lokinni umhverfisráðstefnunni í Ríó, hafa þær raddir orðið háværari sem segja að hin sívaxandi framleiðnikrafa markaðs- og frjálshyggjubúskaparins hljóti að leiða til óbætanlegs tjóns á umhverfi og að lokum jafnvel tortímingar mannkyns.
    Á fundi um umhverfismál sem haldinn var í Stokkhólmi í síðasta mánuði sagði Sten Ebbersten, prófessor við Uppsalaháskóla, svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfismál snerta ekki eingöngu náttúrulíf, skóga, hreint loft eða ósoneyðingu. Þau eru fyrst og fremst hagfræðilíkan sem virkar innan náttúrutakmarkana. Við erum öll að byrja að gera okkur grein fyrir því að umhverfisvandamálið á rætur sínar að rekja til þjóðhagfræðilíkansins. Tímabil er að hefjast þar sem hinn takmarkandi þáttur verður þær náttúruauðlindir sem eftir eru. Náttúran kemst af án mannsins en maðurinn kemst ekki af án náttúrunnar.``
    Á sömu ráðstefnu sagði dr. Mahler, einn af aðstoðarframkvæmdastjórum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna: ,,Sjálfbær landbúnaður og dreifbýlisþróun eru forsendur varanlegrar þróunar og umhverfisverndar á jörðunni. Þetta felur í sér breytingar á samskiptum og viðskiptaskilyrðum milli landbúnaðar og náttúrunnar, milli landbúnaðarframleiðenda og neytenda, milli fólks úr dreifbýli og þéttbýli og fyrst og fremst milli landbúnaðar og matvælageirans annars vegar og annarra geira hagkerfisins hins vegar, milli norðurs og suðurs, austurs og vesturs.``
    Stefna ríkisstjórnarinnar að sinna ekki mikilvægum málefnum atvinnuveganna fyrr en í algjörar nauðir er komið hefur leitt til samdráttar í framleiðslu, minnkandi þjóðartekna og aukins atvinnuleysis. Það kemur m.a. fram í minnkandi tekjum ríkissjóðs. Til að mæta þeim samdrætti hefur ríkisstjórnin lagt á nýja skatta sem flestum finnst að leggist í of ríkum mæli á þá sem síst skyldi.
    Þegar þannig er komið högum okkar undir núverandi stjórnarstefnu þá segja þeir sem henni ráða að við höfum eitt gott bjargráð til úrræða, það er samningur um Evrópska efnahagssvæðið sem þetta frv. sem hér er til umræðu fjallar um. Því eigum við alþingismenn að samþykkja þetta frv. orðalaust. Sú spurning hlýtur reyndar að vakna hvort í utanríkismálum sé það leið til farsældar að fylgja í blindni leiðsögn þeirra sem hafa mótað stefnu á innlendum vettvangi með þeim afleiðingum sem ég var að lýsa. En það hefur nú komið fram að samningur um Evrópska efnahagssvæðið, sem þetta frv. fjallar um, mun aldrei verða að raunveruleika eftir að Svisslendingar felldu aðild að því. Því verður enginn samningur fullgiltur á grundvelli þessa frv. þó það verði gert að lögum. Mörgum finnst það því fráleit vinnubrögð að Alþingi sé að samþykkja slík lög. Hæstv. utanrrh. segist hins vegar þurfa að fá þau sem viljayfirlýsingu Alþingis til þess að standa betur í viðræðum um nýjan samning sem fram muni fara á næstunni eftir að Sviss hefur helst úr lestinni.
    Hins vegar eru það nýstárleg vinnubrögð á Alþingi að samþykkja viljayfirlýsingar í formi laga sem aldrei geta komið til framkvæmda. Telji hæstv. utanrrh. að hann þurfi að fá betri bakhjarl en ríkisstjórnarsamþykkt og yfirlýsingar stuðningsflokka hennar þá er leiðin vanalega sú að ríkisstjórnin leggi fram þáltill. á Alþingi sem heimili utanrrh. að ganga til nýrra samninga á grundvelli þeirra hugmynda sem byggt er á í þessum samningi sem hér liggur fyrir. Þannig gæti utanrrh. fengið traust og umboð þeirra þingmanna sem vildu veita honum það. Að vísu er dálítið mótsagnakennt hversu mikið kapp hæstv. utanrrh. leggur á að fá samþykkt frá Alþingi áður en hann gengur til frekari samningaviðræðna miðað við þau ummæli hans sem hann hefur haft að undanförnu um Alþingi og störf þess, en ég mun ekki frekar fjalla um það mál hér enda virðist hæstv. utanrrh. ekki telja ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu.
