Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:37:54 (4407)


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa yfir stuðningi mínum við frv. til laga um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég tel að samningurinn verði íslenskri þjóð til farsældar og það sé enn fremur pólitísk nauðsyn að Íslendingar einangrist ekki á alþjóðavettvangi en leggi áherslu á aukið samstarf Evrópuríkja.
    Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri til þess að minna á það að hið háa Alþingi hefur þegar afgreitt tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu og hafnað henni þar sem íslensk stjórnskipun gerir ráð fyrir fulltrúalýðræði þannig að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, verða að axla ábyrgð í þessu mikilvæga máli. Undan þeirri pólitísku ábyrgð verður ekki vikist.
    Þá hefur verið rætt um stjórnarskrána í þessu sambandi en tveimur frv. frá stjórnarandstöðunni sem fram komu í vetur var vísað til ríkisstjórnarinnar og verða væntanlega athuguð í sérstakri stjórnarskrárnefnd. Ég tel að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið feli ekki í sér brot á hinni íslensku stjórnarskrá, enda hefur sú hlið málsins verið vandlega athuguð og rædd hér á hinu háa Alþingi og fjöldi sérfræðinga sem staðfestir það álit.
    Hæstv. forseti. Við sjálfstæðismenn viljum líta til framtíðar. Ég ítreka stuðning minn og segi já.