Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:17:24 (4572)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég ítarlega grein fyrir meginviðhorfum mínum í málinu. Ég efast um að ég hefði þar haft miklu við að bæta ef hæstv. utanrrh. hefði ekki komið fram á þann veg sem hann gerði í útvarps- og sjónvarpsumræðum sl. fimmtudag þar sem hann tvinnaði saman hverri blekkingunni af annarri og hverjum ósannindunum af öðrum. Það er því óhjákvæmilegt að svara því og ræða það sem hann kom þar fram með. Ég vildi eindregið óska eftir því við virðulegan forseta að hann bæði hæstv. utanrrh. að koma og hlusta á nokkrar spurningar sem ég óska eftir að leggja fyrir hann.
    Menn kunna kannski að spyrja hvort ég sé ekki með ræðu minni hér að taka þátt í meintu málþófi stjórnarandstæðinga sem mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um. En ég frábið mér að sjálfsögðu allar slíkar ásakanir og tel þær algjörlega út í hött. Talað er um að hér fari fram málþóf þegar menn eru margir hverjir að tala í fyrsta skipti í þessu máli og aðrir í annað sinn. En það er einmitt staðreynd þessa máls að margir stjórnarandstæðingar, að ég tali ekki um stjórnarsinna, hafa aldrei talað í þessu máli en eru að bætast við, einn og einn, í fyrsta sinn. Og aðrir eru að tala í annað sinn í málinu í þinginu, eins og á við um þann sem hér stendur nú.
    Ég heyrði það sagt í gær og get lesið það í Morgunblaðinu í morgun, að þessi umræða sé orðin lengri en aðrar umræður sem orðið hafa á Alþingi. Menn draga þá ályktun af því að þá hljóti þetta að vera málþóf. Menn segja að þetta sé m.a.s. orðin lengri umræða en umræðan um kvótalögin. Fyrr má nú vera ósköpin að menn skuli leyfa sér að tala um Evrópskt efnahagssvæði lengur en um hið stórmerkilega kvótamál sem var hér til umræðu fyrir nokkrum árum. En ég spyr: Þegar allir gera sér grein fyrir því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er hundraðfalt umfangsmeira mál en kvótamálið, bæði hvað

efnisatriði varðar og allt umfang, þarf þá nokkur að vera undrandi á því að umræðan taki einhvern tíma og sé jafnvel lengri en dæmi eru um fyrr á Alþingi?
    Auðvitað er það staðreynd, sem ég sagði einmitt við 2. umr. málsins, að forsprakkar stjórnarsinna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., hafa komið þeirri þjóðsögu af stað að stjórnarandstæðingar haldi uppi málþófi. Því hafa þeir svo tönnlast svo á að margir eru farnir að trúa þessu, jafnvel hinir virðulegustu fjölmiðlar. Ég sé það t.d. að í DV í morgun er grein þar sem sagt er: ,,Málþóf hefur staðið um EES-málið í 80 tíma.`` Umræðan hefur sem sagt staðið í 80 tíma og það er greinilegt á þessum ummælum að það er litið á það sem málþóf alveg frá því að umræðan hófst.
    Þetta er alveg í fullu samræmi við það sem fram hefur komið hjá utanrrh., sem byrjaði að kvarta yfir málþófi stjórnarandstæðinga í blaðaviðtölum erlendis áður en 2. umr. hófst. Síðan fylgdi hæstv. forsrh. strax í kjölfarið með því að fullyrða eftir að einn stjórnarandstæðingur hafði talað, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, að það hlyti að vera þörf á því að skera niður ræðutímann. Staðreyndin er sú að þegar ég tók til máls hér á þriðjudaginn var hafði enginn stjórnarandstæðingur talað oftar en einu sinni við 2. umr. málsins.
