Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:04:04 (5031)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst láta í ljós ánægju mína með það samstarf sem liggur að baki frv. sem hér liggur frammi, samstarf milli stjórnarflokkanna um samningu og undirbúning að þessu veigamikla og mikilvæga máli. Ég leyfi mér að fullyrða að í þessu frv. felist miklar og mikilvægar réttarbætur á þessu tiltekna sviði en sem kunnugt er hefur ágreiningur oft og tíðum risið um núgildandi lög á þessu sviði. Það hefur af mörgum verið talið, þar á meðal þeim sem hér stendur, að núgildandi löggjöf um húsaleigumál sé ekki með þeim hætti að hún greiði fyrir hagsmunum leigjenda heldur þvert á móti hamli gegn því að húsnæði sé boðið til leigu, dragi þannig úr framboði á húsnæði og verði þar með til þess að leigukostnaður hækki að ástæðulausu.
    Í þessu stóra frv., sem er upp á 85 greinar, er tekið á ýmsum málum sem ágreiningur hefur verið um varðandi gömlu lögin og ýmsar breytingar á þeim gerðar, eins og fram kom í máli ráðherra. Ég tel að í öllum aðalatriðum sé þetta til verulegra bóta. Mér er kunnugt um það að að baki þessu frv. er allvíðtækt samkomulag aðila sem hafa látið sig þessi mál nokkru varða, þar á meðal Leigjendasamtakanna og Húseigendafélags Reykjavíkur. Allt skiptir það miklu máli.
    Ég tel að eins og þetta frv. er úr garði gert eigi að vera tiltölulega fljótlegt fyrir hv. félmn. að vinna úr málinu. Nefndinni bárust á fyrra þingi umsagnir ýmissa aðila um þetta efni og ég tel að málið sé þannig úr garði gert að nefndin ætti að geta lokið afgreiðslu þess á tiltölulega skömmum tíma.
    Hitt vekur nokkra athygli, virðulegi forseti, að enda þótt þetta mál hafi verið til umfjöllunar á síðasta þingi og hafi legið frammi í þó nokkrar vikur, þingmönnum til kynningar, skuli fulltrúi Alþb. í félmn. taka það eina efnisatriði til umfjöllunar hér hvernig hátti til um gildistökuákvæði laganna. Hans eina efnislega framlag til umræðu um þetta stóra 85 greina frv. eru þessar fjórar línur sem eru gildistaka frv. Allt hitt sem hann tók til umræðu kemur þessu frv. ekki við. Spurningar hans um húsaleigubætur varða ekki þetta frv. og koma því máli ekki við. Útúrsnúningar hans og ónot í garð Sjálfstfl. í því efni eru þar af leiðandi út í hött og missa gjörsamlega marks. Félmrh. hefur skýrt nákvæmlega fyrir viðstöddum hvar það mál er á vegi statt. Það er í ákveðinni meðferð milli stjórnarflokkanna og annarra aðila og menn bíði bara rólegir þangað til þeirri meðferð lýkur.
    Ég vara hins vegar við einfeldnislegum niðurstöðum í því efni. Ég vara við því að menn dragi skýrar línur milli annars vegar leigjendahúsnæðis og eigendahúsnæðis vegna þess að það er nú einu sinni þannig að langflestir landsmenn eru einhvern tímann á ævinni í hópi beggja þessara aðila. Menn eru gjarnan leigjendur á fyrri árum ævinnar og verða síðan flestir hverjir eigendur síns eigins íbúðarhúsnæðis síðar á ævinni. Það er ekki einfalt mál að skilgreina hverjir þessir hópar eru eða með hvaða hætti réttlæti sé til skila haldið að því er varðar bætur til þessara aðila.
    Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, um leið og ég fagna því að þetta frv. er komið til umræðu og treysti því að það fái málefnalega umfjöllun í hv. félmn.