Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:54:01 (4885)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að mér nægi sá tími sem ég hef til andsvara vegna þess að flest af því sem hv. þm. ræddi í út af fyrir sig málefnalegri ræðu hefur verið rætt áður. Ég vil aðeins ítreka að ekki er verið að nema þetta ákvæði um skólamáltíðir úr lögum, verið er að fresta þeirri skyldu sem á sveitarfélögin er lögð með þessu ákvæði. Eins og kom fram fyrr í umræðunni, í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, þá er það sem betur fer svo að ýmis sveitarfélög hafa bæði metnað og getu til þess að koma á skólamáltíðum þótt ekki hvíli á þeim einhvers sérstök lagakvöð til þess að gera það. Þess vegna er engin hætta á að mín verði minnst fyrir það að hafa beitt mér fyrir afnámi þessa ákvæðis í grunnskólalögunum því að það hef ég ekki gert og mun ekki gera.
    Hv. þm. ræddi um og spurði hvað kynni að hafa verið gert sem mætti bæta upp fækkun stunda og hann kom þar fram með athyglisverða hugmynd, sem hefur svo sem komið upp áður, þ.e. skólasjónvarp. Sú hugmynd er athyglisverð og hlýtur hún að verða rædd í fullri alvöru og í samvinnu við Háskóla Íslands ef háskólinn kemur upp slíku sjónvarpi.
    Enn er verið að tala um að sparnaðurinn komi niður á íslenskukennslunni og ég vil ítreka að ekki er verið að skera niður með þessum hætti af viðmiðunarstundaskránni. En það hefur komið á daginn að ráðstöfunarstundirnar hafa verið nýttar til íslenskukennslu í mörgum tilvikum. En af viðmiðunarstundaskránni er ekki verið að skera niður. Á það legg ég mikla áherslu.
    Fjölgun í bekkjum er oft og tíðum neyðarúrræði. Mér er það alveg ljóst og það fer auðvitað eftir því hvernig raðast í bekki hvaða afleiðingar það kann að hafa. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði að það getur haft í för með sér agavandamál sem hefur jafnframt í för með sér að erfiðara verður um vik að kenna.