Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:22:56 (4984)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulei forseti. Ég bar fram þá spurningu áðan hvort þessi tillaga um málsmeðferð hefði verið rædd við formann umhvn. Það hefur ekkert svar borist við þeirri spurningu. Ég ítreka hana hér.
    Eitt er að ráðherrar blandi sér í störf þingsins með þeim hætti að flytja hér tillögu um að málum sé vísað frá þeim nefndum sem fjalla um málefni þeirra eigin ráðuneyta. Hitt væri enn sérkennilegra ef það væri gert án þess að ræða það við formann viðkomandi nefndar áður en tillagan er flutt. Er það virkilega þannig að tillaga hv. umhvrh. hafi ekki verið rædd við hv. formann umhvn., þingmanninn Gunnlaug Stefánsson? Nú sé ég að þingmaðurinn hefur beðið um orðið og ég tel það gott vegna þess að mér finnst mikilvægt að menn átti sig á því að þegar um ágreining af þessu tagi er að ræða er skynsamlegra að reyna að leita lausna fyrir utan þingsalinn. Hæstv. umhvrh. hlýtur að vera ljóst að þegar hann flytur tillögu um annað en flm. leggja til kallar það á sátt í málinu utan við þingsalinn. Þess vegna vildi ég ítreka ósk mína um að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, formaður umhvn., geri grein fyrir því hvort þetta mál og með hvaða hætti hefur verið rætt við hann.
    Síðan vil ég spyrja hæstv. umhvrh. --- af því að ég man það ekki --- hvort lögin sem gilda um Mývatnssvæðið heyri undir umhvrh. Eða fer einhver annar ráðherra með þau lög? Ef það er svo að þau lög sem gilda um Mývatnssvæðið og hafa verið nefnd sérstaklega heyra undir umhvrh. þá nær náttúrlega ekki nokkurri átt að vísa þessu máli til annarrar nefndar en umhvn. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að það komi skýrt fram hvort lögin um svæðið heyra undir umhvrh. eða ekki þótt heitið þjóðgarður sé ekki notað varðandi þá lagasetningu. Þetta tvennt held ég að sé nauðsynlegt að komi fram áður en einstakir þingmenn gera upp hug sinn í þessu máli því að vonandi er þetta ekki mál þar sem flokksagi stjórnarflokkanna er látinn gilda. Ég ætla að vona að svo sé ekki að í þessu máli eigi að beita einhverjum flokksaga stjórnarflokkanna.