Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:07:47 (5150)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að við síðari umræðu verði ákvæðum 55. gr. þingskapa beitt og umræða um þessa framkvæmdaáætlun verði ótakmörkuð. Ég ber þessa ósk formlega fram og vona að forseti komi henni á framfæri.
    Ég gagnrýni það eins og ég hef reyndar áður gert að í þessari vegáætlun er sú nýbreytni tekin upp að gert er ráð fyrir umtalsverðri skerðingu á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar, ekki einungis til eins árs heldur út áætlunartímabil þessarar vegáætlunar. Á hverju ári, á þessu yfirstandandi ári og næstu þrjú árin, er gert ráð fyrir því að umtalsverðir fjármunir renni í ríkissjóð af hinum mörkuðu tekjum Vegagerðarinnar. Vegáætlun hefur aldrei áður verið sett upp á þennan hátt og það er auðvitað dapurlegt nýmæli að horfa til þessarar framtíðar.
    Að mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar er þrengt með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi með beinni upptöku markaðra tekna í ríkissjóð upp á 344 millj. kr. á þessu ári og síðan nokkrum minni upphæðum á árunum sem í hönd fara. Í öðru lagi með því að verkefni eru færð yfir á Vegagerðina og þar af leiðandi hina mörkuðu tekjustofna sem áður hafa verið greidd úr sameiginlegum sjóði, ríkissjóði. Þar er ferju- og flóabátareksturinn á ferðinni og væntanlega upphæðir sem verða á bilinu 300--500 millj. kr. á næstu árum.
    Í þriðja lagi, og það hefur kannski minnst verið rætt en er engu að síður alvarlegt, er svo að ríkissjóður fer inn á þennan skattstofn þó þar sé ekki um að ræða hlutdeild í hinum markaða tekjustofni með sérstakri viðbótarskattlagningu á bensín upp á mörg hundruð millj. kr. sem rennur nú í ríkissjóð og liggur í hlutarins eðli að þar með er seilst inn á þennan tekjustofn sem Vegagerðin hefur haft og tekur þá ríkið til sín ekki aðeins í formi aðflutningsgjalda af bensíni heldur líka beinlínis með sérstöku bensíngjaldi. Þetta leiðir svo til þess, hæstv. forseti, að þegar framkvæmdafé Vegagerðarinnar er skoðað á þessu ári er það minna nú en tvö sl. ár sem rennur til framkvæmda í vegamálum af eiginlegu aflafé Vegagerðarinnar. Þegar tekin er niðurstöðutala hinna mörkuðu tekjustofna að frádregnu því sem fer í ríkissjóð eru þar á ferðinni samkvæmt vegáætluninni 5.716 millj. Ef frá þeirri tölu eru dregnar 330 millj., sem fara til reksturs á ferjum, standa eftir 5.386 millj. kr. sem Vegagerðin hefur til framkvæmda á þessu ári af eigin aflafé og þarf ekki að endurgreiða. Það er lægri tala en var til framkvæmda bæði árin 1992 og 1991. Með öðrum orðum er sú aukning vegaframkvæmda sem mikið hefur verið til umræðu og vissulega er fyrir hendi í þessari vegáætlun öll tekin að láni og rúmlega það. Hún hlýtur því að endurgreiðast og samkvæmt yfirlýsingum fjmrh. og ríkisstjórnar á hún að endurgreiðast af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar á komandi árum. Þess vegna eru tilfinningar manna vægast sagt blendnar svo ekki sé meira sagt þegar þessi flýting framkvæmda, sem vissulega getur átt fullan rétt á sér og verið af hinu góða, er skoðuð, fyrst og fremst vegna þess að á sama tíma er gengið á hinar mörkuðu tekjur Vegagerðarinnar þannig að hún hefur minna en ekki meira til framkvæmda af eiginlegu aflafé.
    Í fjórða lagi vil ég nefna vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar eins og hv. 1. þm. Austurl. hefur reyndar þegar gert og get ég vísað til þess sem hann sagði. Það var ákaflega óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, hvernig hæstv. ríkisstjórn stóð að þeim hlutum sl. haust og slæmt vegna þeirrar samstöðu sem um þennan málaflokk hefur ríkt lengst af allt frá tímum skipulagðrar áætlunargerðar í vegamálum sem staðið hefur um 15 ára skeið eða svo. Vinna Alþingis að þessum málum hefur ekki síst átt að þjóna þeim tilgangi að laða fram sem mesta mögulega samstöðu um forgangsröð og framkvæmdatilhögun í vegamálum og það hefur tekist mjög vel á undanförnum árum eða áratugum eins og kunnugt er.
    Hæstv. samgrh. hefur á köflum tekið nokkuð ógætilega til orða um þessi mál og eins og einn flokksbróðir hans, hv. 3. þm. Suðurl. hefur stundum orðað það, kannski orðið það á að tala áður en hann var fullkomlega búinn að hugsa. Eitt af því sem hæstv. ráðherra hefur margoft kastað fram á undanförnum missirum eru lítt grundaðar fullyrðingar um nauðsyn þess að næsta stórframkvæmd í vegamálum á eftir Vestfjarðagöngum verði tenging Norðurlands og Austurlands. Það er í sjálfu sér hið þarfasta mál og hefur oft áður verið rætt á Alþingi, m.a. af þeim sem hér talar, við afgreiðslu fyrri vegáætlana að í þetta verkefni þurfi að reyna að ráðast. En þá skiptir miklu máli að um það sé fjallað í samhengi við vegaframkvæmdir á þessu svæði og í landinu öllu að öðru leyti.
