Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:54:13 (4938)

     Karl Steinar Guðnason :

    Frú forseti. Atvinnuástand á Suðurnesjum er skelfilegt og ég minni á að það er verra en nokkru sinni fyrr. Ég vil líka að það komi fram að það hefur verið viðvarandi atvinnuleysi á svæðinu alveg frá því upp úr 1980 og þá var það að heimamenn, verkalýðsfélög og íbúarnir kröfðust þess mjög að hafnar væru sértækar aðgerðir í því skyni að ráða við atvinnuleysisdrauginn.
    Þá var mynduð ríkisstjórn upp úr 1980 og hún gerði sér málefnasáttmála og inn í þann málefnasáttmála var sagt að það ætti að gera sérstakt átak í atvinnumálum á Suðurnesjum. Og hvar haldið þið, hv. þm., að þeir hafi sett þessa setningu? Þeir settu þessa setningu undir kaflann um utanríkismál. Þeir vissu ekki betur um mannlífið á Suðurnesjum, þeir vissu ekki betur um það að fólk lifði þar og hrærðist. Þeir héldu að þetta væri utanríkismál. Nú hafa þeir frétt að það er innanríkismál, atvinnumálin á Suðurnesjum, og ber málflutningur þeirra þess vitni núna úr þessum ræðustól. Vegna þess að þeir hafa frétt þetta að atvinnumál á Suðurnesjum eru innanlandsmál, þá er það mjög eftirtektarvert að nú þegar ríkisstjórn í fyrsta sinn beitir sér fyrir sértækum aðgerðum fyrir Suðurnesin þá er framlag þeirra helst að agnúast út í það og segja: Af hverju kemur þetta ekki? Af hverju kemur þetta ekki? (Gripið fram í.)
    Ég vil upplýsa að það er unnið að því á öllum vígstöðvum að bæta atvinnuástandið á Suðurnesjum og það verður staðið við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið og það verður gert í samráði og samvinnu við heimamenn. Frumkvæði heimamanna skiptir afar miklu máli í þessum efnum. Ég vil geta þess að lokum að svo lítur út fyrir núna vegna þess að loðna hefur fiskast og loðnufrysting er að hefjast að um 130 manns fái atvinnu af því næstu daga. Það er samkvæmt upplýsingum formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.