Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 12:03:26 (4627)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þessar umræður fara fram undir nokkuð sérstökum kringumstæðum þar sem allmargir þingmenn eru veðurtepptir einhvers staðar í nágrenninu eða jafnvel lengra í burtu. Út af fyrir sig er slæmt að þeir skuli ekki vera viðstaddir. En forseti hefur lýst því yfir að umræðu verði ekki lokið fyrr en þeir hafa fengið tækifæri til að tjá sig og ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir það.
    Ekki er óeðlilegt að farið sé nokkrum orðum um fiskveiðisamninginn og vona ég að hæstv. ráðherrar hafi þolinmæði til þess að taka því því hér er um verulega stórt mál að ræða og jafnframt stefnumarkandi. Ég vona að hæstv. ráðherrar falli ekki í þá gryfju þó að einhverjir af þingmönnum séu ekki sammála gerðum þeirra að fara að kalla málþóf eins og þeir hafa sífellt haldið á lofti þegar þeir fá ekki umsvifalaust samþykki Alþingis fyrir gerðum sínum. Hæstv. utanrrh. gengur nú svo langt að hann talar um það að Alþingi verði að gera skyldu sína. Það finnst mér orðalag sem ekki megi láta ómótmælt. Alþingi á ekki að vera nein þjónustustofnun fyrir hæstv. ríkisstjórn og þá þegar af þeirri ástæðu er það ekki skylda Alþingis að afgreiða allt sem ríkisstjórnin kann að bera á borð fyrir okkur. Alþingi á að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þær á ekki að taka í utanrrn. eða öðrum ráðuneytum, við fjöllum um mál og eigum að varðveita þann rétt okkar og rétt þeirrar stofnunar þar sem við störfum að taka sjálfstæðar ákvarðanir.
    Menn hafa býsnast mjög yfir því að umræður um samning um Evrópskt efnahagssvæði hafi tekið langan tíma. Ég hef ekki nýjar tölur um hvað þær umræður tóku í heild en mér kæmi ekki á óvart þó að um það mál hafi verið rætt eina 100 klukkutíma á Alþingi. Það finnst mér í sjálfu sér ekki langar umræður um svo veigamikið mál og vafalaust ef málskjöl öll eru talin saman þá eru þær umræður áreiðanlega skemmri en um flest önnur mál því hér er um að ræða skjöl tengd málinu sem eru yfir 10.000 blaðsíður. Þó að 100 klukkstundir fari í það að ræða það mál er það ekki nein goðgá.
    Ég vil taka það fram og minna á að sjálfstæðisbarátta íslensku þjóðarinnar tók 100 ár og með EES-samningnum er verið að stíga stórt og alvarlegt skref til baka og þó það taki 100 klukkustundir að ræða það þá er það lítið í samanburði við þau 100 ár sem sjálfstæðisbaráttan tók fyrir okkur Íslendinga.
    Þó að það taki einhverja stund að ræða fiskveiðisamninginn sem er í sjálfu sér miklu minna mál, þó tengt hinu, þá minni ég á litla breytingu á kvótalögunum fyrir fjórum, fimm árum. Sú umræða tók 47 klukkustundir ef ég hef réttar upplýsingar og ekki er óeðlilegt þó einhver tími fari í umræður um fiskveiðisamninginn.
    Íslendingar háðu langa landhelgisbaráttu, þ.e. sú barátta sem Íslendingar háðu til að færa út fiskveiðilögsöguna tók ein 30 ár að þeim áfanga sem við vorum komnir að fyrir 1980. Nú er líka horfið af þeirri braut.
    Mig langar til að rifja upp stærstu skrefin í landhelgisbaráttunni. Við bjuggum lengi við þriggja mílna landhelgi, síðan var fært út fyrir Norðurlandi, stórt skref var stigið árið 1952 með reglugerð þegar lokað var fjörðum og flóum og fært út í fjórar mílur. Árið 1958 var svo fært út í tólf mílur gegn miklum og harðskeyttum mótmælum, sérstaklega frá Bretum. Um það urðu veruleg átök við þá þjóð og hernaðarástand á miðunum. Við unnum sigur í því máli. Sá sigur var að vísu nokkuð dýrkeyptur því viðreisnarstjórnin gerði nauðasamninga við Breta á sínum tíma, þ.e. nauðasamninga að því leyti að við urðum að tilkynna Bretum og fá þeirra góða leyfi til frekari útfærslu. Það tók áratug að hnekkja því og efla þjóðarsamstöðu um frekari útfærslu landhelginnar en það var gert strax og viðreisnarstjórnin lét af völdum og fært var út í 50 mílur. Síðan var aftur fært út 1975 í 200 mílur. Báðar þessar útfærslur kostuðu verulegar fórnir. Þjóðarbúið hafði af þessu stórfelldan kostnað. Við vorum beittir viðskiptaþvingunum af okkar helstu viðskiptaþjóðum, sem við nú erum að ganga til bandalags við, fyrir utan allan þann kostnað sem fólst í því að verja þau hafsvæði sem við höfðum helgað okkur, fyrir utan þá lífshættu sem við stofnuðum okkar varðskipamönnum í. Því nefni ég þetta, frú forseti, að ég held að það sé gott fyrir okkur að hafa það í huga að landhelgina unnum við ekki baráttulaust.
