Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 10:58:13 (4658)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið talað um þau atriði þessa samnings sem snúa að veiðiheimildum og viðskiptalegum þætti málsins. Ég tel hins vegar nauðsynlegt áður en þessari umræðu lýkur að minnast á atriði sem snerta þá sem í sjávarútvegi vinna. Það gleður mig að sjá hér bæði hæstv. sjútvrh. og hv. 1. þm. Vestf., formann Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
    Svo undarlegt sem það má vera fjallar þessi samningur einungis um, eins og ég sagði áðan, viðskiptalega hlið málsins. Í inngangi hans er þó almennt ég vil leyfa mér að segja snakk um inntak samningsins og þar er m.a. minnst á, sem ekki á að verða aðalatriði máls míns, að hafa skuli hliðsjón af ákvæðum hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem báðir aðilar hafa undirritað og minni ég enn á hversu menn hafa staðið við þann góða sáttmála og nefni þar til heldur fávíslega frammistöðu Íslendinga þegar kemur að hvalveiðum. En það er önnur saga sem ég ætla ekki að gera að aðalinntaki míns máls hér.
    En hér segir líka ,,að viðurkenna grundvallarþýðingu sjávarútvegs fyrir Ísland þar eð hann er undirstöðuatvinnuvegur landsins.`` Nú vill svo til að sjávarútvegur er ekki bara fiskur, hann er líka það fólk sem við fiskinn vinnur. En á það er lítið minnst í þessum ágæta samningi.
    Hins vegar er auðvitað þessi samningur nátengdur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og þá fara mál að stangast á. Frv. til laga um breytingu á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði liggur fyrir á þskj. 22. Varðandi það frv. hefur hv. félmn. skilað nál. og í nefndinni var lögð sérstök áhersla á 5. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,1. gr. laganna orðist svo:
    Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma, fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.``
    Þetta er vissulega ánægjulegt að sjá og getur enginn verið annað en sammála því.
    En þá komum við að plaggi sem varðar hið Evrópska efnahagssvæði, sem ég hef rétt nýlega fengið að berja augum, mér skilst að því hafi verið dreift í hv. sjútvn., en þetta er plagg sem heitir ,,EES-samningurinn, upplýsingablöð, flugmál og skipaflutningar, II.2 og II.3``, en þar segir svo, með leyfi forseta, á bls. 8:
    ,,Stuðningsaðgerðir.
    Þegar ráðherranefnd EB staðfesti fyrrnefndar reglugerðir árið 1986 [en þær fjalla um frelsi í aðgangi að sjóflutningum og þjónustu o.s.frv.], lagði nefndin jafnframt fyrir framkvæmdastjórn EB að hún legði fram nýjar tillögur um frekari stefnumótun í kaupskipaútgerð og til styrktar EB-útgerðum. Þessar tillögur hafa verið nefndar ,,jákvæðar aðgerðir``. Framkvæmdastjórnin lagði slíkar tillögur fram 1989 og hafa þær verið til umræðu innan bandalagsins síðan. Tillögurnar ganga almennt í þá átt að vernda hagsmuni EB-útgerða gagnvart öðrum siglingaþjóðum, einkum þægindafánum, og eru í höfuðatriðum eftirfarandi:`` --- Þetta hygg ég að hv. 16. þm. Reykv., formaður Sjómannafélags Reykjavíkur fyrrverandi, hafi verið að reyna að segja hér í fyrradag, en gleymdi að líta ofan í málið allt. En tillögurnar eru í höfuðatriðum eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Forgangur skipa EB-útgerða verði tryggður í flutningum á allri þróunaraðstoð bandalagsríkjanna.
    2. Sameiginleg skráning allra skipa bandalagsins verði stofnuð, svonefnd EUROS-skráning.

    3. Á EUROS-skipum verði heimilt að helmingur undirmanna verði frá þróunarríkjum á kjörum sem ríkja í heimalöndum þeirra og að EB-farmenn á EUROS-skipum verði að hluta eða að öllu leyti skattfrjálsir og skattar þeirra gangi til útgerðanna.`` --- Þetta er nú sérkennilegt. En hvað um það.
    En því tala ég um þetta hér að þarna eru EB-ríkin að finna sér aðra leið en þægindafánana til að hafa á skipum sínum fólk sem er miklu lægra launað og nýtur miklu verri starfskjara en fólk frá þeirra eigin ríkjum, þ.e. EB-ríkjunum. Og nú finnst mönnum kannski að ég sé að tala um kaupskipaflota í vitlausri umræðu og sé ég að hv. 3. þm. Reykv. kinkar kolli. En það vill svo til að ef formenn sjómmannasamtakanna hefðu ofurlitla innsýn í framtíðina, þá getum við spurt okkur sjálf: Þegar flutningafyrirtækin hafa leyfi til að hafa undirborgað fólk á sínum skipum, hvað halda menn að það líði langur tími þangað til þrautpínd íslensk fiskiskipaútgerð gerir kröfu um hið sama? Óttast menn ekkert að innan tíðar verði Filippseyingar á lágum launum á verksmiðjuskipunum okkar hérna eins og á farskipunum?
    Mér þótti rétt að benda á þetta, hæstv. forseti, og vel má vera að hv. þm. finnist þetta vera dálítið út úr umræðunni, en það er það nefnilega ekki. Slíkir hlutir eru ekki lengi að gerast og ég get fullvissað hæstv. forseta að af þessu hafa menn nú þegar áhyggjur, bæði innan Farmanna- og fiskimannasambandsins og innan sjómannafélaganna.
    Mér þótti rétt að benda á þetta hér. Auðvitað er þetta ekki, sem ég var að lesa, nú þegar samþykkt, en þetta er bein vísbending um það sem koma skal því allur þessi samningur og báðir samningarnir snúast fyrst og fremst um fjármagn en ekki fólk. En ég held að hver einasta manneskja sem ber einhverja virðingu fyrir þessari undirstöðuatvinnugrein okkar og því fólki sem við hana vinnur verði að reyna að sjá inn í framtíðina hvað þetta getur borið í sér.
    Ég leyfi mér að endurtaka það, hæstv. forseti, og skal ekki lengja þessa umræðu, að þann dag sem íslensk flutningaskip fá leyfi til að ráða fólk sem ekki þarf að tryggja félagslega, ekki þarf að borga sómasamleg laun, þá kemur útgerðin á eftir og heimtar slíkt hið sama.
    Ég vil a.m.k. ekki láta þennan samning fara í gegnum hið háa Alþingi án þess að vara við þessu. Ég býst ekki við að á það verði hlustað, en ég vildi gjarnan heyra hv. 1. þm. Vestf. aðeins lýsa því hvort hans samtök, og ég tala nú ekki um hv. 16. þm. Reykv. og hans félagar, hafa ekki á þessu nokkurn áhuga. Það er nefnilega hægt að komast fram hjá þægindafánum með því að búa til nýtt kerfi þar sem öll skilyrði eru nákvæmlega hin sömu.
    Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og hef þá a.m.k. varað við þessu atriði.