    Ég tek undir það sem hv. 1. þm. Austurl. sagði hér áðan. Það verður auðvitað að horfa á það hvernig á að tengja Norðurland og Austurland. Ætla menn að gera það með meiri háttar vegagerð yfir hálendið þar sem vegur mundi liggja í 400--600 metra hæð yfir sjó svo hundruðum kílómetra skiptir um óbyggð svæði eða vilja menn horfa til þess að mynda heilsárstengingu Norðurlands og Austurlands með endurbótum á leiðinni með ströndinni sem þannig mundi jafnframt þjóna byggðinni á norðausturleiðinni, 2.500 íbúum sem byggja svæðið frá Húsavík til Vopnafjarðar?
    Þá þarf að huga að því að ekki er nóg að leggja vegi og byggja þá upp. Það þarf líka að reka þá. Telur hæstv. samgrh. líklegt að svo myndarlega verði veitt til vegamála og reksturs vegakerfisins á næstu árum að menn eigi þess kost að halda opnum mörgum mismunandi leiðum um sama landsvæðið? T.d. þannig að halda opinni norðausturleiðinni frá Húsavík til Vopnafjarðar með reglulegum mokstri 2--3 daga í viku og jafnvel yfir Hellisheiði til Héraðs en jafnframt leið yfir öræfin fyrir þá umferð sem þar vildi fara. Ætli snjómoksturskostnaður á þessum leiðum báðum mundi ekki taka í á snjóþungum vetrum ef halda ætti þeim opnum samtímis. Ég tala nú ekki um ef Öxarfjarðarheiðin bættist svo við, sem hæstv. ráðherra er mikill áhugamaður um að gera að heilsársvegi. Þá yrðu leiðirnar ekki tvær heldur að hluta til þrjár sem halda ætti opnum yfir vetrartímann og tengja byggðarlög á norðausturhorni landsins. Ég held að menn þurfi jafnframt að huga að svona þáttum áður en þeir a.m.k. hrapa að niðurstöðum í þessum efnum. Ég er sannfærður um að þingmannahópar Norðurlandskjördæmis eystra og Austurlands eru tilbúnir til að setjast niður og skoða þessi mál. Ég legg til --- og vona að hæstv. samgrh og því ekki vegamálastjóri einnig heyri mál mitt --- að þingmannahópar Norðurlands eystra og Austurlands fundi sameiginlega um þessi mál, um tengingu Norðurlands og Austurlands og um samskipti og samgöngur innan þeirra byggðarlaga sem þar snertast. Það er fyllilega tímabært og þarft að svo sé gert. Þannig á að vinna að málinu og þannig á að undirbyggja niðurstöðuna en ekki gefa sér hana fyrir fram.
    Hæstv. samgrh. hefur því miður farið út á þá braut að hafa nokkur óviðurkvæmileg ummæli að mínu mati um ýmislegt var á búi því er hann tók við fyrir nokkru síðan. Ég hef ekki tíma, hæstv. forseti, til að svara því sem vert væri og skyldi. En af því að hæstv. ráðherra nefndi ferjur, þá hlýt ég að mótmæla og harma þau ummæli sem hæstv. ráðherra hafði uppi á einhverjum æsingafundum þeirra sjálfstæðismanna norður í landi að hann hefði tekið við óreiðu í þeim efnum, að þar hefði verið um að ræða órökstuddar og óþarfar fjárfestingar. Ætla mátti af orðum hans að þar væri fyrst og fremst við forvera hans í starfi að sakast. Þetta var í fyrsta lagi ekki drengilegt, í öðru lagi rangt og í þriðja lagi ef við einhvern er að sakast þá er það Alþingi sem þar á í hlut sem hefur samþykkt og heimilað og rætt allar þessar fjárfestingar.
    Reyndar eiga þá fleiri en fyrrv. samgrh. þarna hlut að máli. Ég hygg að ákvarðanir sem þessu tengjast þá séu ekki síður komnar til t.d. í ráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar. Þannig á við ákvörðun um endurnýjun Breiðafjarðarferjunnar Baldurs o.s.frv. Hvað rekstrarformið snertir sem þarna hefur verið við lýði um áratugaskeið, þá voru engar breytingar gerðar á því í minni tíð í samgrn. Ásakanir um að það hafi verið í óreiðu af þeim sökum koma þá við fleiri en þann sem hér talar a.m.k.
    Hæstv. forseti. Mér skilst að ræðutími minn sé búinn og er þá ekki um það að sakast. Ég vil þó leyfa mér að gera þá athugasemd, hæstv. forseti, að með vísan til þess að ákvæði nýju þingskapanna breyta í veigamiklum atriðum umræðutíma sem áður var fyrir hendi við afgreiðslu meiri háttar framkvæmdaáætlunar af þessu tagi hefði ég talið eðlilegt að hæstv. forsetar gerðu þingmönnum aðvart um það áður en slíkar umræður hefjast að sérstaklega þurfi að óska eftir því að um lengri ræðutíma verði að ræða. Ég fer fram á að næst þegar meiri háttar framkvæmdaáætlanir af þessu tagi verða teknar hér á dagskrá og áður en fyrri umræða hefst, þá geri forseti mönnum viðvart um að þeir þurfi að gefa merki óski þeir eftir því að um ótakmarkaðan ræðutíma verði að ræða.