Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:58:29 (5149)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Nú er 1. umr. um vegáætlun fyrir næstu fjögur ár. Það stingur að sjálfsögðu í augu strax á fyrstu blaðsíðum vegáætlunar að nú þegar eru tölur um framkvæmdaátak til atvinnumála breyttar. Að vísu er ekki komið á hreint að það sé nema fyrir árið 1993, þ.e. árið í ár, að í stað 1.800 millj. verði 1.550 millj. Tölurnar fyrir 1994 og 1995 og 1996 standa enn þá en að sjálfsögðu má alveg eins reikna með því að þær breytist þó að hæstv. samgrh. hafi ekki getið þess í ræðu sinni.
    Ég bendi einnig á að þetta fjármagn átti að fara til framkvæmdaátaks í atvinnumálum. Það átti að fara til aukinnar atvinnu og því skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og það á að fara til atvinnuuppbyggingar innan lands skuli Vegagerð ríkisins áforma að semja við erlendan aðila um verkefni án þess að leita fyrst til innlendra aðila í sambandi við það að kaupa t.d. asfalt og þróa ýmsa nýja tækni. Verktakasambandið hefur gert athugasemd við þá áætlun, þ.e. hvernig Vegagerðin fyrirhugar að semja við erlenda aðila áður en leitað er til innlendra í þessu sambandi. Þá kröfu verður að gera að þeir fjármunir sem eru sérstaklega ætlaðir til atvinnumála nýtist þá til atvinnumála hér á landi.
    Í kaflanum um skiptingu útgjalda kemur einnig fram að til endurnýjunar á malarslitlögum eru áætlaðar á þessu ári um 180 millj. kr. en samkvæmt því sem segir í athugasemdum og hefur áður komið fram í viðtölum við Vegagerðina er orðin mikil þörf á því að endurnýja malarvegi og 180 millj. á þessu ári er ekki einu sinni helmingur af þeirri upphæð sem Vegagerð ríkisins áætlar að þurfi til þess að halda við þeim malarslitlögum sem enn þá eru. Það munu vera um 3 þús. km og það sem áætlað er til þess að endurnýja það er engan veginn sú upphæð sem til þarf. Þó að við á höfuðborgarsvæðinu þurfum ekki að aka mjög mikið á malarvegum þá þurfa margir aðrir landsmenn að hugsa um það að bílarnir þeirra eyðileggist ekki á malarvegunum og því er nauðsynlegt að meira fjármagn færi til þess að halda malarvegunum líka við.
    Ég vildi einnig spyrja hæstv. samgrh. um það sem er áætlað til nýrra þjóðvega, stofnbrauta. Í þeim kafla er höfuðborgarsvæðið nefnt á þessu ári með 413 millj. Eru afborganir á þeim samningi, sem gerður var milli fjmrh. og borgarstjóra í apríl 1991, inni í þeim tölum sem hér eru áætlaðar?
    Þá tek einnig undir gagnrýni fyrri ræðumanns um að það framkvæmdaátak til vegagerðar sem hér hefur verið kynnt, þ.e. að ríkisstjórn eða hæstv. samgrh. hafi tekið ákvörðun án þess að það kæmi fyrst til umfjöllunar í viðkomandi þingmannahópum svo sem venja hefur verið á undanförnum árum. Það hefur reyndar verið gagnrýnt oft í umræðum um vegamál og fleiri mál, m.a. fjármál ríkisins að þetta skuli hafa verið ákveðið svo einhliða án þess að leita samráðs við þingmenn kjördæmisins. Einnig er mjög gagnrýnivert að á sama tíma gera vegalög ráð fyrir því að taka eigi 1,5 milljarða kr. að láni til þess að standa undir vegagerð. Á sama tíma eru 344 millj. kr. teknar af mörkuðum tekjustofnum og lagðar inn í ríkissjóð. Fyrst eru framlög til vegagerðar skert, þ.e. markaðir tekjustofnar og síðan er vegagerð gert skylt að taka 1,5 milljarða að láni. Í framhaldi af því vildi ég einnig spyrja hæstv. samgrh.: Hvernig kemur sú greiðsla til baka, hvernig á að standa að því að greiða það lán? Hvar kemur það inn í þessa vegáætlun? Hvernig er fyrirhugað að það lán verði greitt og hvar sjáum við það í þessari vegáætlun?
    Þá vil ég einnig gera að umtalsefni ferjukostnað sem verður nú færður yfir til Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir 330 millj. kr. til kostnaðar við rekstur ferja en eins og kom áðan fram í máli samgrh. mun sá kostnaður verða margfalt meiri. Samkvæmt upplýsingum sem bárust fjárln. í nóvember á síðasta ári mun sá kostnaður tæpast verða undir 400 millj. kr. eða rúmar 390 millj. og var það lauslega áætlað og útlit fyrir að það verði enn meira þar sem ekki var búið að taka allt með inn í dæmið. Eftir er að skoða algerlega hvaða reglur eiga að gilda um það hvernig úthlutað verður til þessara ferjumála. Það hefur komið fram að rekstur muni trúlega verða óbreyttur á þessu ári enda fjárlagaárið hafið. Ef svo fer sem horfir að þessi rekstur verði alfarið á vegum Vegagerðarinnar þá þarf að gera grein fyrir því hvernig því muni vera skipt og verði breyting á rekstri ferja þá er líka spurning hvort sú hagræðing mun þá koma vegagerð á viðkomandi stöðum til góða.
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég vildi einnig nefna það í sambandi við þá áætlun sem hér hefur verið gerð um stórverkefni, og það kemur inn á það að ekki var haft samráð við þingmannahópa, að hér skuli Gilsfjarðarbrú ekki hafa verið inni í því dæmi rétt eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Einnig má minna á að það er hluti af því loforði, sem gefið var þegar Austur-Barðastrandarsýsla sameinaðist í eitt sveitarfélag, var að samgöngur yrðu efldar og Gilsfjarðarbrú var sterklega inni í því dæmi.