Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 12:06:06 (4776)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til lánsfjárlaga sem hefur mjög víðtækar efnahagslegar afleiðingar með einum eða öðrum hætti í okkar samfélagi og tengist að verulegu leyti efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í heild sinni. Það á ekki síst við vegna þess að inn í lánsfjárlög er farið að taka margvísleg ákvæði um málefni sem ekki tengjast beint lánsfjáröflun ríkisins. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti sem það er gert, en að mínu mati er of mikið af því gert. En aðalatriðið í þessu máli er eins og í öllum öðrum að reyna að gera sér grein fyrir heildaráhrifum efnahagsaðgerða á hverjum tíma því að nú skiptir meginmáli að framleiðsla samfélagsins verði aukin, verðmætasköpunin efld og menn nái um það friði að halda framleiðslunni gangandi og sæki fram á veg. Allt sem ríkisstjórn og ríkisvald gerir í þessu sambandi verður að hafa þetta að leiðarljósi. Þótt ég geti tekið undir að mikilvægt sé að reka ríkissjóð með sem minnstum halla um þessar mundir þá má ekki fara út í aðgerðir þar sem ríkir svo mikil skammsýni að alls ekki sé öruggt að þessar tekjur skili sér og geti líka orðið til að draga úr verðmætasköpuninni þannig að auka atvinnuleysi og minnka framleiðslu samfélagsins. Það er það sem stundum hefur gerst þegar ofuráhersla hefur verið lögð á fjármál ríkissjóðs að þannig hefur farið.
    Hér hefur verið nefnt eitt dæmi og hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að þar hafi átt sér stað mistök, þ.e. ákveðið var að hætta við endurgreiðslu á uppsöfnuðum virðisaukaskatti að því er varðar byggingarframkvæmdir að hluta og það hefur þau áhrif að lánskjaravísitalan hækkar um rúmlega 1%.
    Ég get tekið undir það með hæstv. ríkisstjórn að áhrif lánskjaravísitölunnar eru of mikil og ég er sammála því mati að það beri að endurskoða hana. Ég leyfði mér t.d. að spyrja fulltrúa bankanna hvort hægt væri að treysta á það að ef gerðar yrðu minni kröfur til híbýla manna hér á landi, t.d. með því að hætta við að gera þá kröfu að rafmagn væri jarðtengt, mætti tryggja að vextir lækkuðu. Þetta er svona að kröfur til híbýla endurspeglast í byggingarvísitölunni sem síðan kemur inn í lánskjaravísitölu og með því að gefa út nýjar reglugerðir um það hvernig gengið skuli frá húsnæði hér á landi er það alveg ljóst að það mundi verða til að lækka lánskjaravísitöluna.
    Ég held að allir geti verið sammála um að þetta er ekki efnahagsstjórnun sem eigi að grípa til en í sjálfu sér hefði hæstv. ríkisstjórn getað gert það. Hún hefur væntanlega vald á einhverjum reglugerðum í þessu sambandi. En auðvitað átti hæstv. ríkisstjórn að vera

það ljóst að aðgerð sem farið var út í að því er varðar virðisaukaskatt mundi hafa veruleg áhrif hér á fjármagnsmarkaðnum. Ég vil minna á að þegar greidd voru atkvæði um þetta mál þá minnti ég á þá staðreynd, þegar ég gerði grein fyrir afstöðu stjórnarandstöðunnar, að skuldir ríkisins mundu trúlega hækka við þessa ákvörðun um 600 millj. kr. Þetta mat er a.m.k. ekki fjarri lagi. Það er svona á bilinu 500--600 millj. eftir því sem ég nú hef fengið upplýst, en því miður vannst ekki tími til að fara betur ofan í þetta mál í vinnu efh.- og viðskn.
