Samningar við EB um fiskveiðimál

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 14:24:20 (4367)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kann því afskaplega illa þegar hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þar á meðal sá þingmaður sem hér talaði áðan, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, halda

því fram að með þessum tvíhliða samningi sé verið að hleypa á ný togurum Evrópubandalagsins inn í íslenska fiskveiðilögsögu. ( Gripið fram í: Er það ekki rétt?) Getur það verið að menn séu búnir að gleyma því að frá 1975 er í gildi samningur við tiltekna þjóð Evrópubandalagsins, þ.e. Belgíu, sem hefur veitt tólf togurum Belga og þar með tólf togurum úr flota Evrópubandalagsins tækifæri til að koma hingað og veiða til að nýta einhliða veiðiheimildir? Þetta er samningur sem hefur verið í gildi frá 28. nóv. 1975. Hann er enn í gildi. Tólf nafngreindum belgískum togurum voru veittar þessar heimildir. Enn eru þrír þeirra við lýði og stunda þessar veiðar. Hvað erum við að tala um með þessum samningi sem við erum að ræða hér? Við erum að ræða um leyfi að vísu ekki til tólf heldur til átján skipa, þar af einungis fimm sem mega veiða í einu. Þannig að þarna er alveg ljóst að það er ekki hægt að segja að þessi samningur sé að hleypa á ný togurum Evrópubandalagsins hingað. Þeir eru hér þegar.
    Jafnframt vil ég gera ákveðnar athugasemdir við vissa ónákvæmni í málflutningi hv. þm. Steingríms Hermannssonar þegar hann talar um kolmunna og hafréttarsáttmálann. Hann segir að vegna þess að hafréttarsáttmálinn geri ráð fyrir því að aðrar þjóðir geti í nafni mannkyns átt rétt á því að nýta ónýtta stofna eins og kolmunna þá hafi ríkisstjórn Íslands á sínum tíma ekki talið sér stætt á því að standa gegn slíkum kröfum. Þetta er afskaplega hættulegur málflutningur. Hvaða fisk erum við að tala um að láta Evrópubandalagið fá í skiptum fyrir loðnu? Það er karfi sem segir í samningnum að sé ,,redfish``. Hvaða karfi er það? Það eru tvær karfategundir. Það er annars vegar gullkarfi, sebastes marinus, og hins vegar djúpkarfi, sebastes mentella. Það vill svo til að mentella er vannýttur stofn. Það er alveg ljóst miðað við nýjustu upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun þá er þar um að ræða vannýttan stofn. Það er alveg ljóst miðað við nýjustu upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun þá er þar um að ræða vannýttan stofn. Og ég tel þess vegna að það sé afskaplega óvarlegt og íslenskir stjórnmálamenn eigi ekki að nota röksemdir sem þessar vegna þess að þær veita Evrópubandalaginu færi á því að krefjast aukinna veiðiheimilda m.a. í þeim tveimur karfastofnum sem er að finna innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, þ.e. mentella og síðan mentella oceanic sem er úthafskarfi. Ég vil nú biðja menn um að athuga hvað þeir segja.