Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:09:56 (4853)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Frsm. minnihlutaálits, hv. 9. þm. Reykv. hefur gert ítarlega gein fyrir því nál. sem minni hluta hv. menntmn. skilaði og skal ég reyna að endurtaka ekki mjög mikið af því sem hann sagði. Sannleikurinn er sá að þetta er tiltölulega sakleysislegt frv. séð í fyrstu en hefur að geyma ákvæði sem eru mjög mikilvæg í skólastarfi og uppeldisstarfi fyrir okkar þjóðfélag þegar til lengri tíma er litið. Með því á að spara 100 millj. kr. á ársgrundvelli og þykja mér það ekki miklir fjármunir þegar ég hugsa til þess sem það hefur í för með sér.
    Það kom fram hjá hæstv. menntmrh. í ræðu hans og það kom reyndar fram líka hjá frsm. meiri hluta hv. menntmn. að þetta frv. er lagt fram án þess að ráðuneytin né meiri hluti nefndarinnar viti á hverju þetta bitnar. Það kom fram hjá hæstv. menntmrh. áðan að þetta lendir að einhverju leyti á íslenskunni, eins og hann orðaði það. Nú skal ég benda hæstv. menntmrh. á það að fyrst hann er nú búinn að átta sig á því að þetta lenti á íslenskunni að einhverju leyti, sem hann sagði hér fyrir um það bil ári að mætti alls ekki

gerast og ætti alls ekki að gerast, að það er ekkert of seint að draga frv. til baka.
    Mig langar hér í upphafi, hæstv. forseti, til þess að vitna í orð hæstv. ráðherra frá 20. jan. á síðasta ári. Fyrir rétt um það bil ári sagði hæstv. ráðherra m.a. þetta eftir það að fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfðu gert nokkuð harða hríð að hæstv. ráðherra og eins fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands og foreldrum og fleiri aðilum:
    ,,Það er látið að því liggja í málflutningi einstakra þm. og hjá talsmönnum kennarasamtaka að það eigi að gera eitthvað allt annað en þetta. Það er talað um að það eigi að skerða kennslu í íslensku og síðan er talað um að þessi niðurskurður jafngildi því að hætt verði kennslu sex ára barna, að hætt verði kennslu í tungumálum, að lagðir verði niður heilu skólarnir og að 200 stöðugildi kennara verði lögð niður. Þetta er ekki málflutningur sem sæmir neinum því ekkert af þessu er að gerast, ekki neitt. Það er ekki verið að leggja niður neina skóla. Það er ekki verið að skerða kennslu í íslensku. Það er ekki verið að segja upp kennurum í stórum stíl. Þetta er einfaldlega rangt. Það er hægt að tala um að þetta jafngildi hinu og þessu, en auðvitað er verið að læða því inn hjá öllum almenningi með svona málflutningi að það sé þetta sem eigi að gera. Það er einfaldlega rangt. Það tek ég mjög skýrt fram. Það er enn þá unnið að því í menntmrn. að útfæra hvernig þessi niðurskurður verði, en þetta er það sem ég gert sagt á þessu stigi málsins.``
    Þarna kom ýmislegt fram, hæstv. ráðherra sem ég vil minna hann á nú á þessari stundu og ekki að ástæðulausu.
    Í fyrsta lagi kemur hann að því að það sé látið að því liggja að það eigi að gera eitthvað miklu verra en raun sé á. Sannleikurinn er sá að eins og Kennarasambandið stillti því upp fyrir nákvæmlega ári hver niðurskurðurinn yrði að magni til þá má segja að það sé nákvæmlega sá niðurskurður sem raunin varð svo á um. Það munar aðeins 15 kennslustundum á landsvísu. Kennarasambandið hafði reiknað með 4.607, en í svari ráðherra við fyrirspurn kemur fram að þær urðu 4.592. Þarna munar ekki miklu. Og allt dæmið sem kennarasambandið setti upp og samanburðurinn á hvað þetta þýddi í raun var byggður á þessum kennslustundafjölda.
    Ég skal hins vegar viðurkenna að stöðugildum kennara hefur ekki fækkað eins og Kennarasambandið gerði ráð fyrir. Það kom fram sem svar við fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að kennarastöðugildum hafi ekki fækkað nema kannski um 50. Gert var ráð fyrir, ráðherrann sagði um 200, en hið rétta er að Kennarasambandið gerði ráð fyrir að þau gætu orðið 158 ef ég man rétt. Í útreikningum Kennarasambandsins var reiknað með 22% yfirvinnu sem var meðaltalið þá. Nú hefur það aftur á móti sýnt sig að yfirvinna hefur minnkað mjög og þar af leiðandi fækkar stöðugildunum ekki eins mikið og gert var ráð fyrir en aftur á móti kemur þetta niður á launum kennara.
