Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:02:42 (4736)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Afgreiðsla þessa frv. á Alþingi breytir ekki þeirri staðreynd að samningurinn um EES er ófrágenginn. Takist samningar um Evrópskt efnhagssvæði þarf málið að koma á ný fyrir þingið í formi lagafrv. Það ráðrúm sem þannig gefst ætti að nýta til að kanna hug þjóðarinnar til samningsins. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu hljómar stöðugt hærra. EES-samningurinn skerðir sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar og vald stofnana lýðveldisins. Samningurinn er brot á íslensku stjórnarskránni. Engin trygging er fyrir efnahagslegum ávinningi af samningnum í bráð eða lengd. Yfir landsbyggðina mun samningurinn kalla stórauknar þrengingar.
    Þjóðin, fólkið til sjávar og sveita, hugsar til Alþingis Íslendinga á þessari stundu. Ég fékk nú rétt fyrir þessa atkvæðagreiðslu kvæði frá konu sem búsett er í einum af dölum Borgarfjarðar vestra. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að lesa upphaf þess og lok:

        Vitið þið að vilji er allt sem þarf,
        við höfum fengið dáð og þrek í arf.
        Flanið ekki út á hálan ís,
        Evrópa er engin paradís.

        Eflum heldur okkar þjóðarhag,
        erjum, græðum kalið moldarflag.
        Stöndum saman, sýnum þor og þrótt,
        þá mun birta eftir dimma nótt.

    Ég tek undir þessa hvatningu og segi nei.