Grunnskóli

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:59:30 (4789)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í máli framsögumanns kom það fram að ekki hefði náðst samkomlag um að afgreiða málið fyrir jól sem hefði verið afar slæmt. Í þessu felast óbeinar ásakanir á stjórnarandstöðu fyrir að hafa tafið framgang málsins og mér þykir því rétt að það komi fram að 1. umr. um þetta mál tók afar skamman tíma og í öðru lagi að frv., þó stutt sé og ætla mætti fljótsamið, kom ekki fram fyrr en fáum dögum fyrir jól. Það var því stjórnarliðum og menntmrh. í lófa lagið að leggja frv. nægjanlega snemma fram á haustþingi til þess að það hlyti afgreiðslu. Eina ástæðan fyrir því að frv. náði ekki fram að ganga fyrir jólahlé var hversu seint það var fram lagt og engum öðrum um að kenna en hæstv. menntmrh.