Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:41:34 (4991)

     Guðni Ágústsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Hér standa yfir dæmalausar þingtafir og umræður að óþörfu sem stafa af því að einn hæstv. ráðherra reynir að standa gegn vilja flm. Það er þekkt fyrirbæri í þinginu að flm. hafa stundum beðið um að mál sín fari til annarra nefnda en hefð er fyrir. Ég get nefnt dæmi um þingmál sem hafa farið einn vetur í þessa nefnd og næsta vetur í aðra. ( Gripið fram í: Hvaða mál var það?) Það var um lausagöngu búfjár, ef ég man rétt. Óskum þingmanna hefur því yfirleitt verið sinnt. Það sem ég er undrandi á, hæstv. forseti, er hvernig svona umræður geta staðið svona lengi um ekkert efni. Ég vænti þess að hæstv. forseti skeri úr þessari deilu. Mér er ekkert að vanbúnaði að greiða atkvæði um málið. Ég stend með flm. í málinu og er tilbúinn að greiða atkvæði mitt og verði það ekki innan stundar þá held ég að ég fari bara heim.