    Auðvitað segir það sig sjálft að ekki er um að ræða málþóf í þinginu nema menn séu farnir að endurtaka ræður sínar ellegar lesa hér upp úr einhverjum skjölum og bókum sem eru óviðkomandi málinu eða hegða sér á einhvern annan óþinglegan máta. En á meðan hv. þm. eru einfaldlega að gera grein fyrir skoðunum sínum, eins og verið hefur undanfarna daga --- að vísu eru mjög margir þingmenn sem hafa þörf fyrir það --- og hafa flestir hverjir aðeins talað einu sinni þá er að sjálfsögðu þjóðsagan um málþóf ekkert annað en ögrun við Alþingi og þingræði. Ég verð að segja það alveg eins og er, og mæli það til hv. þm. Árna Johnsens, sem var hér í andsvörum rétt áðan, að ég held að þjóðin hljóti að bera meiri virðingu fyrir þeim þingmanni sem stendur upp og gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum og skoðunum, með eða móti, í klukkutíma ræðu en hitt að menn þegi þunnu hljóði meðan umræðan fer fram á Alþingi og láti sjónarmið sín aldrei koma fram nema kannski í andsvari sem tekur tvær mínútur og lítið kemst annað að en einhver ómerkilegur skætingur, eins og var hjá hv. þm. Árna Johnsen sem talaði mikið um það hvað við stjórnarandstæðingar værum algleiðir til munnsins, eins og hann mun hafa sagt.
    Nú spyr ég virðulegan forseta: Hvað líður hæstv. utanrrh.? Ég held að hann hljóti að telja það embættisskyldu sína að vera viðstaddur þessa umræðu og vil eindregið fá að leggja fyrir hann eina spurningu. ( Forseti: Forseti hafði fengið þær fregnir af hæstv. utanrrh. að hann væri alveg að koma.) Já, það virðist ætla að togna eitthvað úr því. ( Forseti: Já, við skulum vona að það verði ekki langt í það að hæstv. ráðherra birtist.)
    Ég ætla aðeins byrja á því, jafnvel þótt ráðherrann sé ekki kominn, að rifja upp það sem hæstv. ráðherra sagði í umræðunni í fyrrdag sem útvarpað var og sjónvarpað. Þar sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Inngangan í EFTA, sem enginn deilir um að var rétt. Sú bylting sem varð á viðreisnarárunum þegar haftakerfinu var aflétt og við stigum fyrstu skrefin í átt til frjálslynds, opins markaðskerfis. Hverjir voru á móti þessu? Hverjir brugðust alltaf við með landráðabrigslyrðum? Það var fortíðarliðið í Alþb., það var landbúnaðaríhaldið í Framsókn. Og nú er kominn hér nýr flokkur, fylgikonur allaballa í þessari afturhaldssemi í Kvennalistanum. Þetta eru sömu öflin sem hafa haft rangt fyrir sér í hverju einasta stórmáli lýðveldisins allan tímann.``
    Einnig sagði hæstv. ráðherra í þessari umræðu:
    ,,Hver trúir nú á ómagaorðin sem þeir notuðu við inngönguna í EFTA um að það mundi binda endi á íslenskt sjálfstæði, það mundi verða framsal fullveldis eða eitthvað þess háttar? Þetta eru allt saman staðlausir stafir, ýkjuáróður, hræðsluáróður, en ómerkilegur áróður.`` Og hann bætti við: ,,Það er fjarstæða að þessi samningur sé um framsal á fullveldi. Er verið að framselja vald í hendur erlendum dómstólum eða erlendri stofnun eins og eftirlitsstofnuninni? Ég spyr.``
    Þetta kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. sl. fimmtudag. Og þessi ummæli komu síðan aftur fram hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni í gær, þar sem hann fullyrti að þegar Íslendingar gengu í EFTA hefðu þingmenn haft uppi, eins og hann sjálfur sagði, landráðabrigsl. -- Virðulegi forseti. Ég vil eindregið óska eftir því að hæstv. utanrrh. mæti til þess að svara spurningum sem varða þessi ummæli hans. Ég sætti mig engan veginn við það að hann sinni ekki embættisskyldum sínum og komi hingað. ( Forseti: Þessi beiðni hv. þm. hefur verið ítrekuð við hæstv. ráðherra og enn fær forseti þær fregnir að hann sé alveg að koma. Ef hv. þm. óskar þess getur hann farið í sæti sitt þar til hæstv. ráðherra kemur í þingsalinn. -- Ráðherrann er kominn.)
