Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:40:53 (5089)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna ýmsu sem er í þessu nýja frv. um breytingar á umferðarlögum og það er ýmislegt þar í tíma talað. Það er gert ráð fyrir að bæta ökukennslu. Það er gert ráð fyrir að nemendur fái meiri þjálfun áður en þeir taka bílpróf og það er allt af hinu góða. Það eru gerðar meiri kröfur til ökumanna stærri bifhjóla í þessu frv. en gert er í dag og það er einmitt þar sem stærstu og erfiðustu slysin verða, á þessum stóru bifhjólum, þar sem ungt fólk hefur ekki þroska til að stjórna svo aflmiklum ökutækjum. Þetta er allt af hinu góða.
    En ég vil í framhaldi af því líka taka undir með hv. þm. sem var hér í andsvari áðan, Kristín Ástgeirsdóttir, 18. þm. Reykv., sem talaði um það að henni þætti rétt að skoða hvort aldurinn 17 ár væri ekki of lágur fyrir próf. Mér finnst rétt að skoða það.
    En í sambandi við það sem hv. 3. þm. Vesturl. var að tala áðan um Bifreiðaskoðun Íslands, þá vil ég taka undir hvert orð sem hann sagði. Það er auðvitað alveg ólíðandi að maður t.d. frá Hellissandi sem er bæði með einkabíl og atvinnuökutæki þurfi að fara tvisvar sinnum niður í Borgarnes til að láta skoða ökutæki sitt. Þetta er mjög dýrt og þetta er að mínu mati alger óþarfi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig stendur á því að verið er að leggja niður þessa skoðunarstofu á hjólum, sem miklar vonir voru bundnar við að færi í kringum allt land. Mig langar líka að spyrja: Hvað er svona flókið við bifreiðaskoðanir að það þurfi allt þetta apparat í kringum þær? Ég hélt satt að segja í einfeldni minni að venjulegur bifvélavirki réði við skoðun á bíl. Þetta væri nú ekki flóknara en það. Alla vega trúum við almennum bifvélavirkjum fyrir að gera við ökutæki okkar og ég treysti mér vel til þess að fara með minn bíl í skoðun til löggilts aðila í þessum efnum --- venjulegs bifvélavirkja --- og treysti honum fullkomlega til þess að skoða bílinn minn. Ég skil ekki hvers vegna þetta er svona flókið. Það er verið að gera ýmsar flóknar aðgerðir á sjúkrahúsum og mönnum út um allt land en það er ekki hægt að skoða bíla t.d. á Hellissandi eða Stykkishólmi af því að það er svo flókið.