    Ég gat þess einnig að það hefðu verið gefnir út níu flokkar af húsbréfum upp á tæpa 40 milljarða þannig að húsbréfin mundu hækka um um það bil 400 millj. við þessa ákvörðun. Og síðan sagði ég, með leyfi forseta: ,,Síðan munu að sjálfsögðu eignir þeirra sem eiga peninga hækka að sama skapi. Þetta er ekki í neinu samræmi við ástand þjóðfélagsmála og lýsir best hversu röng verðtryggingin er við þessar aðstæður.`` Og ég vil jafnframt vitna til þess sem ég sagði í ræðu minni þann 18. des., þá sagði ég, með leyfi forseta:
    ,,En þetta er ekki eingöngu gagnvart ríkissjóði heldur gagnvart öllum einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Einstaklingarnir skulda samkvæmt lánskjaravísitölu, fyrirtækin skulda samkvæmt lánskjaravísitölu og þessi aðgerð verður til að hækka skuldir allra einstaklinga og fyrirtækja í landinu um 1%.`` --- En nákvæmlega mun það vera 1,07%. --- ,,Það er þetta flókna samspil ríkisfjármála, viðskiptakjara og þjóðartekna sem þarf að hafa meira í huga nú en nokkru sinni fyrr. Ég tel að við gerð þessa frv. hafi þetta ekki verið haft í huga eða í minna mæli en nokkru sinni fyrr. Það má vel vera að ég muni ekki alla hluti rétt eða sé ekki hlutlaus í þeim efnum, en ég man ekki eftir öðrum eins hringlandahætti í kringum afgreiðslu fjárlaga og nú er á Alþingi.``
    Ég vil rifja þetta upp vegna þess að hverjum og einum mátti vera ljóst að þessi aðgerð mundi hafa veruleg áhrif á lánsfjármarkaðinn. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er lítið til þess tekið þótt við í stjórnarandstöðunni séum að rifja upp slíkar staðreyndir og gjarnan haldið fram að við séum með málþóf og málalengingar á Alþingi. Ég vil hins vegar minna hæstv. ríkisstjórn á það að málefnaleg stjórnarandstaða er mikilvæg hverju lýðræðisþjóðfélagi og það er öllum hollt að hlusta á slíka gagnrýni og jafnframt er mikilvægt að virða það að betur sjá augu en auga og a.m.k. í þessu tilviki tel ég að stjórnarandstaðan hafi gert grein fyrir hugsanlegum afleiðingum af þessu tiltæki. Hins vegar ber að virða það að aðilar vinnumarkaðarins komu auga á það hvað hér var á ferðinni en ég get vel tekið undir það að í umsögnum þeirra var þessa máls ekki nægilega vel gætt. En þó vil ég á það minna að Landssamband iðnaðarmanna var með mjög afdráttarlausa umsögn í þessu máli og mótmælti því harðlega og bætti m.a. við, með leyfi forseta:
    ,,Ekki bætir úr skák að í þessu frumvarpi er vegið að hag húsbyggjenda og byggingariðnaðarins úr mörgum fleiri áttum, þ.e. með skerðingu vaxtabóta, skerðingu skattfrádráttar vegna húsnæðissparnaðarreikninga og sérstakri skattpíningu og óréttmætum skattareglum varðandi atvinnurekstur í eigin nafni.``
    Þetta er dæmi um viðbrögð sem voru þá uppi um þessi mál og voru óvenjuhörð. Það er vissulega rétt að skattbreytingum og skattahækkunum hefur iðulega verið mótmælt en ég man ekki eftir jafnhörkulegum viðbrögðum og voru við því frv. sem hér var til umfjöllunar.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að taka þessa ákvörðun til baka af þeim ástæðum sem hafa verið greindar og við bentum m.a. á. Það er vel því ég held að það sé nokkuð ljóst að ríkissjóður hefði haft afar lítið út úr þessari skattabreytingu ef þá nokkuð. A.m.k. var mér þó ljóst og er alveg ljóst jafnt í dag sem þá að þessi ákvörðun hefur svo óheppileg áhrif á fjármagnsmarkaðinn að það hlýtur að vera skynsamlegt að taka hana til baka. Hitt er svo annað mál, ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst bankarnir ganga einum of langt í því að telja að þessi ákvörðun réttlæti þeirra gerðir í einu og öllu. Mér finnst að forustumenn bankanna í landinu hafi látið í það skína að aðgerðir sem hafa áhrif á byggingarvísitöluna ráði mjög ákvörðunum þeirra um vaxtamál og ef það ætti að taka þá alvarlega þá mundi það væntanlega hafa sambærileg áhrif ef ríkisstjórnin mundi

ákveða að breyta reglugerðum um híbýli manna þannig að byggingarvísitalan lækkaði. Það er þá kannski orðin hin æskilega handstýring á vöxtum í samfélaginu, að menn stýri vöxtunum með því að breyta reglugerðum um byggingar landsmanna. Þótt ég sé ekki hrifinn af framkomu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli þá get ég heldur ekki sagt að ég sé mjög hrifinn af viðbrögðum bankanna. Þeir hafa haldið því fram, fram að þessu a.m.k., að það sem skipti meginmáli í sambandi við ákvarðanir að því er varðar vexti væri framboð og eftirspurn. Mér er það ljóst að vaxtahækkanir undanfarið eiga að einhverju leyti rót sína að rekja til þess að bankarnir hafa orðið fyrir verulegum töpum. Það eru líka takmörk fyrir því hvað bankarnir geta sótt mistök eða töp í sambandi við útlán til annarra lántakenda eða þá lagt það á sparifjáreigendur. Bankarnir verða líka að taka tillit til þess að það eru takmörk fyrir því hvað atvinnurekstur getur staðið undir miklum vöxtum og eftir því sem vextirnir verða hærri þeim mun meiri líkur eru til þess að fyrirtækin verði gjaldþrota og þar með aukast líkur á því að bankarnir verði fyrir mun meiri töpum. Þannig að þótt mér finnist að það vanti heildarsýn hjá núv. ríkisstjórn þá finnst mér líka vanta heildarsýn hjá íslenska bankakerfinu. Ég get ekki tekið undir það með þeim að allar vaxtahækkanir eigi rót sína að rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar, en þeir hafa nokkuð verið í þeim málflutningi, þótt ég sé ekki mikið fyrir það að taka upp varnir fyrir hæstv. ríkisstjórn og hafi ekki fundið hjá mér neinn sérstakan vilja til þess, þó ég vilji gæta sanngirni í hennar garð.