    Ég var búinn að rekja hér þau ummæli sem hæstv. utanrrh. viðhafði í útvarps- og sjónvarpsumræðum sl. fimmtudag þar sem hann ræddi um inngönguna í EFTA og minntist reyndar líka á inngönguna í Atlantshafsbandalagið. Ráðherrann sagði m.a. þegar rætt var um inngönguna í EFTA, með leyfi forseta: ,,Hverjir voru á móti þessu? Hverjir brugðust alltaf við með landráðabrigslum?``
    Og einnig með leyfi forseta: ,,Hver trúir nú á ómagaorðin sem þeir notuðu við inngönguna í EFTA um að það mundi binda endi á íslenskt sjálfstæði? Það mundi verða framsal fullveldis.``
    Ég kemst ekki hjá því að spyrja hæstv. utanrrh., rétt eins og ég spurði hv. þm. Karl Steinar Guðnason í gær sem fullyrti eitthvað álíka, hvort að hann geti upplýst mig um það hverjir höfðu uppi þessi landráðabrigsl. Hvaða hv. þm., sem þá átti sæti á Alþingi, tók svo til orða að það réttlæti þessi ummæli ráðherrans? Á maður að trúa því að hæstv. utanrrh. geri mönnum upp orð, mönnum sem sátu á Alþingi fyrir 25 árum og ekki eru hér til að svara fyrir sig? Það er erfitt að trúa því.
    En staðreyndin er auðvitað sú að sá sem fer yfir þau ummæli sem féllu og þær orðræður sem uppi voru hafðar á Alþingi fyrir 25 árum mun hvergi finna eitt einasta orð eða einustu setningu sem réttlætir þessi ummæli ráðherrans. Ef reynt er að rifja það upp hver meginviðhorfin voru þegar innganga Íslands í EFTA var á döfinni þá hygg ég að þar hafi fyrst og fremst verið um tvenns konar röksemdir að ræða. Annars vegar héldu menn því fram að innganga í EFTA kynni með tíð og tíma að leiða okkur inn í Evrópubandalagið. Hins vegar héldu menn því fram að íselnskur iðnaður væri í svo erfiðri stöðu að það gæti verið tvíbent fyrir atvinnuvegi okkar að eiga aðild að EFTA að svo stöddu. Máli mínu til stuðnings langar mig að lesa upp tillögu til rökstuddrar dagskrár, sem flutt var 9. nóv. 1968 við fyrri umræðuna um EFTA-málið. Þessi rökstudda dagskrá var flutt af þingmönnum Alþb. og Framsfl., Eysteini Jónssyni, Ólafi Jóhannessyni og Gils Guðmundssyni. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem ekki er tímabært nú að taka ákvörðun um aðildarumsókn að Fríverslunarsamtökum Evrópu, m.a. vegna óvissu í efnahagsmálum, ófullnægjandi athugunar á sumum undirstöðuatriðum málsins, svo sem stöðu iðnaðarins og nýlegrar ákvörðunar Breta um 10% toll af freðfiskflökum frá EFTA-löndum, samþykkir Alþingi að taka fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Rökstuðningurinn fyrir þessari dagskrártillögu var allur í þessum anda. Hann var á þá leið að það gæti verið tvíeggjað fyrir íslenskan iðnað að ganga í EFTA og afnema verndartollana vegna þess að það gæti haft í för með sér verulega fækkun starfa í iðnaði. Ég get fært rök að því að þannig féll umræðan á sínum tíma, með því að vitna t.d. í höfuðtalsmann málsins, þáv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslason, sem sagði á þeim tíma þegar hann var að svara andstæðingum sínum, með leyfi forseta:
    ,,Höfuðatriðið, sem lögð hefur verið áhersla á sem ókost eða galla við EFTA-aðild, er það að verndaður iðnaður á Íslandi muni ekki standast þá samkeppni, sem EFTA-aðild hafi í för með sér. Á það hefur verið bent að í vernduðum iðnaði á Íslandi hafi unnið 3.500--4.000 manns og að þetta fólk muni missa atvinnu sína.``
    Ég gæti líka rakið hér greinargerð 1. minni hluta utanrmn. þegar endanlega var gengið frá inngöngu Íslands í EFTA. Þar eru fyrst og fremst lagðar fram röksemdir sem beinast að stöðu iðnaðar á þeim tíma, sem var mjög verndaður með verndartollum, og hvaða áhrif inngangan í EFTA kynni að hafa á stöðu iðnaðarins.