    Það er þetta með íslenskukennsluna. Hæstv. ráðherra var ekki ljóst að þetta lenti á íslenskunni eins og hann sagði. Ég hlýt þá að spyrja þegar hann segir í lok þess máls sem ég hafði eftir honum, með leyfi forseta: ,,Það er enn þá unnið að því í menntmrn. að útfæra hvernig þessi niðurskurður verði.`` Þýða ekki þessi töluðu orð hæstv. ráðherra að það var meiningin að leggja einhverjar línur? ( Menntmrh.: Það var gert.) Hvað var gert? Var það gert? Fengu skólar þær óskir frá ráðuneytinu að ekki væri ætlast til þess að niðurskurðurinn yrði í íslensku? Hæstv. ráðherra talaði alltaf um einhverjar sparistundir fyrir um það bil ári síðan. Það eru náttúrlega þær fjóru frjálsu ráðstöfundarstundir sem voru til staðar og hann hélt að væri svo auðvelt að skera án þess að það lenti á íslenskunni þrátt fyrir það að við margtókum það fram hér að þessir tímar væru líka notaðir í íslensku. Það hefur ráðherrann upplýst nú að sé staðreyndin, að þessar stundir séu notaðar og hafi verið notaðar í íslensku.
    Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á þennan ræðubút hæstv. ráðherra frá síðasta ári heldur snúa mér að öðru. Eins og ég sagði áðan virtist það vera svo að hv. menntmn. og hæstv. ráðherra ætli að leggja til þennan niðurskurð án þess að vita á hverju hann lendir og hafa ekki sérstakar áhyggjur af því.
    Fulltrúi frá Samtökunum Heimili og skóli kom til viðtals við hv. menntmn. og mig langar, með leyfi forseta, að vitna svolítið í það bréf sem þau samtök senda menntmn. Alþingis. Þar segir m.a.:
    ,,Heimili og skóli, landssamtök foreldra/forráðamanna nemenda í grunnskólum, ítreka fyrri mótmæli sín varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum grunnskólans, þ.e. að framlengja skerðingu á kennslutíma og viðhalda fjölmennum bekkjardeildum.
    Daglega finnum við hvernig þessar ráðstafanir koma niður á börnum okkar og gæðum skólastarfs í heild`` og síðan koma nokkur dæmi.
    ,,Í sumum bekkjum fá börn ekki kennslustundir í íslensku og stærðfræði í samræmi við viðmiðunarstundaskrá þrátt fyrir yfirlýsingar menntmrh. um að þessar námsgreinar yrðu ekki fyrir niðurskurði.
    Börn fá ekki lágmarkskennslustundafjölda samkvæmt viðmiðunarstundaskrá því skólarnir treysta sér ekki til að láta kenna list- og verkgreinar í heilum, stórum bekkjum og skiptitímar eru of fáir. Dæmi eru um að bekki vanti 2--5 vikustundir upp á viðmiðunarstundaskrá.``
    Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt mál og hv. 9. þm. Reykv. kom m.a. inn á það að þetta er vegna þess að skólastjórar þurfa að grípa til skiptistunda meira en góðu hófi gegnir. Það kemur þannig út að nemendur fá ekki þær vikustundir sem viðmiðunarstundaskráin gerir að fyrir. Áfram held ég hér, með leyfi forseta:
    ,,Dæmi eru um að skipta verði kennslu í yngri bekkjum milli tveggja eða fleiri kennara til að fylla í stöðugildi þeirra og slíkt eykur óöryggi barna, einkum þegar haft er í huga hversu lítill tími kennurum er ætlaður til samstarfs innbyrðis.
    Síðast en ekki síst eru þessar ráðstafanir slæmar vegna þess hve varanleg áhrif þær hafa á allt skólastarf og skólagöngu barnanna.
