Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:44:41 (4727)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Hér eru að verða mikil tímamót. Í umræðum um þetta mál hafa verið flutt mörg varnaðarorð. En mestu varnaðarorðin voru landvættirnir e.t.v. að flytja okkur í gær þegar himinn og jörð skulfu í þann mund er Alþingi ætlaði að samþykkja EES. Nú er svo komið að allir flokkar að krötum undanskildum styðja svo að segja óskiptir tvíhliða viðræður í stað EES-samnings. Fyrri stefna Sjálfstfl. nýtur þess vegna fylgis meginþorra íslenskra alþingismanna í dag þegar við erum að ganga í EES. Sjálfstfl. skuldar sínum kjósendum skýringu á því hvers vegna hann hvarf frá tvíhliða viðræðum.
    Það liggur nú fyrir að við höfum látið undan þrýstingi EB sem krefst auðlinda okkar í stað tollfríðinda. Það blasir við að EB fái aðgang að landhelginni. Spyrja má: Til hvers var þá barist fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ef EB á að móta fiskveiðistefnu Íslendinga hér eftir? Og til hvers var barist við Dani fyrir sjálfstæði og lýðveldi um aldaraðir?
    Virðulegi forseti. Nú fer danskur maður með æðstu völd í EB svo við erum óbeint komin undir þeirra yfirráð á ný. Ég segi nei.