    Nú væri það e.t.v. ástæða til að velta því fyrir sér ofurlitla stund hvernig væri umhorfs í þessu þjóðfélagi ef framsýnir menn og kjarkaðir hefðu ekki tekið þær ákvarðanir sem teknar voru á sínum tíma um útfærslu landhelginnar, ef við byggjum hér við þriggja eða kannski fjögurra mílna landhelgi enn, hvernig ímynda menn sér að ástandið væri á fiskimiðum okkar. Það er rétt að hafa það í huga að sigrar okkar í landhelgismálinu hafa lagt undirstöðuna að velmegun fyrirfarandi ára og ef við hefðum ekki unnið þá sigra sem unnust þá hefðum við ekki haft á undanförnum árum möguleika á þeim lífskjörum sem íslenska þjóðin hefur búið við undanfarin ár og framtíðarhorfur okkar væru áreiðanlega miklu dekkri heldur en þær eru í dag.
    Hér hefur verið þrástagast af einum þingmanni, hv. 17. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, sem eins og allir vita er lærðastur þingmanna Alþfl., að við höfum gert samning við Belgíumenn um fiskveiðar á Íslandsmiðum. Mér finnst þetta hlálegt. Hv. þm. hleypur hér upp á fætur hverjum ræðumanni til þess að tuða eitthvað um Belga. Nú vita það allir að Belgíumenn fengu hér ákveðnar fiskveiðiheimildir fyrir nafngreinda togara meðan þeir flytu eða væru í rekstri sem verðlaun eða þakklætisvott fyrir stuðning Belgíu við Íslendinga í landhelgisstríðinu, því seinasta. Og að vera að reyna að réttlæta núverandi samningaumleitanir eða núverandi þingsályktunartillögu um fullgildingu á samningi með því að skip frá þessu Evrópubandalagsríki hefðu haft fiskveiðiheimildir á Íslandsmiðum, þar er nú langt seilst um hurð til lokunar og ég ætla nú að biðja hv. lærðan þingmann, dr. Össur Skarphéðinsson, 17. þm. Reykv., að spara sér ómakið hér upp í ræðustólinn. Það fer að verða málþófskennt að hlusta á sífelldar ræður hans um það að við höfum haft fiskveiðilögsöguna opna allan tímann fyrir skipum frá Evrópubandalaginu. Hér var um sérstaka vinaþjóð að ræða og þetta var vináttuvottur okkar og þakklætisvottur okkar til Belga að við heimiluðum þessar veiðar. Þær eru reyndar á síðasta snúningi og vafalaust ekki reknar með arðvænlegum hætti fyrir Belgíumenn.
    Við höfum jafnframt heimilað frændum okkar Færeyingum nokkrar fiskveiðiheimildir hér í landhelginni og það gildir að vissu leyti það sama um þær. Það eru ekki efnahagsleg rök fyrir þessum fiskveiðiheimildum. Þau rök eru fyrst og fremst drengskaparlegs eðlis að við höfum ekki viljað taka þessar fiskveiðiheimildir af Færeyingum í þeirra miklu þrengingum og ég get sagt frá því hér, frú forseti, að ég styð síðustu ákvörðun sjútvrh. um fiskveiðiheimildir handa Færeyingum. Hann greindi frá áformaðri ákvörðun sinni í utanrmn. svo sem vera bar nú fyrir jólin og ég nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir stuðningi við þær, en ítreka jafnframt að Færeyingar eru ekki í Evrópubandalaginu þannig að hv. 17. þm. Reykv. hafi það á hreinu líka.
