Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:43:54 (4993)


     Björn Bjarnason (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. umhvrh. um þetta mál. Efni málsins samkvæmt heyrir þessi tillaga undir allshn. Ég minnist þess þegar þau þingsköp voru í smíðum sem við störfum eftir kom fram tillaga um að sérstök byggðanefnd starfaði innan þingsins en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Þá var ákveðið að setja það sérstaklega inn í 1. mgr. 23. gr. þingskapalaganna að byggðamál heyrðu undir allshn. Þessi tillaga heitir Atvinnuþróun í Mývatnssveit og ég sé ekki hvernig menn geta komist að annarri niðurstöðu en þeirri að tillaga um atvinnuþróun í einni af sveitum landsins sé byggðamál og heyri þar með undir allshn. Ef leita þarf álits annarra þingnefnda eins og umhvn. eru einnig venjur fyrir því hér og heimildir í þingskapalögunum að það sé gert og ekkert því til fyrirstöðu.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan að það mætti e.t.v. vísa þessu máli til fjögurra nefnda í þinginu. Ég held einmitt að þetta ákvæði í 1. mgr. 23. gr. þingskapalaganna hafi verið sett til þess að taka af allan vafa í því efni að ef mál vörðuðu byggðamál almennt, þróun byggðar og atvinnuþróun á landsbyggðinni, þá heyrði það mál undir allshn. Mér finnst því ástæðulaust að setja á einhverjar lagaþrætur og velta

fyrir sér lögum sem varða starfssvið umhvrh. Við eigum að starfa eftir þingskapalögunum og samkvæmt þeim á þetta mál heima í allshn.