Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:49:30 (4872)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ekkert ofsagt hjá hv. málshefjanda að hér er um alvarlegt mál að ræða sem hlýtur að vekja mönnum áhyggjur. Þetta mál er mjög vandmeðfarið og ekki auðvelt að taka á því vegna þess að hér er ekki um eiginlega kjaradeilu að ræða. Hér er um það að ræða, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, að 400 af um 700 aðilum í þremur stéttarfélögum hafa sagt störfum sínum lausum frá 1. febr. Það eru ekki stéttarfélögin sem fara með málið gagnvart viðsemjandanum, ríkisvaldinu. Það er starfað og laun greidd samkvæmt síðast gildandi kjarasamningum. Reyndar er staðan sú hjá þessum félögum að tvö af af þremur félögum hafa ekki framlengt kjarasamninga eða samningar eru lausir frá 1. sept. 1992. Eitt félag hins vegar, Ljósmæðrafélagið, hefur samninga sem renna út 28. febr. á þessu ári.
    Því hefur verið haldið fram að meginástæða deilunnar sé samanburður við aðrar sjúkrastofnanir og er þá einkum vikið að Borgarspítala í því sambandi. Borgarspítalinn heldur því fram að þær breytingar sem þar voru gerðar í sumar á starfskjörum hluta hjúkrunarfræðinga á spítalanum hafi ekki leitt af sér aukinn kostnað fyrir spítalann heldur hafi þar verið um að ræða innri hagræðingu á spítalanum. Af þeim ástæðum hefur fjmrn. haft þá afstöðu að það sé eðlilegt, ef viðurkennt er að um misræmingu sé að ræða í launasetningu hjúkrunarfræðinga á Landspítala eða þeim spítölum sem undir stjórnarnefnd Ríkisspítala heyra og Borgarspítala, að það mál verði leyst á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamnings og það sé eðlilegt að yfirstjórn Ríkisspítala og heilbrrn. hafi frumkvæði og forustu í tillögugerð í því efni. Auðvitað mun fjmrn. hafa burði til þess að veita alla aðstoð í því sambandi.
    Það hefur verið mat fjmrn. ef kostnaðarauki yrði af lausn málsins þá þyrfti sá kostnaðarauki að greiðast af fyrirliggjandi fjárveitingu Ríkisspítala eða heilbrrn. ella yrðu menn að taka það fyrir með alveg sérstökum hætti ef til þyrftu að koma einhverjar sérstakar heimildir fjmrn.
    Vegna þess sem hv. þm. nefndi þá er það rétt að heilbrrh. óskar eftir því að uppsagnarfrestur sé lengdur um þrjá mánuði. Með vísun til hæstaréttardóms um túlkun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er það mat ríkisvaldsins og fjmrn. að það sé hafið yfir vafa að að réttum lögum þá beri að framlengja samninga um þrjá mánuði. Ég vona að óskum um slíka framlengingu verði eftir góða athugun vel tekið því eins og hv. málshefjandi sagði er hér mikið í húfi. Hér er um að ræða sérstaklega viðkvæman starfsvettvang þar sem er fólk sem þarf á þjónustu að halda og oft mjög brýnni eins og hv. málshefjandi sagði réttilega frá.
    Hæstv. heilbrrh. er fjarri vegna veikinda. Fjmrh. kemur til landsins um næstu helgi og ég býst við að þessir tveir aðilar gætu þá eftir næstu helgi tekið sameiginlega á þessu máli. Ég tek undir það með málshefjanda að það er brýnt að lausn finnist í málinu, en eins og við vitum er líka áríðandi að sú lausn sem finnist sé ekki til þess fallin að skapa meiri vanda en hún leysir. Stundum gerist það í þessum málum sem eru viðkvæmust allra mála, kjaramálum, að lausnir á einum stað eru til þess fallnar að setja allt á annan endann á öðrum stöðum. Það er mikill vandi.
    En eins og ég segi virðist hér fyrst og fremst vera um samræmingarmál að ræða. Menn eru að meta samræmingu á sínum störfum við störf annarra. Ég er ekki að segja að kjaramálin almennt séu leyst. Ég nefndi það sérstaklega að tvö stéttarfélög af þremur hafa ekki fasta samninga, en það er annað mál en það sem hv. málshefjandi vakti sérstaka athygli á.