    Allan tímann síðan Íslendingar færðu út landhelgina í 200 mílur hefur Evrópubandalagið sótt á að komast hér inn, þeir hafa klifað á þessu allan tímann og þrýstingur verið uppi allan tímann frá Evrópubandalaginu. Fyrirvari var gerður um bókun 6 um það að taka upp viðræður við þá, en Íslendingar neyddust til þess að láta sér lynda þann fyrirvara, enda að sjálfsögðu talað um vannýtta fiskstofna og engum datt í hug að fara að gera samning um það að hleypa þeim í fullnýtta fiskstofna sem við Íslendingar þurfum á að halda sjálfir.
    Menn settu sér það --- og um það var ekki bara samstaða hér á Alþingi heldur með þjóðinni allri --- að ekki kæmi til greina að fara að kaupa frekari tollfríðindi hjá Evrópubandalaginu fyrir aðgang að fiskimiðum okkar. Það alvarlegasta við þetta mál er það að nú er tvímælalaust horfið af þeirri braut. Þessi afsláttarpólitík sem nú er við lýði hjá stjórnvöldum er að mínu mati óskiljanleg. Þeir hafa verið að reyna að skýra hana hér í umræðunum en mér finnst að það hafi tekist óhönduglega.
    Ég bendi á það líka í þessu sambandi að þó að við séum komnir með 200 mílna fiskveiðilögsögu og það beri að þakka, þá höfum við fram að þessu átt möguleika á enn frekari útfærslu og henni ekki smárri. En finnst mönnum líklegt, eftir að við erum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði sem vissulega eru horfur á og vilji ríkisstjórnarinnar stendur til, að okkur takist að færa fiskveiðilögsöguna frekar út þrátt fyrir skýlaus ákvæði um rétt okkar samkvæmt hafréttarsáttmálanum sem því miður hefur ekki verið fullgiltur af alveg nógu mörgum þjóðum? Það vantar 5--6 þjóðir enn að fullgilda hafréttarsáttmálann, þá eigum við samkvæmt honum möguleika á miklu víðari fiskveiðilögsögu heldur en við höfum nú. En þeim möguleikum er að sjálfsögðu fórnað með samningagerðinni um EES og við megum afskrifa þá.
    Einn af hv. þm., hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur verið óþreytandi að minna á þá möguleika sem við eigum á landgrunninu utan 200 mílnanna. Og hann hefur verið að reyna að safna liði mörg undafarin ár um það að stíga frekari skref en því miður hafa menn tekið þessu eins og einhverri sérvisku hjá hv. þm. Ég vil segja frá því að ég er ekki einn í þeirra hópi og ég tel að við hefðum betur farið að ráðum hans fyrr í þessu efni. Ég er að vísu ósammála hv. 4. þm. Reykv. um fjöldamargt og hef verið alla mína þingtíð. En ég tel að við hefðum betur hlustað meira á hann og stjórnvöld á hverjum tíma, bæði sú ríkisstjórn sem nú situr og þær ríkisstjórnir sem áður hafa setið á undanförnum áratug, hefðu betur hlustað á hans málflutning um þetta efni. En nú eru að verða þáttaskil og það er það alvarlega í málinu.
    Nú er verið að fórna frumburðarrétti okkar Íslendinga til fiskimiðanna innan 200 mílnanna. Við erum að hleypa togurum Evrópubandalagsins inn í fiskveiðilögsöguna og hverfa af þeirri braut að láta ekki fiskveiðiréttindi sem verslunarvöru fyrir tollaívilnanir hjá Evrópubandalaginu. Þetta tel ég vera óvirðingu við alla þá góðu forustumenn sem íslenska þjóðin hefur átt og hafa sinnt landhelgismálinu. Ég nefni nokkra þeirra. Ég nefni Hermann Jónasson, ég nefni Ólaf Thors, ég nefni Lúðvík Jósepsson, ég nefni Ólaf Jóhannesson, ég nefni Geir Hallgrímsson, ég nefni Einar Ágústsson. Allir þessir menn eru horfnir af þingi og því miður ekki lengur á lífi nema Lúðvík Jósepsson, en við erum að vanvirða þeirra baráttu, við erum að vanvirða þeirra verk með þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin er að fara fram á að Alþingi taki í landhelgismálinu með flutningi þessarar þingsályktunartillögu. Það er verið að opna fiskveiðilögsögu Íslands fyrir flota Evrópubandalagsins. Það skiptir ekki máli þó að sumir vilji stinga höfðinu í sandinn og ég get verið sammála því að það væri dýrmætt ef hægt væri að halda þessum málum aðskildum. En til þess sýnast mér nú lítil efni jafnvel þó að hyggnum mönnum sýnist ástæða til þess að reyna að skilja þar á milli sem frekast má. Evrópubandalagið hefur opinberlega tengt þessi mál saman. Ríkisstjórnin hefur tengt þessi mál saman. Ég vitna til þess að samkvæmt kröfu Evrópubandalagsins, ef ætti að verða að fullgildingu EES-samnings frá hendi Evrópubandalagsins, þá varð að liggja fyrir samningur um það sem þeir kalla gagnkvæmar veiðiheimildir milli Íslands og Evrópubandalagsins, en á mannamáli eru það náttúrlega ekki gagnkvæmar veiðiheimildir þar sem gagnvæmni er ekki í þessum fiskveiðisamningi. Það er að vísu ekki verið að rétta Evrópubandalaginu alla höndina með þessari samningagerð, en það er verið að rétta fingur. Það

er verið að rétta Evrópubandalaginu fingur og fyrr en varir taka þeir stærri hlut af hendinni.