    En utanrrh. telur sig ekki geta skýrt störf Alþingis á erlendum vettvangi. Því miður er ekki heldur hægt að finna rök í orðum og athöfnum hæstv. utanrrh. síðustu mánuði fyrir því að veita honum sérstakt umboð til þess að ganga til nýrra samninga fyrir íslensku þjóðina og mun ég nefna nokkur dæmi um það gagnstæða síðar í máli mínu.
    Í ræðu framsögumanns meiri hluta utanrmn. kom fram ranghermi sem ég held að hljóti að vera á misskilningi byggt og því tel ég nauðsynlegt að leiðrétta það hér en hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Raunar má einnig láta þess getið að aðeins einn aðili af öllum þeim sem veittu skriflegar umsagnir til nefndarinnar, BHMR, var neikvætt í afstöðu sinni til aðildar Íslands að þessu samstarfi. Hinir vísuðu annaðhvort til hugmynda um þjóðaratkvæði eða einhvers annars en tóku ekki neikvæða afstöðu til málsins.``
    Í bréfi dagsettu 21. júlí sl. sendi Stéttarsamband bænda umsögn til utanrmn. og segir í upphafi þess, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi samningagerð er án efa langstærsti og viðamesti samningur sem Ísland hefur tekið þátt í á

lýðveldistímanum. Hann snertir fjölmarga þætti þjóðlífsins á einhvern hátt. Erfitt er á þessari stundu að fá yfirsýn yfir öll þau atriði sem gætu snert landbúnaðinn á einhvern hátt með tilkomu samningsins, bæði þar sem útfærsla einstakra atriða liggur ekki fyrir og þau frumvörp til lagabreytinga sem leggja á fram í sambandi við gildistöku samningsins hafa fæst verið kynnt enn þá. Því verður einungis stiklað á stóru varðandi afstöðu gagnvart einstökum atriðum samningsins en Stéttarsamband bænda áskilur sér allan rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi einstök atriði á seinni stigum umræðunnar.``
    Síðan eru í þessu bréfi rakin nokkur atriði sem sérstaklega þarf að gjalda varhug við.
    En hinn 9. sept. sendi Stéttarsamband bænda annað bréf í samræmi við niðurlag þess sem ég var að lesa sem að vísu er stílað beint á Björn Bjarnason, formann utanrmn., en það bréf hljóðar svo:
    ,,Reykjavík, 9. september 1992.
    Herra Björn Bjarnason, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Alþingi, Reykjavík.
    Hér með fylgir ályktun um EES-samninginn sem samþykkt var á aðalfundi Stéttarsambands bænda sem haldinn var á Laugum í Reykjadal dagana 27.--29. ágúst sl.
    Virðingarfyllst, fyrir hönd Stéttarsambands bænda, Gunnlaugur Júlíusson.
    Samrit sent til þingflokksformanna á Alþingi og herra utanríkisráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar.``
    Vegna þess sem ég hef rakið tel ég nauðsynlegt að lesa ályktunina sem fylgir bréfinu til þess að það rétta komi þar fram, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1992 ályktar:
    Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1992 hefur fjallað um landbúnaðarhluta samnings um Evrópskt efnahagssvæði sem nú er fullfrágenginn og liggur fyrir Alþingi Íslendinga. Hér er á ferðinni viðamesti og afdrifaríkasti samningur sem Ísland hefur átt aðild að allt frá stofnun lýðveldisins. Almennt mun hann hafa víðtæk áhrif á íslenskt þjóðlíf, bæði beint og óbeint, og ætla má að honum fylgi valdaafsal og veruleg frelsisskerðing. Fundurinn telur að íslenskt atvinnulíf sé á margan hátt vanbúið til að takast á við þær breyttu aðstæður sem samningurinn felur í sér og er ávinningur fyrir landbúnaðinn afar óljós. Því telur fundurinn að hafna beri samningi um Evrópskt efnahagssvæði og krefst þess að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hann áður en Alþingi tekur hann til endanlegrar afgreiðslu.``
    Ályktuninni fylgir eftirfarandi greinargerð:
    ,,Í upphafi EES-viðræðnanna var því lýst yfir að málefni landbúnaðarins stæðu þar utan við. Vegna afstöðu utanrrh. sátu Íslendingar ekki í þeim umræðuhópi sem fjölluðu um málefni landbúnaðarins þegar mest á reyndi. Því hafa ýmis atriði ekki skýrst fyrr en eftir að samningurinn hefur verið lagður fram fullfrágenginn.
