Framleiðsla og sala á búvörum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:36:45 (4843)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það getur vel verið að það sé vit í því að leggja skatta á framleiðendur til þess að niðurgreiða útflutning eða koma kjöti af innanlandsmarkaði. Gagnrýni mín beindist ekki að því. Ég er ekkert að efa að það kunni að verða haft símasamband við stéttarsambandsfulltrúana og málið kynnt fyrir þeim. En með því móti gefst þeim ekki færi að ræða saman í heyranda hljóði og bera saman bækurnar. Það finnst mér að gæti verið gagnlegt í stöðunni.
    Það er heldur engin goðgá að búast við því að þeir ræddu eitthvað fleira en þetta í leiðinni og reyndu sameiginlega að leita leiða út úr þeim mikla vanda sem bændastéttin er stödd í. Þetta er ekki stórt mál í sjálfu sér. Ég er fyrst og fremst að vara við þeirri aðferð sem hér er viðhöfð því að hún hefur ákveðið fordæmisgildi. Þetta kann að þróast út í það að stjórn stéttarsambandsins hafi opna heimild til þess að semja fyrir hönd bændastéttarinnar án samráðs við fulltrúafund, semja af bændastéttinni eða e.t.v. fórna hagsmunum hennar ef henni þætti það hentugt. Þetta mundi gera fulltrúafundi stéttarsambandsins þýðingarlausa.
    Nú ætla ég að biðja menn að taka það ekki svo að ég telji að það sé í öllum tilfellum sem stjórn stéttarsambandsins fórnar hagsmunum stéttrinnar. En þetta gerði fundi stéttarsambandsfulltrúa þýðingarlausa. Þeir voru a.m.k. upplýsandi og gagnlegir þegar ég átti þar sæti, sem er að vísu orðið nokkuð langt síðan. Ég tel víst að stéttarsambandsfulltrúum sé hentugt að heyra ræður hvers annars víðar en í símanum, og vitna hér til stéttarsambandsfulltrúans sem var rétt áðan að skýra mál sitt.
    Ég er alveg á móti þeirri aðferð, bæði hjá stéttarsambandinu og eins á Alþingi, þó að oft höfum við nú tekið þátt í einhverju hliðstæðu, að vera að staðfesta eftir á. Við erum að staðfesta lög hér eftir á, eftir að búið er að framkvæma þau og stöndum frammi fyrir gerðum hlut. Það finnst mér ekki góð aðferð. Ég held menn eigi að reyna að forðast það og hafa það samráð sem nauðsynlegt er fyrir fram. Annars ætla ég ekki að fara að gera þetta litla mál að neinu stórmáli.