Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:03:40 (4511)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg rétt að hv. þm. skuldar ríkisstjórninni ekki neitt og fyrrv. ríkisstjórn heldur ekki og Alþb. ekki neitt og mér ekki neitt. Við skuldum yfirleitt engum neitt nema okkar kjósendum í þessu máli eins og öðrum. Að öðru leyti vil ég segja í sambandi við það sem hv. þm. sagði áðan að grundvallaratriðið í mínum huga er að ég taldi eðlilegt og sjálfsagt og ég tel að það hafi verið rétt að kanna rækilega í viðræðum hið Evrópska efnahagssvæði. Og jafnvel þó að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu núna að þarna séu tröll er ekki þar með sagt að menn hafi vitað það áður en lagt var af stað. Það liggur einu sinni í stjórnmálaverkum yfirleitt og eðli stjórnmála að menn verða iðulega að leggja upp í ferðir sem eru kannski ekki endilega 100% ljósar þegar lagt er af stað. Það þekkja flestir flokkar á Alþingi Íslendinga.