    1. Í samningnum er ákvæði um að endurskoða eigi viðskiptareglur með búvörur á tveggja ára fresti og stefna að auknu frjálsræði í þeim. Skal fyrstu endurskoðun vera lokið fyrir árslok 1993. Ekki liggur fyrir hver afstaða íslenskra stjórnvalda eða markmið er í þessu efni og er gerð um það ákveðin krafa að það liggi fyrir hið fyrsta.
    2. Í samningnum er opnað fyrir innflutning sýrðra mjólkurafurða til landsins. Í honum eru mjög loðin og óskýr ákvæði um hvort leggja megi breytileg jöfnunargjöld á þær búvörur, mjólkurafurðir, sem innflutningur verður heimilaður á. Líkur benda til þess að vísa þurfi ágreiningi þess efnis til sameiginlegu EES-nefndarinnar og eru því framleiðendur í óvissu um framgang þessa efnis enda þótt stjórnvöld hafi sent frá sér ákveðna viljayfirlýsingu í þessu efni.
    3. Með frjálsum fjármagnsflutningum opnast fyrir möguleika erlendra aðila að kaupa jarðir, jarðahluta og hlunnindi. Fyrirvari gagnvart þessu atriði var eitt af því sem sett var fram í upphafi sem skilyrði af Íslands hálfu. Því hefur verið haldið fram af hálfu utanrrh. að auðvelt væri að reisa alls kyns girðingar eftir undirskrift samningsins til að tryggja íslensk yfirráð yfir landi og hlunnindum. Með nýlegu lögfræðiáliti um þetta efni eru settir fram miklir fyrirvarar um að þetta sé mögulegt vegna þess að mismunun sé bönnuð innan EES. Sveitarstjórnir eru vanmegnar til að nýta sér forkaupsrétt sinn. Niðurstaðan virðist því vera á þann veg að mikill vafi ríkir um hvort hægt sé að stemma stigu við eignarhaldi útlendinga yfir landi hérlendis að því marki sem talið er nauðsynlegt.
    4. Staða garðyrkjunnar og þá sérstaklega blómaræktarinnar er talin verða mjög erfið vegna óhefts innflutnings á ákveðnum tegundum blóma. Einnig mun frjáls og tollalaus innflutningur hafa veruleg áhrif á verðlag á öðrum árstímum og jafnvel draga úr getu bænda til framþróunar.
    Að svo viðamikinn og afdrifaríkan samning sem þennan eigi að afgreiða með einfaldri atkvæðagreiðslu á Alþingi er óásættanlegt í huga mikils hluta landsmanna. Ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hann, þá ynnist tvennt: Í fyrsta lagi gæti þjóðin sagt skoðun sína á samningnum sem slíkum og í öðru lagi yrði efnt til upplýsandi umræðu um kosti og galla hans sem skýra mundi út mörg atriði fyrir almenningi sem nú eru óljós.``
    Í ræðu frsm. meiri hluta utanrmn. kom fram að landbn. Alþingis hefur fjallað um nokkur atriði frv. og vænti ég þess að formaður hennar, hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson, geri nánari grein fyrir þeim í þessari umræðu og mun því ekki ræða þau frekar að sinni. Ég vil hins vegar geta þess að allshn. tók þetta frv. einnig til meðferðar á þann hátt að óska umsagnar Byggðastofnunar um áhrif samningsins á byggðaþróun. Í framhaldi af því kom forstjóri Byggðastofnunar, Guðmundur Malmquist, á fund nefndarinnar. Hann

