Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:38:16 (4692)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að þegar útskrift kemur af þessum umræðum í Alþingistíðindum komi í ljós að ég var að tala um þann þáttinn sem léttvægastur væri af þeim sem vörðuðu gagnkvæmnina. Auðvitað er það ekkert skrýtið, hæstv. sjútvrh., eða hvað, þó að einstakir gagnrýnisþættir andmælenda samningsins vigti misþungt í hugum manna. Ég teldi það frekar sérkennilegt ef menn legðu ekki eitthvað mismunandi gildismat á hina einstöku ágalla samningsins. Það er ósköp eðlilegt að það sé þannig.
    Ég tel langmesta og stærsta ókostinn þann að við erum að opna landhelgina fyrir flota Evrópubandalagsins. Það er stærsti einstaki ókosturinn við þennan samning og ég vísa til rökstuðnings og ályktunar Sjómannafélags Reykjavíkur í því sambandi, það eru mínir menn. Ég hef nákvæmlega sömu tilfinningar í þessu sambandi og þeir. Það er mesta áfallið að taka þetta skref aftur á bak, opna upp landhelgina fyrir flotum Evrópubandalagsins sem ekki hafa átt hér rétt til veiða á undanförnum árum. Ég þarf í raun og veru ekki frekar að aðhafast né flytja mitt mál í þeim efnum. Ég vísa til samþykktar Sjómannafélags Reykjavíkur sem að vísu er ekki studd af formanni þess félags.