    Nú er kannski eðlilegt að menn spyrji: Hvernig fór? Var þetta ekki ástæðulaus ótti

sem uppi var hafður á þessum tíma? Var ástæða til að óttast að atvinnuleysi yrði hér á landi í kjölfar EFTA-aðildar eða einstakar iðngreinar létu undan síga? Í því sambandi langar mig til þess að benda á ályktun frá ársþingi Félags ísl. iðnrekenda, sem fram kom 11. mars sl. en þar er gerð grein fyrir því hvernig þróunin hefur verið á Íslandi varðandi íslenskan iðnað eftir að Íslendingar gengu í EFTA. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki hefur tekist að efla almennan útflutningsiðnað. Hlutur hans í heildarútflutningi er svipaður og hann var fyrir 20 árum síðan og síðustu fjögur árin hefur ríkt nær algjör stöðnun í þjóðfélaginu. Þetta er vert að rifja upp þegar við stöndum á þröskuldi Evrópska efnahagssvæðisins sem að sumu leyti má líkja við inngönguna í EFTA á sínum tíma. Fyrirheit um bætt starfsskilyrði iðnaðarins við aðildina að EFTA hafa enn ekki verið efnd að fullu.``
    Þarna kemur í hnotskurn ákveðin saga, sem er staðreynd, að við aðildina að EFTA brotnuðu niður fjöldamargar iðngreinar hér á landi sem áður höfðu blómstrað. Nægir að nefna fataiðnaðinn, skóiðnaðinn og húsgagnaiðnaðinn. Spádómar stjórnarandstæðinga á sínum tíma rættust hvað þennan verndaða iðnað varðaði. Því miður verður að segja hverja sögu eins og hún gengur og eins og kemur alveg ljóslega fram í áliti Félags ísl. iðnrekenda hefur okkur Íslendingum gengið illa að byggja upp annan útflutningsiðnað í staðinn fyrir það sem varð að láta undan síga. Þetta er ekkert annað en sú sorgarsaga sem við stöndum frammi fyrir.
    Það kom í ljós að aðvörunarorð stjórnarandstöðunnar á sínum tíma voru hárrétt. Íslenskur iðnaður var í erfiðri stöðu. Það var tvísýnt að starfsskilyrði iðnaðarins yrðu bætt og það hefur reyndar ekki verið gert enn nægilega vel til þess að hann fái blómstrað.
    Í fyrsta lagi er það því ekkert annað en hrá áróðurslygi frá hæstv. utanrrh. að nokkur þingmaður hafi haft uppi einhver landráðabrigsl þegar við gengum í EFTA heldur voru þar hafðar uppi röksemdir sem hafa reynst eiga fullan rétt á sér eins og ég hef bent á. Önnur meginröksemdin var sú að innganga í EFTA kynni að leiða til þess að við myndum villast inn í Evrópubandalagið fyrr eða síðar. Þá var mjög á döfinni að EFTA-ríkin gengju inn í Evrópubandalagið og var því full ástæða til að hafa af þessu áhyggjur. Síðar breyttist þetta eins og kunnugt er og málið lá niðri um langt skeið. En hver neitar því núna að það sé einmitt helst á dagskrá í Evrópumálunum í dag að EFTA-ríkin gangi inn í Evrópubandalagið? Það er nákvæmlega þetta sem menn bentu á fyrir 25 árum að mundi sennilega gerast fyrr eða síðar og það er að rætast í dag. Ábendingar af því tagi fyrir 25 árum áttu því fyllilega rétt á sér, voru fullkomlega tímabærar og eru núna að rætast.
