Atvinnuþróun í Mývatnssveit

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:12:44 (4915)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar með örfáum orðum að lýsa stuðningi við þessa till. til þál. um atvinnuþróun í Mývatnssveit. Eins vil ég lýsa yfir ánægju með það sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. þess efnis að nú styttist í að fyrir liggi skýrsla um rannsóknir á setflutningum í Mývatni og á niðurstöðu þeirrar skýrslu verði byggð áform ráðherra um framtíð kísilgúrverksmiðjunnar á þessum stað. Því það er rétt, sem hefur komið fram hjá að ég held öllum hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, að sú óvissa sem nú ríkir í Mývatnssveit um framtíð þessarar verksmiðju er mjög af hinu illa. Þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að ráðherra þarf að hafa ákveðnar forsendur við hendina þegar tekin verður ákvörðun um framtíð verksmiðjunnar, þá vil ég að það komi hér fram að því fyrr sem sú niðurstaða liggur fyrir og því fyrr sem ráðherra tekur afstöðu þeim mun betra fyrir þetta sveitarfélag.
    Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að minna á eitt sem tengist atvinnumálum í Mývatnssveit þó það tengist kannski ekki beint þessari tillögu. Við afgreiðslu fjárlaga lagði ég fram brtt. við fjárlög þess efnis að varið yrði 5 millj. til þess að starfsemi sem þarna hafði verið gerð tilraun með og er í formi reksturs skólabúða gæti haldið áfram. Því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga en þar var um að ræða að geta veitt fimm til sex einstaklingum á þessu svæði atvinnu sem er hreint ekki svo lítið mál í sveitarfélagi af þessari stærð.
    Þannig eru ýmsir möguleikar á landsbyggðinni sem veita atvinnu. Þó fimm menn séu kannski ekki margir starfsmenn þegar við lítum til fjárlaga í heild sinni þá er það svo sannarlega mikilvægt fyrir sveitarfélag af þessari stærð. Þetta var kannski útúrdúr en þetta rifjaðist upp fyrir mér á meðan ég hlýddi á þessa umræðu.
    Ég endurtek það að lokum að ég get stutt þessa tillögu en ég vil ekki á þessari stundu tjá mig um í hvaða nefnd hún ætti að fara. Ég vil hugleiða það aðeins frekar ef upp koma fleiri en ein tillaga um það en ég get að mörgu leyti tekið undir sjónarmið hæstv. umhvrh. þess efnis að hér sé verið að fjalla um atvinnumál.