skýrði þar frá því að stofnunin hefði ekki gert nýja úttekt á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið síðan í desember 1990 eftir að þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, óskaði eftir því. Við þá úttekt var það lagt til grundvallar að samningurinn snerti landbúnaðinn ekkert en á því hefur þegar orðið gerbreyting eins og fram hefur komið í því sem ég hef lesið á undan. Í úttekt Byggðastofnunar var því eingöngu fjallað um sjávarútveg og fiskiðnað. Ég mun ekki lengja umræðuna með lestri úr greinargerð Byggðastofnunar og láta nægja að lesa aðeins eina setningu sem talar skýru máli, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Líklegasta framvindan er sú að stöðugt aukinn hluti hráefnis á Íslandsmiðum verði fluttur óunninn úr landi til frekari vinnslu innan Evrópubandalagsins.``
    Þegar forstjóri Byggðastofnunar var spurður að því á nefndarfundinum hvort horfurnar hefðu breyst um þetta atriði síðan í desember 1990 taldi hann að fremur mundi hafa sigið á ógæfuhliðina hvað varðaði samkeppnisaðstöðu íslensks fiskiðnaðar vegna þess að styrkir Evrópubandalagsins til sinna fyrirtækja færu sívaxandi. En athyglisverðast finnst mér þó að núv. hæstv. forsrh. skuli enga ástæðu hafa séð til að óska eftir því að Byggðastofnun héldi áfram að fylgjast með þessu mikilvæga máli og gera grein fyrir því með nýrri úttekt eftir að forsendur hafa breyst og nú síðast með sjávarútvegssamningnum.
    Hæstv. utanrrh. hefur haldið því mjög á lofti hversu hagstæður sjávarútvegssamningurinn væri okkur Íslendingum vegna þess að þar fengjum við miklu meira í okkar hlut en við létum af hendi. Öllum sem til þekkja er þó ljóst, eins og sýnt hefur verið fram á, bæði utan Alþingis og innan að jafnvel þó við næðum ýtrasta ávinningi yrði hlutur okkar alltaf lakari og miðað við reynslu síðustu ára yrði ávinningur okkar oft enginn. Þarna hefur því verið lagt rangt mat á staðreyndir. Það er augljóst að þegar svo rangt mat er lagt á hagsmuni okkar, þá er þess ekki að vænta að árangur af samningaviðræðum við harða viðsemjendur verði góður.
    Fyrirvörunum sem Íslendingar settu fram þegar gengið var til viðræðna um Evrópska efnahagssvæðið hefur líka lítt verið haldið til skila. Skýrasta dæmið um það er forræði Íslendinga á eignarhaldi á landi. Í frv. til laga um breytingu á jarðalögum kemur fram að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar telur einu leiðina til að koma í veg fyrir kaup útlendinga á landi að setja bændum svo ströng skilyrði við sölu á jörðum sínum að jarðasölur munu verða mjög erfiðar víðast hvar, verð lágt og sums staðar jafnvel jarðir óseljanlegar.
    Viðhorfið til landbúnaðarins kemur reyndar fram á fleiri sviðum við þessa samningsgerð. Áður hefur verið rætt á Alþingi um ákvæði í viðbæti I við bókun 3 sem bætt var inn í að kröfu Evrópubandalagsins eftir að frá samningnum var gengið. Það ákvæði takmarkar rétt okkar til að leggja á jöfnunargjöld, eins og fram kom í ályktun Stéttarsambands bænda.