    Það má segja að þessi gagnrýni sem ég hef viðhaft í þessu máli eigi jafnframt við um ýmsar aðrar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í skatta- og efnahagsmálum. Ég vil nefna það sem dæmi að við héldum því fram að það væri líklegt að sérstakur virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna gæti leitt til þess að umsvif hennar mundu minnka verulega, atvinnuleysi aukast og tekjur ríkisins dragast saman. Þessi atvinnugrein er einn helsti vaxtarbroddur í íslensku efnahags- og atvinnulífi og það er talið að hér sé um verulega möguleika að ræða ef rétt er á haldið í framtíðinni. Undir það vil ég taka og ég tel líka ástæðu til að taka undir það að mikil hætta er á því að með óhóflegri skattlagningu á þessa grein verði dreginn úr henni krafturinn, þar muni aukast svartsýni og ekki verði lagt út í markaðsöflun og fjárfestingar sem annars væri hægt að leggja í. Þetta muni því draga úr framleiðslu samfélagsins, auka atvinnuleysi, þar með auka útgjöld ríkisins vegna atvinnuleysisbóta og minnka skatttekjur ríkisins til lengri tíma litið. Þetta tel ég vera málefnalega gagnrýni og ég er undrandi á því að ekki skuli hafa farið fram nein athugun á því hverjar væru hugsanlegar afleiðingar slíkrar ákvörðunar.
    Ég vil minna á það að við í stjórnarandstöðunni fórum þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún legði mat á þessa ákvörðun sem hún gerði en hafði hins vegar mjög stuttan tíma til þess og ég tel að þarna hafi þurft að fara fram miklu ítarlegri athugun. Ég vil í þessu sambandi minna á að það var umræða í Danmörku fyrir stuttu síðan um það hvort ætti að breyta reglum um virðisaukaskatt að því er varðar gistingu. Nú eru í sjálfu sér allt aðrar aðstæður í Danmörku því þar er miklu meiri viðskiptamiðstöð og mikið um það að aðilar komi þangað vegna samskipta við EB o.s.frv. þannig að heimsóknir þangað eru ekki eingöngu tengdar ferðamönnum heldur í mun meira mæli vegna viðskipta en hér á Íslandi þó það sé vissulega vaxandi hér um slóðir. En það var metið af nokkrum aðilum, hversu ábyrgir sem þeir eru, að þetta mundi leiða til þess að til lengri tíma litið væri um þúsundir starfa að ræða og það er ekkert lítið mál. Þ.e. það var mat aðila þar að sú breyting sem þar stóð til, en varð nú ekki úr, mundi valda því að 2.000 störf sköpuðust þá þegar en þegar til lengri tíma væri litið þá var það mat aðila, sem kunni til mála í þessu fagi, að þar gæti verið um að ræða 10.000 störf. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvað réði ákvörðunum Dana í þessu sambandi að fallast ekki á þessa breytingu, ég býst við að það hafi verið m.a. með tilliti til stöðu ríkissjóðs, en umræðan þar fór fram einmitt á þessum grundvelli því atvinnuástand þar um slóðir er jafnframt mjög slæmt og jafnvel verra en hér á Íslandi þó það sé ekki ástæða til að fara í einhvern samjöfnuð um það.
