Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:22:49 (4714)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þetta er vondur samningur, óhagstæður og hættulegur okkur Íslendingum. Við afsölum okkur frumburðarrétti okkar Íslendinga til landsins og auðlinda þess til lands og sjávar. Þessi samningur kemur til með að færa okkur ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnuleysi. Samningurinn er stórt skref inn í Evrópubandalagið, en þangað tel ég að við Íslendingar eigum ekki að stefna.
    Þegar ég tók sæti á Alþingi undirritaði ég sem og aðrir þingmenn svohljóðandi drengskaparheit: ,,Ég undirskrifaður, sem kosinn er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því að viðlögðum drengskap mínum og heiðri að halda stjórnarskrá landsins.``
    Þessi samningur brýtur augljóslega í bága við hina íslensku stjórnarskrá. Drengskaparheit mitt vil ég halda. Frú forseti. Ég er fastákveðinn í að segja nei.