Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:46:13 (4695)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. talaði um að rétt væri að ég játaði einhver mistök. Ég held að það væri rétt að hv. þm. Framsfl. játuðu frekar að þeir hefðu gengið einum of langt í því að tefla fram rökum gegn því að ekki væri um jafngildi veiðiheimilda að ræða. Þeir hafa lýst því yfir að flestir hefðu getað sætt sig við samning um skipti á jafngildum veiðiheimildum ef um hefði verið að ræða langhala og loðnu eins og var til umræðu í upphafi þessara samningaviðræðna. En þar var um að ræða langhala sem jafngilti 3.000 karfaígildum og 30 þús. lestir af loðnu, nákvæmlega sömu hlutföll og verið er að tala um. Verðmætahlutföllin á 3.000 lestum af karfa og 30 þús. lestum af loðnu eru nákvæmlega þau sömu þó að aðrar tegundir séu settar þar inn í. En nú hafa þingmenn flokksins lýst því yfir að þeir telji að flestir hefðu getað samþykkt slíkan samning þannig að ég held að þeim hv. þm. sé nær að viðurkenna að þeir hafi gengið einum of langt í þessari umræðu með því að reyna að leiða að því líkum að hér væri ekki um jafngildi að ræða. Í þessu efni hefur ekkert breyst frá því að verið var að tala um 3.000 lestir í karfaígildum og 30 þús. lestir af loðnu. Þau verðmætahlutföll eru nákvæmlega þau sömu nú og þau voru þá.