    Það er hins vegar athyglisvert að skömmu eftir að þessi ákvörðun er tekin á Alþingi þá birtist viðtal við hæstv. samgrh. Halldór Blöndal í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins og það viðtal virðist hafa verið tekið við hann eftir að hann var kominn erlendis

og eftir því sem ég get komist næst þá er þetta viðtal tekið við hann í gegnum síma í Kaíró. Ég vildi vitna til þessara ummæla hæstv. samgrh. skömmu eftir að þessi ákvörðun er tekin. Ég skynja það þannig að hæstv. samgrh. hafi fengið alveg nýja innsýn í þetta mál við það að tala við starfsbróður sinn í Kaíró. Það er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt að menn verði fyrir svo djúpstæðum áhrifum. Þótt mönnum finnist heldur leiðinlegt að hlusta á stjórnarandstöðuna þá þykir mönnum þeim mun athyglisverðara það sem menn segja í Egyptalandi. Þetta er allt af hinu góða ef niðurstaðan verður jákvæð. En hæstv. samgrh. sagði eftirfarandi:
    ,,,,Mér fannst athyglisvert að heyra hjá starfsbróður mínum í Kaíró að ferðaiðnaður er sú atvinnugrein sem skilar Egyptum mestum tekjum,`` segir Halldór. ,,Egypski ráðherrann hefur unnið að einkavæðingu ferðaþjónustu en stjórnvöld styðja greinina á ýmsan hátt með skattaívilnunum t.d. Ef við Íslendingar ætlum að taka þátt í samkeppni á þessu sviði verðum við að lækka verð og það gengur ekki nú að hækka álögur á ferðaþjónustu.````
    Nokkrum dögum eftir að hæstv. samgrh. samþykkti það að leggja auknar álögur á ferðaþjónustuna og taldi ekki ástæðu til að svara spurningum eða málefnalegri gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni í þessu máli þar sem við m.a. vitnuðum til þess að það hefði verið ákveðið að taka upp sérstakar viðræður við ferðaiðnaðinn um þessi mál en aðilar í þessari þjónustu töldu að það væri undarlegt svar að fá það í formi þessa frv. Fyrst höfðu verið teknar upp viðræður, allt í miklu bróðerni og allir af vilja gerðir til að auka og efla þessa atvinnugrein, síðan er sent svarið, hækka á ykkur skattana þannig að þetta muni breytast og verðið hækka. Síðan skreppur samgrh. til Kaíró og þá er komin enn ný stefna.
    Ég vildi spyrja hæstv. forsrh. sem gegnir starfi fjmrh. og er það vel, ekki síst ef eru uppi deilur milli hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. í þessu máli, hvort ekki muni verða gerð breyting á frv. til laga um breytingar í skattamálum til samræmis við þessa nýju stefnu hæstv. samgrh. sem hann hefur nú boðað. Þetta er jafnframt dæmi um fljótræðislega ákvörðun sem ekki var studd nægilega góðum rökum þegar litið er til heildarhagsmuna samfélagsins. Það var alveg eins með ákvörðunina um það að breyta endurgreiðslum á virðisaukaskattinum. Það var rökstutt með því að ríkissjóður þyrfti á þessum peningum að halda. Það geta allir verið sammála því að ríkissjóður þarf á meiri peningum að halda og það er ekki gott dæmi sem hæstv. ríkisstjórn þarf þar við að eiga. En það er til lítils að fá peninga inn í ríkissjóðs ef jafnmikið fer út aftur af einhverjum öðrum ástæðum vegna sömu ákvörðunar eða þá að peningarnir koma alls ekki inn og þar að auki verði það til þess að auka atvinnuleysi á þessum viðkvæmu tímum.
    Sama má segja um ákvarðanir að því er varðar bókaútgáfuna. Þar færðu menn fram allgild rök um það að þetta gæti orðið til þess að atvinna við prentun og útgáfu tímarita og bóka mundi að verulegu leyti detta niður af þeim ástæðum að taka upp virðisaukaskatt. Þetta var stutt ítarlegu áliti frá bókaútgefanda og tímaritaútgefanda hér í bær þar sem hann sýndi fram á það samkvæmt sínum útreikningum að þessi ákvörðun mundi leiða til taps fyrir ríkissjóð. Það vannst heldur ekki tími til að ræða þessa útreikninga eða fara ofan í málið með skipulegum hætti, til þess var enginn tími, og þar að auki er mér alveg ljóst að það var mikið álag á embættismenn fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar sem vöktu daga og nætur við að koma saman frv. fyrir ríkisstjórnina einn daginn, breyta þeim svo næsta dag og lagfæra og lesa yfir á næturna. Þannig að undir þessum starfsskilyrðum er erfitt að fá vit í hlutina hvort sem það er vegna vöku embættismannanna eða vöku ráðherranna. Þeir hafa haft þann sið þegar mikið liggur við að vera á löngum fundum fram eftir öllum nóttum, sem er út af fyrir sig virðingarvert, en ég er ekki þeirrar skoðunar að það leiði alltaf til skynsamlegrar niðurstöðu.
