Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:13:19 (4283)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir það að hæstv. utanrrh. skyldi koma hér upp og fara með þessar dagsetningar. Það ber að þakka það sem hægt er að þakka. Það er þá mikilvægt að það er komið alveg skýrt fram að hæstv. utanrrh. getur ekki flutt þjóðþinginu neina frásögn af því hvenær þessi ríkjaráðstefna er fyrirhuguð. Það eina sem hefur verið ákveðið eru venjubundnir fundir embættismanna, annars vegar EFTA og hins vegar EB og svo hins vegar fundur fulltrúa formennskulandsins með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar. En eins og hæstv. utanrrh. veit manna best hafa slíkir fundir verið fjölmargir og tíðir, m.a. þegar hann gegndi formennsku hjá EFTA. En hin formlega ríkjaráðstefna samkvæmt ákvæðum EES-samningsins, sem á að fjalla um hvað gerist ef eitthvert samningslandið hverfur frá eins og gerðist við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, hefur ekki verið ákveðin og það veit enginn hvenær hún verður haldin.
    Ég ætla hins vegar ekki að ergja hæstv. utanrrh. með því að fara með fyrir hann hve oft og hve mörgum sinnum hann hefur sagt það beinum orðum eða gefið í skyn að forsenda þess að Íslendingar geti tekið þátt í þessari ríkjaráðstefnu sé afgreiðsla EES-samningins hér á Alþingi og slík ríkjaráðstefna verði í janúarmánuði. Það nægir að minna á viðtalið við utanrrh. kvöldið sem úrslitin í Sviss voru kunn, þegar hann hóf þann boðskap að nú yrði Alþingi að afgreiða EES-samninginn hið snarasta, þá sagði hann nú fyrir jól, vegna þess að ella fengi Ísland ekki aðgang að ríkjaráðstefnunni sem yrði í janúar.
    Það eru auðvitað fjölmörg slík tilvik af yfirlýsingum ráðherrans sem hægt er að rekja, enda er það í fersku minni manna hér fyrir jólin þegar mikið gekk á í þingstörfum, þá var utanrrh. að segja að það yrði fundur 9. og 10. janúar sem hann yrði að mæta á með fullu umboði og Alþingi yrði þá að vera búið að samþykkja EES-samninginn. Hann nefndi engan slíkan fund nú en við þekkjum auðvitað öll sem vorum í þinginu síðustu dagana fyrir jól hve títt hann nefndi dagsetninguna 9. og 10. janúar.
    Kjarni málsins er sá, eins og ráðherrann staðfesti hér, að hvorki Evrópubandalagið né EFTA hafa fyrir sitt leyti ákveðið, hvað þá heldur komið sér saman um það hvenær þessi ríkjaráðstefna verður haldin. Hún verður alla vega ekki í janúar, það er alveg ljóst.
    Utanrrh. fann einhvern fund 14. jan., einhvern embættismannafund sem nauðsynlegt væri að taka mið af við afgreiðsluna hér. Það er auðvitað hreinn tilbúningur vegna þess að þetta mál hefur allt snúist um þau formlegu ákvæði EES-samningsins að vera búinn að ganga frá málum þegar hin formlega ríkjaráðstefna yrði haldin. En það hefur komið hér fram að utanrrh. Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur ekki hugmynd um það hvenær ríkjaráðstefnan verður haldin.