Frestun á fundum Alþingis

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:59:14 (4899)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. liggi fyrir. Hins vegar vil ég láta þá afstöðu mína koma hér fram að ég tel að bráðabirgðalagarétturinn hafi breyst. Ég tel út af fyrir sig að bráðabirgðalöggjafinn geti verið til við tilteknar aðstæður og að vissum skilyrðum uppfylltum. En samkvæmt nýju þingsköpunum horfa þessi mál allt öðruvísi við en þau gerðu áður. Til þess að menn geti fullvissað sig um að það er ekki bara einhver sérviska mín á bak við þetta mál, þá skora ég á menn að lesa þær umræður sem fóru fram um breytt þingsköp á Alþingi á sínum tíma þar sem t.d. núv. hæstv. menntmrh., sem var formaður þeirrar nefndar sem undirbjó þingskapalagabreytinguna, lét það koma fram að hann teldi að bráðabirgðalagarétturinn væri allur annar og miklu þrengri eftir hinum nýju þingsköpum en hinum gömlu.
    Ég vildi, virðulegi forseti, af þessu tilefni og orðum forsrh. láta þessa skoðun mína koma í ljós. Ég tel ekki rétt að bráðabirgðalagarétturinn sé óbreyttur frá því sem var.