    Síðan má nefna skattamálin almennt og skattaákvarðanirnar í ljósi kjaramálaumræðunnar. Það hefur komið fram hjá verkalýðshreyfingunni að þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók í skattamálum muni leiða til átaka á vinnumarkaði. Ástæðan er sú að Alþýðusambandi Íslands, BSRB, BHMR, Dagsbrún og í reynd öllum verkalýðssamtökum í landinu þykir þessar ákvarðanir óréttmætar og þar sé skattbyrðinni ekki dreift með þeim hætti

að jöfnun ríki meðal landsmanna. Það er hins vegar merkilegt að þessi samtök eru þeirrar skoðunar að það verði ekki hjá því komist að sköttum verði breytt og meiri álögur verði lagðar á fólk. Það er a.m.k. hjá mörgum verkalýðssamtökunum afstaðan að það sé eðlilegt að hækka skatta eitthvað. Hins vegar verði að gera það með réttmætari hætti. Hvað átt er við með réttmætari hætti má vitna til þeirra umsagna um þau mál sem eru langar og ítarlegar og ég ætla ekki að fara að rekja hér. En ríkisstjórnin hefur ekki talið ástæðu til að ganga til móts við þessar óskir og hefur þess í stað verið með ásakanir á hendur stéttarsamtökunum um að þau hefðu viljað gera miklu verri hluti en ríkisstjórnin sjálf vildi gera, þótt hún sé heldur slæm þá séu þau enn þá verri. Þetta er skynsamlegt samskiptaform af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka upp slíkan skæting á viðkvæmum tímum. Ég vænti þess að m.a. þessi ákvörðun sem nú hefur verið tekin sé gerð í ljósi þess að reyna að koma á vinsamlegri samskiptum enda hafa menn tekið þessu skrefi vel og gengið út frá því að hér sé um fyrsta skref að ræða.
    Það sem gerir málið líka erfitt og veldur ólgu eru þær væntingar sem núv. stjórnarflokkar hafa skapað meðal sinna kjósenda í þessum málum. Sjálfstfl. lagði á það mesta áherslu fyrir síðustu kosningar að safna fylgi með þeim hætti að hann væru eini flokkurinn í landinu sem lofaði því að hækka ekki skatta og síðan lofaði hann því að skattarnir yrðu lækkaðir og það gekk svo langt að frambjóðendur í Reykjavík munu hafa lofað því að skattprósentan færi í 35%. ( Forsrh.: Ég kannast ekki við það.) Nei, 1. þm. Reykv. kannast ekki við það en ég hef séð tilvitnanir í þessu sambandi. Nú veit ég ekki hvort þau loforð hafa verið gefin með samþykki formanns flokksins, það má vel vera, en ég tel nauðsynlegt þar sem hæstv. forsrh. kannast ekki við þetta að fá þá úr því skorið hver hafi sagt þetta og hver hafi gefið slík loforð. En ég hef séð tilvitnanir í þessu sambandi. Ég hygg þó að hæstv. núv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. hafi lofað því að lækka skatta án þess að tilgreina nákvæmlega hvað þeir ættu að lækka mikið og ég á von á því, hæstv. forsrh., að þínir kjósendur hafi almennt trúað því að með því að kjósa þinn flokk þá væri það trygging fyrir því að skattar mundu alls ekki hækka og síðan mundu þeir lækka. Það var sérstaklega rekinn sá áróður að með því að kjósa okkur hina alla, eins og gjarnan er sagt, þá sé það sérstök trygging fyrir skattpíningu, að við séum alveg gangandi ásýnd skattahækkana og skattpíningar og það sé alveg öruggt að því munum við beita.