    Maður spyr sig þá að því: Var eitthvað líkt með þessari umræðu um inngönguna í EFTA á sínum tíma og svo aftur þeirri umræðu sem nú fer fram? Ég get upplýst hv. þm. um að eitt var afar líkt og það var krafan um þjóðaratkvæði. Krafan um þjóðaratkvæði kom þá fram. Og einn af þeim sem börðust hvað eindregnast fyrir því var einmitt hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, enda var það í fullu samræmi við stefnu þess flokks sem hann studdi þá. Samtök frjálslyndra og vinstri manna, undir forustu Hannibals Valdimarssonar, báru einmitt fram tillögu um það á þeim tíma að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðildina að EFTA. Það er nákvæmlega það sem við stjórnarandstæðingar erum nú að gera í annað sinn og teljum eðlilegt að stórmál af því tagi eigi erindi til þjóðarinnar og eigi að útkljást þar. Nákvæmlega það sama sem hæstv. utanrrh. taldi sjálfsagt og eðlilegt fyrir 25 árum síðan.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um þessa hlið málsins. Ég tel mig hafa sýnt fram á að brigslyrði hæstv. utanrrh. í garð þeirra manna sem sátu á Alþingi fyrir 25 árum eru innantómt áróðurshjal sem ekki eiga nokkra stoð í veruleikanum. Þá höfðu menn uppi rökstuddar aðvaranir um vissa þætti málsins, töldu að sjálfsögðu að að því kæmi að Íslendingar gengju í EFTA en töldu það ekki tímabært á þeirri stundu vegna þess að íslenskur iðnaður væri ekki nægilega vel undir það búinn.
    Það var síðan undir forustu framsóknarmanna og alþýðubandalagsmanna á árunum 1972 og 1973 að fram fóru viðræður við Evrópubandalagið um sérstakan tvíhliða samning við Evrópubandalagið og í kjölfar þess var bókun 6 gerð. Að sjálfsögðu hefur Alþb.

alla tíð haft ríkan skilning á því að fríverslun er afar hagstæð fyrir okkur Íslendinga. Og það er nauðsynlegt fyrir okkur að tryggja að frelsi ríki í alþjóðaviðskiptum. En samhliða því verðum við að setja ákveðna fyrirvara. Við getum ekki staðið að slíku algjörlega fyrirvaralaust og undantekningalaust. Við verðum að hafa vissar undantekningar í gangi. Og þar greinir okkur á við hæstv. utanrrh. sem hefur viljað gefa allt frjálst og opið með þeim afleiðingum sem það hefur.
    Um hrakyrði hæstv. utanrrh. í garð þeirra manna sem greiddu atkvæði gegn aðildinni að NATO, Atlantshafsbandalaginu, hirði ég ekki að fara mörgum orðum. Þeir menn voru framsýnir og vissu að Íslendingar áttu ekki neitt erindi í hernaðarbandalag. Og í þeim hópi sem þá afstöðu höfðu á sínum tíma voru tveir þingmenn sem seinna urðu formenn í Alþfl. og þannig fyrirrennarar núv. formanns Alþfl., Jóns Baldvins Hannibalssonar. Annar þeirra var Hannibal Valdimarsson sem greiddi atkvæði á móti aðildinni að NATO árið 1949. Hinn var Gylfi Þ. Gíslason, sem seinna tók við formennsku í Alþfl. En margir aðrir alþýðuflokksmenn voru á þeim tíma á sama máli. Þarna voru þessir oddvitar Alþfl., Hannibal Valdimarsson og Gylfi Þ. Gíslason, í fyrirsvari fyrir stóran hluta Alþfl. sem var þessarar skoðunar og ég held að við ættum síst að áfellast þessa ágætu menn fyrir afstöðu þeirra á sínum tíma. Síst ætti það að falla í hlut núv. formanns Alþfl. að vera að hnjóða í fyrrv. formenn Alþfl. fyrir þessa afstöðu þeirra á sínum tíma.
