Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 14:11:08 (4290)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það beri að sýna því samúð að hæstv. utanrrh. þorir ekki upp í þingsalinn eftir þetta hlé. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sýnt fram á það mjög rækilega að yfirlýsingar ráðherrans hér áðan um eigin orð ráðherrans sjálfs voru rangar. Hæstv. utanrrh. fullyrti það í framhaldi af ræðu minni að hann hefði aldrei sagt að það yrði að afgreiða þetta mál fyrir ríkjaráðstefnu í janúarmánuði. Nú hefur Hjörleifur Guttormsson, sem enn þá hefur aðdáunarvert úthald til að lesa ræður ráðherrans, líklegast eini þingmaðurinn hér í salnum sem nennir því og ber að þakka það í sjálfu sér, nefnt eitt dæmi af mörgum um það að hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hefur sagt það hvað eftir annað hér í ræðustólnum að þessi ríkjaráðstefna yrði í janúar, meira að segja fyrri partinn í janúar, og þess vegna yrði þjóðþingið að afgreiða það frv. sem hér er til umræðu.
    En ég vil, virðulegi forseti, láta það koma fram til viðbótar að ég óskaði eftir því fyrir áramót við nefndadeild Alþingis, starfsmenn forseta þingsins, að þeir öfluðu upplýsinga um það frá spænska þjóðþinginu hvernig hefði verið farið með staðfestingarfrv. á EES-samningnum í spænska þjóðþinginu. Og á fundi utanrmn. í gærmorgun var lagt fram svar frá spænska þjóðþinginu, virðulegi forseti, sem barst starfsmönnum Alþingis Íslendinga nú eftir áramótin. Og ég vil nú beina því til virðulegs forseta að hann kynni sér það svar sem borist hefur til Alþingis Íslendinga frá spænska þjóðþinginu vegna þess að í því svari kemur fram að spænska ríkisstjórnin ákvað eftir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss að draga staðfestingarfrv. um EES-samninginn til baka frá þjóðþingi Spánar. Málið var þannig statt á Spáni að fulltrúadeildin hafði fjallað um samninginn, öldungadeildin var með staðfestingarfrv. um EES-samninginn til meðferðar og spænska ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að draga það frv. til baka þannig að það hefur gerst í a.m.k. þessu aðildarríki Evrópubandalagsins að staðfestingarfrv. á Spáni um EES-samninginn liggur ekki lengur fyrir þjóðþingi Spánar, það hefur verið dregið til baka. Og svo kemur utanrrh. hér áðan og segir: Fulltrúar ríkjanna fá ekki aðgang að einhverjum fundi 14. jan. ef öll ríkin hafa ekki staðfest EES. Á þá Spánn ekki að fá aðgang að þessum fundi 14. jan. vegna þess að þar liggur ekkert frv. einu sinni lengur fyrir þinginu af því að ríkisstjórnin þar tók það burtu?
    Það er aðvitað alveg fullkomlega fáránlegt að standa í því, virðulegi forseti, að ræða þetta mál á grundvelli yfirlýsinga utanrrh. sem standast ekki dag frá degi, heldur ekki frá klukkutíma til klukkutíma. Og ég vil nú beina því til forsetans að hann kynni sér það erindi sem borist hefur hingað frá þjóðþingi Spánar um að staðfestingarfrv. um EES-samninginn hefur nú verið dregið til baka í spænska þjóðþinginu og nýtt frv. verður ekki lagt fyrir það fyrr en einhvern tíma með vorinu.