Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:08:08 (4447)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Góðir áheyrendur. Þegar ég lít til baka til upphafs þessa kjörtímabils finnst mér alveg ótrúlegt hve mikil neikvæðni hefur einkennt umfjöllunina um þetta mikilvæga hagsmunamál af hálfu þeirra er þá tóku ákvörðun um að leggjast gegn samningnum. Því má nefnilega ekki gleyma að við hófum undirbúningsstarfið með dyggum stuðningi Alþb. og Framsfl. og það er sorglegt að þetta mál hafi orðið að pólitískum leiksoppi.
    Það er ljóst að hafi sá möguleiki verið fyrir hendi í upphafi að Ísland gerði sjálfstæðan samning við Evrópubandalagið er sá möguleiki vart lengur fyrir hendi. Það er hins vegar jafnljóst að ef önnur EFTA-ríki, sem gerst hafa aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, ganga síðar í Evrópubandalagið, sem Ísland hyggst ekki gera, þá stöndum við einmitt uppi með slíkan beinan samning með þeim réttindum og skyldum sem samið er um nú.
    Hvað er svo Evrópska efnahagssvæðið?
    Enn þykir mörgum erfitt að átta sig á muninum á Evrópubandalaginu annars vegar og fyrirhuguðu Evrópsku efnhagssvæði hins vegar.
    Ríkin tólf sem mynda Evrópubandalagið komu sínum sameiginlega innri markaði á þann 1. jan. sl. Ísland ásamt Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki og Liechtenstein eru EFTA-ríkin sem ætla að gera samning um aðgang að þessum markaði og mynda þar með Evrópskt efnahagssvæði sem nær til 380 millj. íbúa. Það er skoðun allra þeirra sem styðja þennan samning, þar á meðal forustumanna atvinnulífsins, að hann sé mjög mikilvægur fyrir okkar atvinnu- og efnahagslíf því nú eftir fimm ára samdrátt þörfnumst við þess meira en nokkru sinni að auka fjölbreytni í okkar atvinnulífi og nýta svo sem kostur er þá möguleika sem í samningnum felast.
    Erlendir hagfræðingar telja að þjóðartekjur EFTA-ríkjanna, sem við erum hluti af, aukist um allt að 5% án þess að til komi þær fjárhagslegu skuldbindingar sem felast í aðild að Evrópubandalaginu sjálfu.
    En hvað er þá Evrópska efnahagssvæði ekki? Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur til dæmis ekki í för með sér sameiginlega landbúnaðarstefnu, ekki sameiginlega sjávarútvegsstefnu, ekki sameiginlega utanríkisstefnu. Hann felur ekki í sér samræmda skattastefnu eða gjaldmiðla og hann er ekki tollabandalag gagnvart öðrum ríkjum. Því höfum við fullt svigrúm til að gera viðskiptasamninga við öll þau lönd er við kjósum í vestri og austri.
    Það eru margir sem óttast að hingað flykkist fólk í atvinnuleit og taki atvinnu frá Íslendingum á erfiðum tímum. Það öryggisákvæði, sem Ísland fékk sett í samninginn og beita má ef vinnumarkaður hér raskast, skiptir því miklu máli og hlýtur að slá á þann ótta. Það er nefnilega okkar að skilgreina hvað er

þjóðfélagsleg röskun og það þarf ekki að fara saman við efnahagslega röskun en getur allt eins byggst á pólitísku mati á því hvað þjóðfélagið geti borið.
    Útlendingur getur komið hingað til lands og dvalið í allt að þrjá mánuði til að leita sér að vinnu. Fái hann starf á hann rétt á dvalarleyfi. Ef hann fær ekki starf verður hann að fara úr landi. Á þessu tímabili á hann aðeins rétt á aðstoð vinnumiðlunar en t.d. ekki félagslegri aðstoð.
    Þessi réttindi eru að sjálfsögðu gagnkvæm og margir meta mikils þau réttindi sem Íslendingar munu öðlast á erlendri grund, og ekki síður gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina.
    Þar sem mál stéttarfélaga hefur nokkuð borið á góma hér á Alþingi er rétt að það komi fram að forgangsréttarákvæði meðlima í stéttarfélögum varðandi vinnu á félagssvæðinu eru innanlandsmál og er samningamál aðila vinnumarkaðarins. Sömuleiðis hefur komið fram að svokölluð skylduaðild að stéttarfélögum brýtur ekki í bága við EES-samninginn og bæði þessi mál voru áréttuð í viðræðunum.
    Það eru þrefalt fleiri Íslendingar við nám eða störf erlendis en útlendingar búsettir hér. Í áratug höfum við verið aðilar að sameiginlegum norrænum vinnumarkaði sem telur 23 millj. manna, en samt ekki verið ásókn í vinnu hér. Það getur enginn sagt það fyrir hvort þessi samningur veldur ásókn hingað. En því má ekki gleyma að auk þess sem ég hef þegar getið er atvinnurekanda heimilt að gera kröfu um íslenskukunnáttu vegna starfs. Eftir 20 ára aðild að Evrópubandalaginu er aðeins 0,5% íbúa Danmerkur ríkisborgarar annarra EB-ríkja.
    Ég hafna því sjónarmiði Kvennalistans að þessi samningur sé fjandsamlegur konum. Reglur Evrópubandalagsins um jafnréttismál eru um margt afdráttarlausari en okkar jafnréttislög. Ég nefni ákvæði um að hægt sé að lýsa dauð og ómerk ákvæði í kjarasamningum sem brjóta í bága við grundvallarregluna um jöfn laun. Og ég nefni ákvæði um vernd gegn því að vera sagt upp starfi fyrir þann sem höfðar mál á sama grundvelli.
    Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Sviss hefur verið dregin fram sem áhrifavaldur á stöðu EES-samningsins. Reyndar er það þekkt að svissneskir kjósendur hafa löngum sýnt mikla íhaldssemi í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þannig tók það margra áratuga baráttu og margar kosningar að fá samþykktan kosningarrétt kvenna í Sviss. Kantónurnar, sem nú felldu þennan samning, voru alla tíð á móti því að konur fengju kosningarrétt.
    Góðir áheyrendur. Við erum hér að ákveða okkar aðild. Ef við höfnum þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu nú fáum við varla sjálfstæðan samning við Evrópubandalagið, hvað þá inngöngu á okkar forsendum.
    Það er því ekki að undra að stjórnamálaflokkarnir riðlist í neikvæðri afstöðu sinni til samningsins eins og gerðist í atkvæðagreiðslunni í gær. Þingmenn vita líka að ef verstu hrakspár ganga eftir erum við með samning sem segja má upp hvenær sem er með eins árs fyrirvara.
    Margt fólk sem fylgst hefur með umræðunni hér á Alþingi úr fjarlægð heldur að ef við höfnum þessum samningi verði hér bara óbreytt staða. Svo er ekki. Staða okkar verður gjörbreytt. Samkeppnisstaða okkar versnar þar sem fiskafurðir okkar bera tolla á okkar stærsta útflutningsmarkaði meðan keppinautar okkar, t.d. Norðmenn, njóta þar tollfríðinda með sinn fisk.     Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er mikilvægur fyrir okkur og hann er góður kostur fyrir Ísland. Fyrir mig er hann það ákjósanlega samstarf við Evrópuþjóðir sem aðild að Evrópubandalaginu er ekki. Þess vegna hef ég unnið að framgangi hans og þess vegna styð ég hann. Ég trúi að ákvörðun um aðild okkar að þessum samningi verði enn eitt gæfuspor í samvinnu okkar við aðrar þjóðir.