Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:33:48 (5177)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Umræður í þinginu virðast hafa þróast á nokkuð svipaðan hátt og veiðiskapur í fiskveiðilögsögunni, þ.e. andsvörin eru eins og krókaleyfin, menn eru farnir að verða ansi frekir til fjörsins í þeim efnum. En hér hefur komið fram sú skýring að væntanlegt samgönguráðherraefni eigi hlut að máli og kannski eigum við eftir að sjá þá breytingu.
    Ég tel að í umræðum um vegamál hljótum við í fyrsta lagi að telja að formsins vegna sé rétt að á fyrstu blaðsíðu standi: Markaðar tekjur fært í ríkissjóð og svo komi lántökur. Það er hið rökrétta heiti þó vissulega sé rétt að þær hafi fengist í gegn vegna þess að menn vita að vegagerð er atvinnuskapandi. En það eru líka þær framkvæmdir sem fást með mörkuðum tekjustofnum og þrátt fyrir allt er meginmarkmið með vegagerð að leggja vegi en ekki að skapa atvinnu. Það hygg ég að við hæstv. samgrh. séum sammála um því þá tækju menn náttúrlega upp allt önnur vinnubrögð, notuðu hjólbörur og haka ef hugsunin væri bara sú að skapa atvinnu.
    Ég held aftur á móti að í umræðunni sem hér fer fram þurfi ekki að deila svo mjög um að ýmsar breytingar eiga sér stað. Hér eru flóabátarnir settir inn. Því fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir liggja í því að þá verður horft heildstæðara á hvað menn eru að gera í samgöngumálum. Það tel ég tvímælalaust af hinu góða. Hættan liggur aftur á móti í því að sumum finnist að hægt sé að ganga ótæpilega á vegaféð og nota það til flóabátastarfsemi.
    Út úr samgönguþættinum hafa farið fjárveitingar til Skipaútgerðar ríkisins og það gerir að verkum að sums staðar er enn þá brýnna en áður var að hraða vegaframkvæmdum. Og ég held að kjarni málsins sé sá að það verður að fást almennari skilningur á því að vegaframkvæmdir lúta ekki sömu reglum og þegar við erum að verja fé hvort heldur er til skólamála eða heilbrigðismála. Fjármunirnir, sem varið er til vegaframkvæmda, eru tekjur sem Vegagerðin fær vegna þess að vegir eru til í landinu. Menn eru að greiða þennan skatt fyrir það að ferðast eftir þessum vegum. Ef sá skattur væri núna að fullu innheimtur eins og lög leyfa væri bensíngjaldið sennilega um 250 millj. kr. hærra á því ári sem nú er að líða en hugmyndir eru uppi um.
    Ég segi þetta til að benda á það að það verður beint samræmi á milli þess hvað er að gerast í vegamálum og þess hvaða tekjur við höfum. Ég vil að það sé litið á Vegagerðina sömu augum og Póst og síma hvað það snertir að þarna sé um tekjur að ræða sem byggjast á umferðinni og ef við náum árangri í því að bæta samgöngunetið, þá verða tekjurnar meiri og þar af leiðandi líka, eins og fram hefur komið, til hagsbóta fyrir þá sem fara um vegina.
    En það er fleira sem skiptir miklu meira máli en þetta eitt. E.t.v. mun hæstv. samgrh. hafa höfuðáhrif á þá þróun hvort ferðamannastraumur til landsins eykst eða ekki. Hann ber höfuðábyrgð á þeirri þróun. Þegar ég segi þetta minni ég á þá staðreynd að sá sem hefur stýrt markaðsstarfi bændagistingar lét þau orð falla á ráðstefnu um þessi mál á Hvanneyri að þrír af hverjum fjórum útlendingum sem vildu koma til landsins hættu við þegar þeir heyrðu hvaða verð væri á bílaleigubíl á Íslandi, þ.e. þriðji hver sem leitaði eftir gistingu í því formi að um bændagistingu væri að ræða. Eini möguleikinn til að ná bílaleigukostnaði verulega niður í landinu eru bættir vegir. Það er lykillinn að því að ná þessum kostnaði niður og það er lykillinn að því að fá fleiri ferðamenn til að feraðst um landið.

    Hitt er svo líka ærið umhugsunarefni ef við hugsum okkur að fjölskyldur sem eru að taka ákvarðanir um hvernig þær ætla að verja sínu sumarfríi eru að greiða stórfé til íslenska ríkisins ef þær taka ákvörðun um að verja sínu sumarfríi innan lands. Þá eru þær að greiða skatta af öllu því fé sem þær greiða fyrir þessa þjónustu. Hvað skyldi hafa meiri áhrif á það en nokkurt annað hvort þær verja sínu sumarfríi innan lands? Það er ástand veganna. Búa menn við það hættuástand að ef þeir ferðst, t.d. hringveginn, geti það legið fyrir að lakkið á bílnum sé stórskemmt þegar þeir komast á leiðarenda? Eða búa þeir við það ástand að þeir eigi nokkuð öryggi í því að komast með bílinn sæmilega heilan heim?
    Þetta segi ég hér vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt stefna að taka lán til vegagerðar og hraða framkvæmdum. Aftur á móti get ég ekki samþykkt að það geti verið réttlætanlegt að færa tekjur frá Vegagerðinni í ríkissjóð. Það er ekki réttlætanlegt. Það er ekki réttlætanlegt vegna þess að uppbygging veganna er e.t.v. mesti og besti lykillinn að auknum hagvexti í landinu.
    Hæstv. samgrh. hefur mörg skemmtileg viðfangsefni við að glíma í samgöngumálum landsins. Hann þarf á sumum sviðum að marka afgerandi stefnu um það hvað beri að gera. Ég hef varpað þeirri spurningu til sitjandi samgrh. og vil endurtaka hana hér: Hver er stefnan varðandi einbreiðu brýrnar? Á að halda áfram að byggja einbreiðar brýr á stofnbrautum landsins? Á að halda áfram að útbúa þessar slysagildrur sem í framtíðinni eiga eftir að verða til þess að valda dauðsföllum? Er ætlunin að breyta um stefnu varðandi það að á stofnbrautum landsins verði ekki haldið áfram að leggja einbreitt slitlag heldur aðeins tvíbreitt slitlag? Ég varpa báðum þessum spurningum fram en ætla að nýta minn tíma seinna til að tala aftur við þessa umræðu.