    Það er okkur Íslendingum til skammar að við skulum búa svo illa að skólastarfi sem raun ber vitni

með tvísetningu skóla og skorti á nauðsynlegum kennslugögnum. Þjóð sem hefur stigið mörg framfaraskref síðstu 30 árin er komin á villigötur ef hún sættir sig við að börn í dag fái færri kennslustundir en foreldrar þeirra um 1960. Framsækin skólastefna er forsenda endurreisnar atvinnulífs. Frumkvæði og sköpunargáfa eiga erfitt uppdráttar við núverandi aðstæður í skólum.``
    Lýk ég þá tilvitnun í bréf frá Heimili og skóla sem eru samtök sem telja milli 8--9 þús. félagsmenn og ná til alls landsins.
    Síðan er ég með annað bréf frá Heimili og skóla sem sent var öllum alþingismönnum og hv. 9. þm. Reykv. vitnaði í og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það. En einmitt þessi samtök, Heimili og skóli, hvöttu mjög til þess að foreldrar beittu sér gagnvart þessum niðurskurði, enda voru haldnir fjöldafundir um allt land sem foreldrar stóðu fyrir. Hæstv. menntmrh. gaf sér tíma til þess að mæta á þessa fundi og er það að sjálfsögðu virðingarvert. Á þessum fundum lét hæstv. ráðherra það koma fram að þetta yrði bara þetta eina ár og nú hefur hann skýrt af hverju hann sagði það. Það var vegna þess að lögin giltu bara í eitt ár. Þetta var svo einfalt, segir hann. Þess vegna gat hann sagt það að niðurskurðurinn gilti bara í eitt ár. Að vísu bætti hann við á þeim fundi sem ég var á á Akureyri að að vísu gæti verið að Alþingi samþykkti lög sem segðu að þessi niðurskurður gilti lengur, ef þetta Alþingi færi að samþykkja einhver lög sem segðu eitthvað annað. Það fannst mér frekar lítilmannlegt af hæstv. ráðherra því að auðvitað hefði enginn hv. þm. tekið það upp hjá sér að fara að flytja frv. þess efnis að halda áfram þessum niðurskurði í skólamálum.
    Auðvitað er það ríkisstjórnin sem á hér allt frumkvæði og mér finnst ekki sanngjarnt að flytja fólki slíkar hugmyndir um þingið eins og það sé bara eitthvert Alþingi sem gerir þetta en ekki hæstv. ríkisstjórn sem stendur fyrir þessu.
    Í fyrravetur birtist grein í Morgunblaðinu, nánar tiltekið þann 15. febr., sem einn hv. nefndarmaður í menntmn. skrifaði. Heitir hann Björn Bjarnason, hv. þm. Í þessari grein kemur ýmislegt fram sem ástæða er til þess að koma inn á. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. hefur fjarvistarleyfi í dag. Ég hef ekki séð hann hér. ( Gripið fram í: Hann er erlendis.) Nú, hann mun vera erlendis. En ég ætla samt að leyfa mér að vitna örlítið í þessa grein sem ber yfirskriftina ,,Uppnámið í grunnskólanum.`` Þar finnst mér að hv. þm. sé að læða því inn hjá lesendum Morgunblaðsins að Kennarasamband Íslands sé að hóta því að koma á neyðarástandi í skólum. Það er rétt að fulltrúar Kennarasamband Íslands komu til fundar við hv. menntmn. þegar bandormurinn var til umræðu á síðasta ári og formaður Kennarasambandsins lét þau orð falla að þessi niðurskurður gæti leitt af sér neyðarástand í skólunum. Hv. þm. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í kjölfar lagasetningarinnar hefur hins vegar siglt herferð gegn menntmrh. og stjórnvöldum sem hæglega getur leitt til neyðarástands í grunnskólum ef vilji forvígismanna hennar stendur til þess. Í skólum er alið á ótta um að ætlunin sé að kollvarpa starfi þeirra. Þessi áróður setur síðan svip á viðbrögð bæði foreldra og nemenda.``
    Þarna er verið að ýja að því að Kennarasambandið standi fyrir allri óánægju sem m.a. hefur komið fram hjá foreldrum barna landsins. Síðan kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Ástæða er til þess að hvetja menntmrn. að flýta svo sem verða má ákvörðunum um framkvæmd sparnaðarins í grunnskólunum. Þeir sem sjá sér hag af því að ala á ótta í grunnskólunum geta skákað í því skjóli að óvissa ríki um framkvæmdina. Á meðan þeir geta fiskað í gruggugu vatni aukast líkur á að hótunin um neyðarástand rætist.``
    Þetta finnst mér stórt sagt hjá hv. þm. og kannski ekki heiðarlegt að koma með þetta þegar hv. þm. er ekki viðstaddur, en þessi umræðu hefur nokkuð dregist og mér var ekki kunnugt um þegar þessi fundur hófst að hann yrði ekki viðstaddur. Kannski vill hæstv. menntmrh. sýna einhver viðbrögð við þessu.
