Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:03:32 (4564)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ótrúlegar eru þær flenniræður sem tiltölulega fámennur hópur stjórnarandstæðinga hefur flutt hér um langa hríð og virðist hafa það eitt sér til fulltingis að vera algleiðir til munnsins. Endalaust, án þess að láta mikið rakna í máli sínu fram með rökum og öðru sem ástæða er til að fjalla um.
    Og hv. þm. Steingrímur Sigfússon fjallaði nokkuð um viðhorf sjómanna og aðila í sjávarútvegi til hins evrópska efnahagssamnings og fylgiþátta og hélt því fram að þar væri sterk andstaða. Sá þingmaður sem heldur slíku fram er fjarri öllu nokkru eðlilegu sambandi við þá aðila sem hann vitnar til. Hann er hátt á heiðum uppi, vegna þess að þorri sjómanna og aðila í útvegi er áfjáður í að ganga til þess samnings sem hér um ræðir. ( Gripið fram í: Ekki Sjómannafélag Reykjavíkur.) Þetta er mergurinn málsins og staðreyndin enda gera sjómenn sér kannski betur grein fyrir því en margar aðrar stéttir, þeir sem afla fyrir grunninn í íslensku þjóðfélagi, að þarna eru möguleikar til aukinna verðmæta fyrir minna magn og saman fara hagsmunir sjómanna og fiskvinnsluaðila í landinu

sem sjá mjög mikla möguleika í dýrmætari pakkningum, í dýrmætari framleiðslu á þessum stöðugasta og sterkasta markaði í heimi.