    Viðræður halda áfram um fjölmörg önnur atriði sem snerta viðskipti með landbúnaðarvörur og eiga að vera í viðbótum II--VII við bókun 3. Í þeim viðræðum hefur Evrópubandalagið krafist þess að ákvæðin þar verði í samræmi við reglur Evrópubandalagsins, enda verði EFTA-löndin orðin aðilar að Evrópubandalaginu innan skamms. Svisslendingar og Norðmenn reyna hins vegar að berjast á móti þeim og hugsa um hagsmuni sinna landa. Hagsmunir Norðmanna og Íslendinga fara saman í ýmsum greinum og eru Norðmenn mjög undrandi á því að þeir skuli ekki fá eindreginn stuðning íslensku samninganefndarinnar við sínar kröfur. Stefnan sem íslensku sendinefndinni er hins vegar ætlað að fylgja kemur fram í bókun frá einum þessum viðræðufundi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En Ísland taldi erfitt að samþykkja stuðul í kjöti nema upp að 1,3% og 1% de minimis í kjöti, þó með þeim fyrirvara að Ísland mundi sýna sveigjanleika í málinu þannig að ná mætti málamiðlun og lausn.``
    Þó að niðurstaðan yrði Íslandi erfið er með öðrum orðum aðalatriði að ná samkomulagi. Samningurinn er aðalatriðið en ekki hvað í honum stendur að því er varðaði hagsmuni Íslands í landbúnaðarmálum. Þetta er reyndar í samræmi við yfirlýsingu utanrrh. í útvarpsviðtali nýlega þar sem hann sagðist oftar en einu sinni vænta þess að ná fram stefnu sinni í landbúnaðarmálum sem honum hefur ekki tekist á innlendum vettvangi og á Alþingi með erlendri samningagerð. Sérstaklega með GATT-samningnum þar sem eru enn þá meiri möguleikar en jafnvel í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þó þar eigi að vera áfram opnir möguleikar til samninga og frekari eftirgjafar.
    Í greinargerð garðyrkjubænda um áhrif samninganna um Evrópska efnahagssvæðið segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjárfestingar í garðyrkju er ekki unnt að nýta til annars. Aukinn innflutningur getur því ef til skamms tíma er litið sett skuldugustu stöðvarnar á hausinn og ef til langs tíma er litið gert eldri garðyrkjustöðvar og stöðvar af jaðarsvæðum verðlausar. Árið 1990 var framleiðsluverðmæti grænmetis og blóma tæpur 1 milljarður kr. Heilsársstörf voru um 350 auk 200 sumarstarfsmanna. Ætla má að hverju starfi í framleiðslu tengist tvö ársstörf í þjónustu eða um 700 störf. Blómaframleiðendur eru sammála um að áhrifin geti orðið veruleg.``
    Það liggur fyrir að víðar munu störf glatast og framleiðsla leggjast niður. Hæstv. landbrh. hefur sagt að samningur um Evrópskt efnahagssvæði muni hafa í för með sér að Áburðarverksmiðju ríkisins verði lokað innan tveggja ára. Þar starfa nú á annað hundrað manns og 800 millj. kr. verðmætamyndun er hjá verksmiðjunni sem kemur þjóðarbúinu til góða þó að heildarframleiðslukostnaður áburðar sé nú eitthvað hærri en verð á innfluttum áburði, sérstaklega eftir það mikla umrót sem orðið hefur á markaði með tilbúinn áburð eins og fleiru í Evrópu eftir að viðskipti jukust við Austur-Evrópu. Talið er að stóraukinn innflutningur áburðar þaðan hafi valdið a.m.k. 20% verðlækkun á áburði í Vestur-Evrópu þannig að verksmiðjur þar eru nú reknar með stórkostlegum halla. En að sjálfsögðu er ekki að vita hversu lengi það stendur og til lengdar verða auðvitað engar verksmiðjur reknar með miklum halla, hvorki í Austur-Evrópu né annars staðar. Í ofangreindri 800 millj. kr. verðmætamyndun er m.a. sá hluti sem ríkið gerir kröfu til að fá sem arð af eigin fjármagni í verskmiðjunni, sem er um 32 millj. kr. á ári, og einnig landsútsvar sem ekki fékkst niðurfellt eins og aðstöðugjaldið. Það er 1,3%. Þessir liðir munu að sjálfsögðu falla niður þegar verksmiðjan lokar og ríkissjóður mun einnig þurfa að greiða þeim atvinnuleysisbætur sem missa vinnuna fyrir utan það að ríkissjóður fær að sjálfsögðu ekki tekjur af launum þeirra sem þar hafa unnið. Verður þá úrræðið til þess að mæta þessari niðurfellingu á framleiðslu áburðar og bæta ríkissjóði þann halla að hækka skatta láglaunafólksins eins og grípa varð til hjá ríkisstjórninni fyrir síðustu áramót? Spurningin er þó kannski fyrst og fremst sú hvaða áætlanir ríkisstjórnin hefur gert um að bregðast við slíkum samdrætti í þjóðarframleiðslu og auknu atvinnuleysi eins og óhjákvæmilega verður afleiðingin af þeim atriðum sem ég hef nefnt.
