Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:06:16 (4329)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við hv. síðasti ræðumaður getum verið sammála um það sé afskaplega mikilvægt fyrir Íslendinga að gera góða viðskiptasamninga. Ein ástæða þess að ég er andvíg EES er einmitt sú að ég tel að þar séum við að leggja okkar sjálfstæði, þar á meðal efnahagslegt sjálfstæði okkar, í hættu. Í fyrsta lagi vegna þess að við erum að veita aðgang að fiskveiðilögsögu okkar með ónothæfum fiskveiðisamningi, leggja orkufyrirtæki í hættu ef þau verða einkavædd, og enn fremur er ákvæði um landakaup torskilið og hugsanlega enn óleyst mál. Í öðru lagi vegna þess að við erum að opna fyrir mikil ítök erlendra stórfyrirtækja hér vegna þeirrar samkeppnisstöðu sem við sköpum þeim. Og í þriðja lagi vegna þess að við erum að framselja ákveðið fullveldi. Um það er ekki ágreiningur.