    Síðan segir hér, ef ég má vitna í 3. kaflann í grein hv. þm.:
    ,,Sumir telja að þörfina fyrir aukna sérkennslu í skólum megi rekja til þess að hætt var að flokka nemendur eftir námsgetu í bekkjardeildir. Aðrir eru hins vegar þeirrar skoðunar að fjöldi nemenda í bekkjardeild auki kröfuna um sérkennslu. Er nauðsynlegt að þetta atriði sé kannað því að sérkennsla er að sjálfsögðu dýrari en almenn kennsla.``
    Þarna hefði mér þótt gaman að fá frekari útlistun á því hjá hv. þm. hvað hann er að fara. Er hann að meina það --- og þá getur verið að það sé stefna Sjálfstfl. og forvitnilegt ef hæstv. ráðherra getur svarað einhverju um það --- að þar sem sérkennslan sé dýrari en almenn kennsla sé ástæða til þess að taka upp gamla kerfið, eða það verði a.m.k. athugað hvort ekki sé rétt að taka bara upp gamla kerfið þar sem nemendum var raðað í bekki eftir getu strax frá sex eða sjö ára aldri. Þessi klásúla í grein hv. þm. fannst mér alveg með endemum og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra mundi fullvissa mig um að þetta sé misskilningur hjá mér. Að hann sé ekki að tala um þetta heldur eitthvað allt annað.
    En þar sem sérkennslan er komin til umræðu þá held ég að ástæða væri til að lesa svolítið upp úr skjali sem fræðslustjórinn í Reykjavík sendi hv. menntmn. þar sem hún gefur góða greinargerð um sérkennsluna í Reykjavík. Ég ætla að leyfa mér að lesa dálítið úr þeirri greinargerð þar sem hún er mjög upplýsandi um þetta efni, með leyfi forseta:
    ,,Frá setningu grunnskólalaga 1974 og fram til 1979--1980 var stuðnings- og sérkennsla áætluð sem viðbót við hvern skóla. Þó hafði Reykjavík alltaf nokkra sérstöðu þar sem sérkennsla hafði verið skipulögð fyrr þar en í öðrum fræðsluumdæmum. Þegar 1978 var sérkennsla í Reykjavík um 2.242 stundir á viku, eða 0,18 sinnum nemendafjöldi. Fræðslustjórar annarra fræðsluumdæma óskuðu fljótlega eftir því að fá hlutfallslega sömu úthlutun og Reykjavík. Reykjavík hafði þá fengið úthlutun um 0,18--0,20 sinnum nemendafjölda í fræðsluumdæminu til sérkennslu.
    Árið 1987 varð veruleg aukning á sérkennslu til Reykjavíkur þar eð þörfin var talin mjög mikil. 1980 verður sú breyting á að úthlutað var einni óskiptri tölu til hvers fræðsluumdæmis. 1986 náðist fram veruleg aukning (23%) á sérkennslu í öðrum fræðsluumdæmum en Reykjavík. Aukningin kom fram ári síðar í Reykjavík.
    1991, með nýrri sérkennslureglugerð, jókst sérkennsla úr 0,22 sinnum nemendafjöldi í 0,23 og 0,25 á fyrstu 1.700 nemendur. Þar með eru önnur fræðsluumdæmi (þau fámennari) komin með hlutfallslega meiri tímamagn til sérkennslu innan almenna grunnskólans en Reykjavík og Reykjanes.
    Samkvæmt þeim tölum sem hér koma fram hefur sérkennslan vaxið úr 2.242 tímum 1978 í 3.263 tíma 1992. Hafa ber þó í huga að nemendum hefur fjölgað í grunnskólum Reykjavíkur á þessu tímabili, úr 12.447 1978 í 12.855 1992. Jafnframt hafa átta nýjar sérdeildir/starfsdeildir fyrir nemendur, sem hafa mikla þörf fyrir sérkennslu, verið stofnaðar á síðustu fimm árum.
    Einnig má benda á að sérkennslunemendum hefur mjög fjölgað á þessu tímabili. Þeir voru um 1.100 árið 1978--1979 og 1.856 árið 1988. Í dag eru þeir nemendur sem þurfa á sérkennslu að halda 2.286 samkvæmt mati kennara og skólastjórnenda í Reykjavík. Auk þess er rétt að taka fram að í sérkennsluáætlun skólanna fyrir undanfarin ár kemur fram að skólarnir fara fram á langtum meira tímamagn til sérkennslu en úthlutað er.