    Þannig væri hægt að halda áfram að benda á fjölmörg atriði sem gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur ef þessi samningur kemur einhvern tíma komið til framkvæmda. En ég skal ekki tefja tímann með því að ræða það lengur að sinni. Til þess munu gefast tækifæri síðar ef nýr samningur verður gerður og hann lagður fram til meðferðar og afgreiðslu á Alþingi.
    Hins vegar er nú orðið ljóst að einungis yrði tjaldað til einnar nætur og varla það með nýjum samningi þar sem samningaviðræður Evrópubandalagsins við hin EFTA-ríkin um inngöngu eru nú að hefjast af fullum þunga. Því er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að spyrja hvað slík samningagerð þýðir. --- Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. eru einhvers staðar nærstaddir og mundu vilja svara örfáum atriðum sem mig langar að bera fram í lokin. ( Forseti: Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. eru báðir í þinghúsinu. Forseti mun því gera ráðstafanir til þess að þeir komi í þingsalinn. Óskir ekki hv. þm. eftir að þeir komi báðir?) Jú, það væri æskilegt.
    Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir að koma hingað. Mig langaði í lok máls míns að spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða framtíðarsýn þeir hafa um framgang þessa máls ef það tekst að gera nýjan samning á grundvelli þess sem hér er til umræðu milli EFTA-ríkjanna sem það vilja og Evrópubandalagsins.
    Það liggur fyrir að önnur EFTA-ríki ætla sér að ganga í Evrópubandalagið eins fljótt og þau geta. Hvernig fer þá fyrir okkur? Eigum við þá að standa undir þeim stofnunum sem gert er ráð fyrir að koma á fót á grundvelli þessa samnings? Er líklegt að þessum stofnunum verði nokkurn tíma komið á fót þegar hin EFTA-ríkin eru kannski langt komin með samninga við Evrópubandalagið um inngöngu áður en frá þessum samningi verður endanlega gengið og hann fullgiltur? Er líklegt að EFTA-ríkin vilji leggja í kostnað við að byggja upp það stofnanakerfi og er líklegt að Evrópubandalagið vilji gera það? Hver er þá ávinningurinn af þessum samningi fyrir önnur EFTA-ríki en þau sem telja að hann sé áfangi til inngöngu? Hver yrði ávinningur okkar af slíkum samningi ef hann kæmist aldrei til raunverulegra framkvæmda vegna þess að ekki yrði lagt í að gera þetta stofnanakerfi?
    Þetta finnst mér brýnna en nokkru sinni fyrr að fá einhverjar ábendingar um. Hæstv. ráðherrar hafa nýlega báðir verið á fundum erlendis þar sem þessi atriði hljóta að hafa borið á góma. Ég vænti þess því að þeir geti gefið einhverjar upplýsingar um það.
    Ég ætla svo að láta máli mínu senn lokið. Ég hef minnst hér á nokkur atriði sem valda því að ég mun greiða atkvæði gegn frv. en þau væri að sjálfsögðu hægt að tíunda fleiri þó að vissulega sé líka hægt að benda á atriði sem jákvæð eru en hin vega þyngra í mínum huga. Það er óháð atriðinu um stjórnarskrárbrot sem mér sýnast mjög þung rök benda til að leitt hefði af fullgildingu þessa samnings. Þar sem að á grundvelli þessa frv. verður aldrei fullgiltur samningur má kannski segja í sjálfu sér að það að samþykkja það sé ekki brot á stjórnarskránni heldur viljayfirlýsing um að ganga þannig til verks.
    Fyrir þá sem voru andvígir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og þá sérstaklega þingmenn og formann Alþfl., þá tel ég athyglisverð ummæli fyrrv. þm. Alþfl. og síðar forseta Íslands, Ásgeirs Ásgeirssonar, sem birtust í nýútkominni ævisögu hans. Þau eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En trúin á þjóðina, traustið á almenningi er grundvöllur stjórnskipulags vors. Trú og traust á fólkið sem áður safnaðist í Almannagjá en nú í kosningum um land allt að undangengnum frjálsum umræðum. Þetta er eina stjórnskipulagið sem leysir þjóðirnar undan oki ofbeldisins. Kosningar eru aldrei hættulegar í lýðfrjálsu landi. Það væri áfellisdómur um lýðræðið sjálft.``