    Ég vil taka það fram í þessu sambandi að það er ekki skoðun mín og var ekki skoðun mín fyrir síðustu kosningar og ekki skoðun Framsfl. að það ætti að beita skattahækkunum. Hins vegar sagði formaður flokksins af varkárni að hann vildi ekki útiloka það að þær aðstæður gætu orðið að það yrði að gera. Það varð sérstakt árásarefni af hálfu forustumanna Sjálfstfl. vegna þessara ummæla og þau túlkuð með þeim hætti að þarna væri Framsfl. lifandi kominn og væri í reynd að boða skattahækkanir. Þannig verður að sjálfsögðu að meta þessi mál í ljósi þess hvað menn hafa sagt og hvað menn standa við. Það er alveg deginum ljósara að það er verið að hækka skatta og það hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti. Ég tel enga ástæðu til að vera að rifja það upp. En alveg sama hvað sagt er í þeim efnum, hæstv. fjmrh. kemur og segir: Þetta er nú ekki skattahækkun. Og jafnvel breyting á endurgreiðslu á virðisaukaskatti er t.d. að mati hæstv. fjmrh., og ég hygg hæstv. forsrh. líka, ekki skattahækkun. Það að draga úr undanþágum að því er varðar virðisaukaskatt, t.d. að því er varðar húsbyggjendur, það er ekki skattahækkun að mati ríkisstjórnarinnar. Hins vegar ef það væri látið standa og virðisaukaskatturinn hækkaður þannig að útkoman yrði sú sama þá skilst mér að það sé að mati ríkisstjórnarinnar skattahækkun. Það að minnka barnabætur er heldur ekki skattahækkun að mati ríkisstjórnarinnar. Það að minnka persónuafslátt er heldur ekki skattahækkun að mati ríkisstjórnarinnar. ( KSG: Það er bara verið að minnka hann.) En ef skattprósentan er hins vegar hækkuð þá er það skattahækkun, jafnvel þó að áhrifin á kaupmátt launþeganna og ráðstöfunartekjur launþeganna sé sú sama. Það má náttúrlega lengi mótmæla skattahækkunum með svona röksemdafærslu en ég tel að hún sé svo gegnsæ að ég er hissa á forustumönnum Sjálfstfl., sem jafnframt eru kjörnir forustumenn þjóðfélagsins í dag, skuli halda fram slíkum röksemdum. Af hverju koma þeir ekki fram og segja: Því miður þá er hér ástandið með þeim

hætti að við teljum að það verði að hækka skattana þrátt fyrir það sem við sögðum. Og viðurkenna það einfaldega með heiðarlegum hætti að þeir hafi orðið að gera þetta í stað þess að standa ár eftir ár og mótmæla því að þeir hafi framkvæmt skattahækkanir. ( Forseti: Forseti vill spyrja ræðumann hvort hann sé að ljúka máli sínu því ætlunin var að gera hlé í þrjú kortér. Ef þingmaðurinn er að ljúka máli sínu þá vill forseti leyfa honum það, annars að óska eftir því að hann fresti ræðu sinni.) Ekki er það nú alveg, hæstv. forseti, ég á ekki mikið eftir en allnokkuð þannig að ég tel réttara að ég fresti ræðu minni, að beiðni forseta. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég var í ræðu minni að fara nokkrum orðum um skattamálin almennt og ég hef orðið þess áskynja að það eru ekki aðeins við í stjórnarandstöðunni sem erum efins um margt sem hefur verið gert í skattamálum heldur er mjög mikil óánægja af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna er eðlilegt að það sé spurt við þessa umræðu hvort ekki standi til að taka upp viðræður við þá aðila um þessi mál almennt þannig að hægt verði að tryggja réttlátari skattabyrði á einstaklinga í landinu. Ég held að það verði að líta á það mál í þjóðhagslegu samhengi miðað við þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi í atvinnu- og efnahagsmálum. Þessu vildi ég koma að í þessari umræðu þótt það hafi verið ítarlega um það talað áður. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon hefur gert ýmislegt að umræðuefni en ég vildi þó aðeins víkja að málum sem ekki hafa verið skýrð með fullnægjandi hætti í efh.- og viðskn. Við áttum satt best að segja von á því að það kæmu til nefndarinnar upplýsingar um atriði sem varða hagsmuni sjávarútvegsins. Það hefur verið á það bent að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að það standi til að endurgreiða það með einum eða öðrum hætti sem útgerðin hefur þurft að greiða fyrir veiðiheimildir til ríkissjóðs. Þessi yfirlýsing hefur aldrei verið tekin til baka en það hefur hins vegar verið tekið sterkt til orða og ég ætla ekki að fara að rifja það upp hér. Það er mjög bagalegt þegar slík mál eru í óvissu.