    Í ræðu sinni fullyrti hæstv. utanrrh. enn einu sinni að það fælist ekkert framsal á fullveldi í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Við alþýðubandalagsmenn og aðrir stjórnarandstæðingar höfum á það bent að verið er að framselja hluta fullveldisréttarins með þessum samningi. Við höfum fært fyrir því skýr rök. Þessi umræða var hins vegar ekki í gangi þegar Íslendingar gengu í EFTA. Það er ekkert annað en sögufölsun af hálfu hæstv. utanrrh. Á það var aldrei minnst á þeim tíma enda var það ekkert á dagskrá. Ég minnist þess ekki að einn einasti lögfræðingur hafi haldið slíku fram og enn síður nokkur stjórnmálamaður. Það er ekkert annað en sögufölsun að vera að blanda þessu tvennu saman eða halda því fram að þannig hafi umræðan verið fyrir 25 árum. Á það minntist ekki nokkur maður þá.
    Menn eru hins vegar að nefna þetta nú vegna þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er allt annars eðlis. Hann er enginn venjulegur viðskiptasamningur. Þar er um að ræða framsal valds til eftirlitsstofnunar og til dómstóls og virtustu lögfræðingar hafa verið á einu máli um að um framsal valds sé að ræða. Annars vegar draga þeir sem hæstv. utanrrh. skipaði til að fjalla um þetta mál, svokallaðir fjórmenningar, það ekkert í efa í sinni greinargerð að um framsal valds sé að ræða. Í þeirra greinargerð kemur margoft fram að um framsal valds til erlendra aðila sé að ræða. Þeir segja hins vegar að það framsal sé ekki svo íþyngjandi. Það sé afmarkað og á ákveðnu sviði og þess vegna þurfi ekki að breyta stjórnarskránni. En þeir eru ekkert að draga í efa að um framsal valds sé að ræða. Svo hafa aftur á móti aðrir lögfræðingar bent á að þetta framsal valds sé þess eðlis að það verði að breyta stjórnarskránni. Ágreiningur lögfræðinganna hefur snúist um það hvort framsalið væri það íþyngjandi og það verulegt að breyta yrði stjórnarskránni.
    En engir aðrir en ráðherrarnir Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson leyfa sér að bjóða þjóðinni upp á þann málflutning að í þessu felist ekkert framsal valds. Ekki einn einasti málsmetandi lögfræðingur, hvorki úr því liði sem utanrrh. hefur skipað til að kanna málið né úr því liði sem utanrmn. hefur kallað til sín til skrafs og ráðagerða, lætur sér til hugar koma að reyna að neita því að um er að ræða framsal valds. Einu mennirnir sem það gera eru hæstv. ráðherrar, Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson.
    Mig langar til að nefna í þessu samhengi, vegna þessarar dæmalausu og rakalausu fullyrðingar hæstv. utanrrh., hvað lögfræðingurinn og prófessorinn Gunnar G. Schram sagði um þetta mál 8. jan. 1991 í sjónvarpinu. Hefur hann þó ekki verið talinn til stjórnarandstæðinga og engum dottið í huga að telja að hann væri að draga taum okkar stjórnarandstæðinga. Hann segir í þessari upptöku úr sjónvarpinu, með leyfi forseta:
    ,,Það verður um að ræða mjög víðtækt framsal ríkisvalds. Og raunar hvort sem við gerumst aðilar að efnahagssvæðinu evrópska, sem nú er helst talað um, eða ef við gerumst

fullgildir aðilar að EB, Evrópubandalaginu. Í báðum tilvikunum verður þá að fylgja veruleg takmörkun --- eða framsal, það er kannski skiljanlegra að kalla þetta takmörkun --- á fullveldi landsins og þá á sjálfsforræði. Ég held að Íslendingar almennt hafi ekkert áttað sig á því að það er svo --- hvað hér hangir raunverulega mikið á spýtunni að þessu leyti.