    Árið 1990 fóru skólarnir fram á 5.100 stundir til sérkennslu á viku en fengu úthlutað 3.081 tíma til sérkennslu. Fræðsluumdæmið fór þó í 3.264 stundir alls.`` --- Þá eru hún að tala um Reykjavíkurfræðsluumdæmi.
    ,,Árið 1992 sóttu skólarnir um 5.800 stundir til sérkennslu en fengu úthlutað 3.139 stundum. Fræðsluumdæmið hefur nú farið í 3.264 stundir vegna þeirrar miklu aukningar sem átt hefur sér stað í þessum efnum.``
    Hér hafa einnig verið nefnd þau börn sem búa á þessu svæði og eru ekki talandi á íslenska tungu, börn sem koma erlendis frá. Í því sambandi kemur stutt viðbót frá fræðslustjóranum sem ég ætla að leyfa mér að lesa líka, með leyfi forseta:
    ,,Til viðbótar við þann fjölda nemenda sem þurfa á sérkennslu að halda í grunnskólum borgarinnar eru nú á þriðja hundrað nemendur (221) sem koma erlendis frá og þurfa á verulegri íslenskuaðstoð að halda. Af þeim eru 82 börn sem eru af erlendu bergi brotin og tala litla sem enga íslensku og þurfa mikla aðstoð og 139 börn af íslensku bergi brotin sem hafa dvalið langdvölum erlendis og þurfa á aukinni íslenskukennslu að halda. Sum þessara barna tala og skrifa mjög bjagað mál.``
    Í þessu kemur fram að það er mjög mikill skortur á fjármagni til þess að sinna þessum útlendu börnum þar sem í dag tekið er af þessari sérkennslufjárveitingu í þá þjónustu. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir áðan að þarna væri ekki nógu vel haldið á málum og ég lýsi ánægju með þá yfirlýsingu og vona að hún hafi í för með sér að þarna verði breyting á.
    Það mætti segja margt fleira um þetta mál en ég ætla ekki að fara út í það að endurtaka mínar ræður frá síðasta ári um nákvæmlega sama málefnið. En ég vil segja lokum að það er óhætt að segja að það sé margt sérstakt við okkar þjóðfélag þegar við berum það saman við önnur þjóðfélög. Þar á meðal er þetta vandamál í grunnskólanum. Þá eru það sérstaklega grunnskólarnir á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Nú er ég fulltrúi landsbyggðarkjördæmis og veit að víða á landsbyggðinni eru þessi mál í miklu betra horfi en hér. M.a. er þar yfirleitt samfelldur skóladagur vegna þess að börnin eru keyrð um nokkurn veg í skóla og að sjálfsögðu ekki ástæða til að keyra þau heim í mat, eða eitthvað slíkt. Víða á landsbyggðinni eru þessi mál því í býsna góðu lagi. En aftur á móti eru á Reykjavíkursvæðinu víða uppi gífurleg vandamál vegna þess að skóli er ekki samfelldur og skóladagur er ekki langur. Ég veit ekki hvort ætlast er til að foreldrar grípi inn í og hjálpi en a.m.k. vitum við það að foreldrar hjálpa ekki börnum sínum í nokkru samræmi við það sem var áður fyrr þegar allar konur voru heima og þær voru bókstaflega aðstoðarkennarar heima fyrir. Þessu er því miður ekki að mæta í dag og því er það áhyggjuefni að ekki skuli vera betur staðið að málum grunnskólans. Við heyrum umræðu um lyklabörn og nú er farið að tala um pokabörn, sem eru þau blessuð börn sem fá ekki einu sinni að koma inn heima hjá sér heldur er settur poki á hurðarhúninn með einhverju nesti í. Auðvitað vonum við og trúum því að þetta séu algjör undantekningartilfelli en engu að síður er þetta til og af því hljótum við öll að hafa áhyggjur.
    Ég get ekki sagt annað í lok máls míns en að ég vona að þessi niðurskurður, sem sjálfsagt verður samþykktur með þessum lögum, eigi bara að vera í ár og við þurfum ekki að standa í þessum sporum að ári, hvort sem það verður í desember þessa árs eða janúarmánuði næsta árs, talandi um nákvæmlega sömu hlutina. Það ætla ég að hafa mín síðustu orð.