    Samkvæmt þessum samningi, sem gerður hefur verið til þessa árs, er að vísu ekki verið að tala um nema 3 þús. tonn af karfa og það er kannski ekki stór biti af heildarafla landsmanna. En hann er yfirdrifið nógu stór og þetta er karfi sem við þurfum að nota sjálfir. Þetta er úr fullnýttum fiskstofni og það kemur sér efnahagslega mjög illa fyrir Íslendinga að láta þetta af hendi. En við föllumst á að semja árlega næstu 10 árin og við erum að gefa okkur í samningaþref sem á eftir að verða okkur dýrkeypt og mér sýnist ekki ástæða til að hafa bjartar vonir um það að Evrópubandalagið gangi ekki á lagið og krefjist meiri fiskveiðiréttinda en það hefur.
    Eins og ég sagði áðan og eins og hefur verið þráfaldlega bent á í þessum umræðum þá er með engu móti hægt að segja að það sé efnahagslegt jafnvægi í samningnum, þ.e. ef við erum að bera saman hugmyndir eða rétt til að veiða 30 þús. tonn af loðnu og 3 þús. tonn af karfa. Fyrir það fyrsta þurfum við nú ekki á þessari loðnu að halda, þ.e. hún mundi falla okkur í hér um bil öllum tilfellum í skaut. Það yrði undantekning ef við gætum nýtt þessa heimild ef við miðum við ástand undanfarandi ára og það er erfitt að hugsa sér þær kringumstæður sem okkur kæmi að gagni 30 þús. tonn af loðnu. Samkvæmt því sem hér hefur verið ítarlega rakið og ég ætla ekki að fara inn á í þessari stuttu tölu minni, þá hefur að sjálfsögðu réttur okkar staðið til að veiða þessa loðnu þannig að þá þegar af þeirri ástæðu er ekki jafnvægi í samningnum. Síðan hafa menn verið að leika sér hér með tölur um verðmæti, annars vegar 30 þús. tonn af loðnu og hins vegar 3 þús. tonn af karfa og niðurstaða af þeim talnaleik hefur verið sú að karfinn sé a.m.k. helmingi verðmætari en þessi pappírsloðna jafnvel þó að hún yrði nú veidd.
    Fyrir þinginu liggja tvö nefndarálit, frá meiri hluta utanrmn. og frá minni hluta utanrmn. Ég er einn af þeim sem skipa minni hluta utanrmn. í þessu máli og ég verð að segja það og staðfesta sem þar kemur fram að ég legg að sjálfsögðu til, eins og menn hafa e.t.v. heyrt af máli mínu, að þessi samningur verði felldur. Mér finnst það alveg með ólíkindum að allir nefndarmenn sem skrifa undir álit meiri hluta utanrmn., þ.e. sem mæla með því að samningurinn verði samþykktur, skuli vera þessarar skoðunar. Mér finnst það líka með ólíkindum að meiri hluti sjútvn., sem fékk þennan samning til umfjöllunar frá utanrmn., skuli láta frá sér fara það álit sem prentað er sem fskj. með nál. á þskj. 549, mér finnst það alveg með ólíkindum. Nú þekki ég hv. nefndarmenn suma að öðru en því að geta fallist á svona samansetningu eins og þar liggur fyrir.