    Ég sé að hæstv. samgrh. er kominn í salinn og ég vildi þess vegna ítreka þá spurningu sem ég lagði að vísu fyrir hæstv. forsrh. en er nauðsynlegt að hæstv. samgrh. svari einnig hér þar sem hann svaraði í engu þeirri gagnrýni sem við bárum fram að því er varðaði ferðaþjónustuna á síðasta ári, en stuttu eftir að hæstv. samgrh. greiddi atkvæði með því á Alþingi virðist hann hafa skipt um skoðun í Kaíró eftir samtöl við samráðherra sinn í því landi og virðist því hafa breytt um stefnu með sama hætti og hæstv. forsrh. gerði að því er varðaði endurgreiðslu á virðisaukaskatti því hæstv. samgrh. sagði eftirfarandi í viðtali eftir viðtal við egypska ráðherrann: ,,Ef við Íslendingar ættum að taka þátt í samkeppni á þessu sviði verðum við að lækka verð og það gengur ekki nú að hækka álögur á ferðaþjónustu.``
    Ég hafði því vænst þess, hæstv. samgrh., að eftir þessar athyglisverðu viðræður þínar í Kaíró og nýjar skoðanir sem komu í framhaldi af þeim samtölum, þá kæmi hér jafnframt frv. til laga um breytingar á þessu sviði í samræmi við þá nýju stefnu sem þú hafðir þarna boðað. Þessu tel ég nauðsynlegt að hæstv. samgrh. svari.
    En ég vildi aðeins víkja að málefnum sjávarútvegsins og það er gott að hæstv. sjútvrh. er hér jafnframt en það mátti skilja á honum að þau mál er varðaði Hagræðingarsjóðinn væru í höndum forsrh. og það væri hans að leiða það mál til lykta eftir þau átök sem urðu um það mál á síðasta sumri. Það væri orðið efnahagsmál og ég skildi það svo að það væri í höndum forsrh. en það hefur því miður ekkert heyrst frá hæstv. forsrh. um það mál.
    Síðan er annað mikilvægt mál sem við höfum heyrt um í fjölmiðlum, það er mál sem hefur gengið undir nafninu þróunarsjóður. Það má vera með ólíkindum að hægt sé að koma þeim sjóði á stofn nema með heimildum samkvæmt lánsfjárlögum eða breytingum á lögum. Það hefur verið látið í veðri vaka að um þetta mál væri samstaða innan ríkisstjórnarinnar og skal ég ekkert um það segja og það hefur verið boðað að þetta mál yrði kynnt á Alþingi. Við áttum því von á því, hæstv. sjútvrh., að það kæmi til umfjöllunar í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga og ég vildi spyrja um það án þess að ég treysti mér til að fara mikið út í efnisatriði þess máls á þessu stigi, enda hef ég ekkert um það séð annað en það sem við höfum getað lesið um í blöðum. Mér er hins vegar ljóst að samkvæmt ákvæðum í lögum átti að ljúka endurskoðun fiskveiðistefnunnar í árslok 1992 og samkvæmt lögunum átti það að gerast í samráði við sjútvn. Alþingis. Mér er ekki kunnugt um að þessari endurskoðun sé lokið og ég vil spyrja um það með hvaða hætti ríkisstjórnin hafi hugsað sér að uppfylla þetta ákvæði laganna. Mér er a.m.k. kunnugt um það að það hefur ekkert samráð verið haft við sjútvn. Alþingis um þetta mál. Það voru að vísu fyrr á síðasta ári einn eða tveir fundir haldnir um þetta mál að okkar beiðni en við fengum þar nánast litlar sem engar upplýsingar og því getur það ekki gengið undir nafninu samráð. Þrátt fyrir lagaákvæði þar um þá hefur ekkert samráð verið haft við sjútvn. Alþingis um þetta mál. Það hefur hins vegar komið fram að ríkisstjórnin hafi lokið endurskoðun fiskveiðistefnunnar með því að koma sér saman um það að þessum þróunarsjóði yrði komið á fót með einhverjum ótilteknum hætti og er nú kominn tími til að það sé upplýst fyrir Alþingi.
    Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um það mál þótt það væri vissulega ástæða til þess en ég tel að það sé ekki hægt að ganga frá afgreiðslu lánsfjárlaga nema einhverjar upplýsingar komi fram um stöðu þessa máls. Þær upplýsingar var ekki hægt að veita í efh.- og viðskn. og við hljótum því að gera kröfur um það að hæstv. ráðherrar skýri frá því hver sé staða þessa máls.
    Ég vil geta um eitt mál sem kom til umfjöllunar í nefndinni á lokastigi, það eru málefni járnblendiverksmiðjunnar. Það hefur verið upplýst að þetta fyrirtæki á í miklum erfiðleikum og það hefur verið metið svo að það sé mögulegt að fleyta því yfir erfiðasta hjallann í þeirri von að verðlag á þessum afurðum muni breytast til hins betra. Ég tel það vera sjálfsagt mál að það sé tekið til mjög alvarlegrar skoðunar að hjálpa þessu fyrirtæki sem er að miklu leyti í eigu íslenska ríkisins, m.a. í því augnarmiði að verja hagsmuni ríkisins í þessu máli ef það er mat manna að hér muni verða breyting á. Það eru miklar sveiflur í þessari atvinnugrein með sama hætti og það urðu miklar sveiflur í ýmsum öðrum atvinnugreinum og mér finnst það fyllilega koma til álita að líta á slík mál af fullri alvöru, ekki síst í því atvinnuástandi sem nú er.