    Ef við tökum sem dæmi lögin, að jafnvel þó við gerumst bara aðilar að þessu Evrópska efnahagssvæði þá verðum við að lögtaka rétt eða lagasafn Evrópubandalagsins. Það er nú enginn smáræðis lagatexti. Hann er upp á 11.000 síður eða fjórum sinnum meiri að vöxtum en allt íslenska lagasafnið.``
    Þetta segir prófessorinn Gunnar G. Schram um þennan þátt málsins. Hann segir seinna í þessu viðtali, með leyfi forseta: ,,Nú, annað dæmi er það að íslenska dómsvaldið verður náttúrlega miklum mun tamarkaðra á þeim sviðum sem Evrópubandalagið tekur til, þ.e. á sviði efnahags- og viðskiptamála, verslunar, tolla, umhverfis- og félagsmála. Evrópudómstóllinn í Lúxemborg, hann verður í öllum þessum málaflokkum æðsti dómstóll Íslands, ekki lengur Hæstiréttur eða aðrir íslenskir dómstólar. Hæstiréttur er náttúrlega æðsti dómstóllinn. Íslendingar geta skotið máli sínu til þessa Evrópudómstóls og lög Evrópubandalagsins ganga fyrir íslenskum lögum. Þau eru rétthærri ef þarna er ósamræmi á milli. M.a. geta lög Evrópubandalagsins vikið til hliðar stjórnarskrá Íslands eins og annarra ríkja. Um það dæmir þessi dómstóll bandalagsins sem situr í Lúxemborg en ekki Hæstiréttur.``
    Þetta sagði prófessorinn Gunnar G. Schram um framsal valds. Þetta var að vísu áður en sú breyting var gerð á samningnum að dómstólakerfinu var breytt en eftir sem áður er alveg ljóst hver var skoðun prófessorsins á þessum þætti málsins.
    Þetta hef ég rakið í ljósi þess hvernig hæstv. utanrrh. leyfir sér að tala um þetta mál í opinberum sjónvarps- og útvarpsumræðum frá Alþingi. Þar sem hann talar á allt annan hátt en þeir lögfræðingar sem hann er þó að styðjast við og kallar til ráðuneytis og vitnar til að öðru leyti.
    Að lokum langar mig til að nefna þá útreikninga Þjóðhagsstofnunar sem hæstv. utanrrh. vitnaði til í þessum umræðum. Það hafa margir nefnt á undan mér og ætla ég ekki að fara mörgum orðum um þann þátt málsins en vildi samt bæta þar við nokkrum orðum.
    Því var haldið fram af hæstv. utanrrh. að þjóðarframleiðslan mundi aukast um eina 7 milljarða við það að þessi samningur yrði gerður. Hann lét þess hins vegar ekki getið að samkvæmt þessari spá Þjóðhagsstofnunar er ekki um svona mikla upphæð að ræða. Hann fór rangt með upphæðina og í öðru lagi var hann ekki að taka fram að þetta væri spá nokkuð langt fram í tímann og það væri ekki fyrr en eftir átta ár sem þetta ætti að rætast. En það var eitt annað sem vantaði í myndina. Það var að spá Þjóðhagsstofnunar var eingöngu um tekjuhliðina varðandi samninginn. Spáin snýst um það hvaða breytingar gætu orðið á samsetningu þjóðarframleiðslunnar og þá aukningu sem gæti hugsanlega stafað af aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. En það er sérstaklega tekið fram í þessari álitsgerð að þá sé eftir að draga frá allt sem kemur til frádráttar vegna þess að auðvitað töpum við um leið á ýmsum sviðum vegna aukinnar samkeppni utan lands frá.
    Ég hef áður rakið það í þessum umræðum að það er gefið eins og tvisvar tveir eru fjórir að samkeppni mun stóraukast á mörgum sviðum. Sérstaklega á það við í bankastarfsemi, fjármagnsstarfsemi, tryggingum, verslun og viðskiptum, í flutningum á sjó og í lofti og víðar og víðar. Því hefur verið spáð að það sé hugsanlegt að erlendir aðilar verði að fáum árum liðnum komnir með 30% af þessum viðskiptum á sínar hendur. Og það er alveg ljóst að sú aukna samkeppni mun að sjálfsögðu draga nokkuð úr okkar tekjum. Allt þetta á eftir að draga frá.
    Þegar Þjóðhagsstofnun nefnir sínar stóru tölur er eingöngu verið að líta á aðra hlið málsins, þ.e. tekjurnar, en undanskilið allt sem gæti þar komið til frádráttar. Þetta var því enn ein blekkingin sem hæstv. utanrrh. hafði hér uppi í þessum umræðum.