    Nú vill svo illa til að formaður sjútvn., hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, er fjarverandi vegna veikinda. En mig langar til að lýsa eftir því hjá flokksbræðrum hv. þm. sem hér eru staddir hvort þeir viti um afstöðu Matthíasar Bjarnasonar, hv. 1. þm. Vestf. og formanns sjútvn., til málsins. Er afstaða varamanns hans, Guðjóns A. Kristjánssonar, hin sama og Matthíasar Bjarnasonar? Talar hv. varaþm. í nál. fyrir munn aðalmanns, 1. þm. Vestf.? Þetta finnst mér nauðsynlegt að fá upplýst. Er það virkilega svo að hv. 1. þm. Vestf. leggi blessun sína yfir svona samningagerð? Ég tel að það skipti verulegu máli. Nú er ég ekki að draga það í efa að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur rétt til þess að ráðstafa atkvæði sínu eftir því sem honum sýnist hér á þingi. En upp á seinni tímann, upp á sögu Matthíasar Bjarnasonar sem lengi hefur verið hér skörungur á þingi, þá finnst mér það skipta máli hver afstaða hans er. Hann er enn þá 1. þm. Vestf. og þar af leiðir að okkur varðar um afstöðu hans. Okkur varðar um það hvort hann er samþykkur þessum gerningi, formaður sjútvn. og fyrrv. sjútvrh. Ég leyfi mér að draga það í efa að hans nafn hefði staðið undir nál. meiri hlutans svo útibúið sem það er ef hann hefði verið hér í sæti sínu í þingsalnum.
    Ég vil nota þetta tækifæri til þess að láta í ljósi von mína um að honum batni krankleiki sinn sem allra fyrst og hann hljóti góðan og varanlegan bata af þeirri erfiðu aðgerð sem hann hefur gengist undir því að ég tel að sæti hans sé betur skipað hér á þingi heldur en ef hann væri hér ekki.
    Mér finnst það líka sorglegt að hæstv. sjútvrh. skuli hafa verið beygður í þessu máli. Mér fannst hann hafa uppi tilburði til þess að reyna að standa á rétti Íslendinga við þessa samningagerð með kröfu sinni um það að við fengjum fisk fyrir fisk, þ.e. að Evrópubandalagið veiddi ekki karfa nema við værum búnir að ná loðnu. Það var út af fyrir sig ofurlítil trygging um að samningurinn væri ekki í enn þá meira ójafnvægi en hann þyrfti að vera. Utanrmn. hefur fylgst gerla með þessari samningagerð og ég tel að það hafi verið hárrétt sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Norðurl. e., að áður en hæstv. sjútvrh. var kominn að málinu hafi hæstv. utanrrh. verið búinn að gefa ádrátt um að samningsniðurstaða yrði með þeim hætti sem raun ber vitni. Barátta hans hefur því verið vonlítil allan tímann enda hefur hann verður beygður og það þykir mér skaði. Mér finnst hörmulegt til þess að vita að hæstv. sjútvrh. sé í þeim sporum nú að reyna að mæla með þessari samningagerð því að ég þykist vita --- og það er reyndar skylda allra sjútvrh. á Íslandi sem vilja rækja starf sitt vel, sem ég efa ekki að hæstv. núv. sjútvrh. vill gera, að reyna að standa á rétti Íslendinga og ekki afsala okkur réttindum með þeim hætti sem hér er gert. Eins og þegar hefur komið fram í máli mínu, þá tel ég að hér sé um vont mál að ræða, samning sem við eigum ekki að staðfesta hér á Alþingi.
    Það hefur komið ítarlega fram í þessum umræðum að heppilegast væri að skilja á milli þessa samnings og samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Mér sýnist eins og ég hef áður sagt að það sé mjög torvelt. Þó kann að vera ein leið til þess að skilja á milli. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki haft hugsun á því og ekki verið þeirrar skoðunar fram að þessu að þarna beri að skilja á milli og Evrópubandalagið er ekki þeirrar skoðunar, en einn möguleiki enn væri til að skilja þarna á milli og hann er sá að fella þennan sjávarútvegssamning jafnvel þótt svo illa fari að meiri hluti Alþingis samþykki samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ef það væri gert, þá væri það ótvíræð viljayfirlýsing Alþingis um það að þessi mál séu ekki samrækileg. Ef það væri hins vegar ekki gert og þessi samningur staðfestur, gerður að kröfu Evrópubandalagsins, þá felst í því að mínu mati ákvörðun meiri hluta Alþingis að tengja málið saman.
    Ég mun, frú forseti, að sjálfsögðu segja nei við þessum samningi þegar þar að kemur. Ég tel að hér sé um að ræða stefnubreytingu sem sé ákaflega óheppileg, ákaflega afdrifarík, og hér sé um að ræða skref sem við eigum alls ekki að taka.
    Ég læt máli mínu lokið, herra forseti.