    Ég verði hins vegar að segja það alveg eins og er að við í efh.- og viðskn. höfum nánast engar upplýsingar fengið um þetta mál til þess að geta lagt á það mat. Þegar ég fór hér í ræðustól þá fékk ég að vísu greinargerð frá járnblendiverksmiðjunni sem ég hafði ekki haft tilefni til að lesa enda verður nú að líta á að ýmislegt sem þetta fyrirtæki varðar verði að vera trúnaðarmál og það vil ég að sjálfsögðu virða. En ég tel það útilokað fyrir Alþingi að samþykkja heimildir í þessu sambandi nema við fáum gögn um málið. Það má vel vera að hv. þm. sem styðja ríkisstjórnina hafi fengið aðstöðu til þess að kynna sér þau gögn. En ég tel að það sé eðlilegt að við fáum það líka í stjórnarandstöðunni þannig að slík mál fái eðlilega umfjöllun. Ég hef beðið um að fá að sjá ársreikning þessa fyrirtækis. Ég hef beðið um að fá að sjá rekstraráætlanir fram í tímann og þessi gögn hef ég ekki séð. Síðan á að greiða hér um það atkvæði hvort menn vilja veita þessar heimildir eða ekki, og ég skal játa að mér er mikill vandi á höndum í þeim efnum. M.a. vegna þess að ég vil líta af velvilja til þessa máls eins og ég skil að hæstv. ríkisstjórn vill gera. Ég hef yfirleitt vanist því hér á Alþingi þegar ábyrgðir af þessu tagi hafa verið veittar, m.a. til Flugleiða á sínum tíma, að þá hafi legið fyrir ítarleg gögn um það mál. Ég hef líka vanist því að því er varðar önnur fyrirtæki sem hafa verið veittar ábyrgðir fyrir, t.d. eins og flugfélagið Arnarflug, þótt ég skuli nú játa að það hefði mátt taka meira mark á því hvernig staða þess fyrirtækis leit út og ég er þeirrar skoðunar að þar hafi nú stundum verið gengið heldur langt í ábyrgðum miðað við það hvernig ársreikningar þess fyrirtækis litu út. En a.m.k. fyrir okkur sem erum vanir því að meta stöðu fyrirtækja út frá því hver er þeirra efnahagur og líta á rekstraráætlanir fram í tímann þá finnst mér það vera eðlileg beiðni að við fáum að líta á þau gögn. Ef menn telja að það eigi að vera trúnaðargögn þá vil ég virða það. En ég vænti þess því að milli 2. og 3. umr. fáum við tækifæri til þess að fara yfir það mál, að tími sé gefinn til þess að forsvarsmenn slíks fyrirtækis komi til fundar við þá nefnd í þinginu sem hefur með þetta mál að gera. Það er ekki hægt að líða það að litið sé á Alþingi í þessu sambandi sem einhverja afgreiðslustofnun og það beri að afgreiða

mál með slíkum hraða hér að það sé ekki tími til að líta á þau. Þetta hefur því miður einkennt störfin að undanförnu, e.t.v. vegna þess hér hafa verið önnur stórmál á ferðinni og menn hafa ekki gefið sér nægilegan tíma í önnur mál sem skipta miklu máli en ég vil því ítreka það að lögð verði fram frekari gögn í þessu máli og það sé gerð eðlileg grein fyrir því.
    Ég vil, virðulegi forseti, ekki fara frekar inn á þessi atriði hér í minni fyrstu ræðu. Ég vænti þess að ég fái svör við þeim spurningum er varða lánskjaramálin sem að vísu hefur verið svarað að verulegu leyti af hæstv. ríkisstjórn. Ég vænti þess að ég fái svör um það hvað hugmyndin sé að gera að því er varðar málefni sjávarútvegsins og boðað hefur verið og við áttum von á að kæmi hér inn. Ég vænti þess að ég fái frekari svör um það hver sé stefna ríkisstjórnarinnar að því er varðar samskipti við aðila vinnumarkaðarins og viðræður við þá um breytingar á áherslum í bæði skattamálum og í þessu frv. og ég vænti þess að ég fái svör um það hvort það sé ekki hugmyndin að fylgja hinni nýju stefnu samgrh. sem hann hefur boðað og ég tel að sé skynsamleg og vænti þess að það verði upplýst hvenær henni verður hrint í framkvæmd.